Í vikunni var tilkynnt um það að Amazon væri að undirbúa - í samvinnu við Goldman Sachs - lánastarfsemi til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þetta er stærsta skrefið sem Amazon hefur stigið til þessa, inn á fyrirtækjamarkað í fjármálageiranum, og þykir marka tímamót af ýmsum ástæðum.
Í umfjöllun Financial Times, sem greindi fyrst frá þessum áformum, kom fram að Amazon hygðist nýta sér gögn sem fyrirtækið býr yfir, til að bjóða betri kjör á lánsfé og ná einnig til fyrirtækja - eins og birgja fyrir smásölufyrirtæki - sem þurfa oft á brúarfjármögnun að halda til að ljúka viðskiptum sínum, t.d. í gegnum Amazon.
Goldman Sachs is in advanced talks with Amazon to offer small business loans in the US, as the Wall Street bank turns to Big Tech to break into mainstream areas of financial services https://t.co/Z9QFK5ItPK pic.twitter.com/ajS4WkoVrC
— Financial Times (@FinancialTimes) February 3, 2020
Í því samhengi má taka dæmi af fyrirtæki sem kaupir inn matvæli fyrir mötuneyti á Amazon, og getur þá tekið lán í gegnum fyrirtækjaaðgang sinn hjá Amazon, og þannig lokið viðskiptum sínum. Þannig hjálpar Amazon viðskiptavinum að ljúka stærri viðskiptum, en hefðbundnum einstaklingsviðskiptum, og nær þannig til stærri viðskiptavina með því að veita þeim lán.
Ólík nálgun
Nú þegar hafa fyrirtæki eins og Facebook, Amazon, Apple og Alphabet (Google) fengið heimild til að reka bankastarfsemi í Evrópu. Þau hafa hins vegar ekki hafið jafn umfangsmikla fjármálastarfsemi og reyndin er í Bandaríkjunum.
Breytingar á regluverki í Evrópu hafa opnað á að greiðslumiðlun færist í meira mæli frá bönkum og til annarra fyrirtækja á sviði fjártækni.
Í Bandaríkjunum hefur þróunin verið önnur, enda regluverkið í Evrópusambandinu ekki það sama.
Í Bandaríkjunum hafa stærstu bankarnir í landinu unnið náið með tæknirisunum og farið inn á neytendamarkað, t.d. í samstarfi um útgáfu á greiðslukortum og neytendalánum sem þeim tengjast.
Má þar nefna samstarf Amazon og JP Morgan Chase, þegar kemur Amazon Prime greiðslukortunum, og síðan samstarf Goldman Sachs og Apple með Apple greiðslukortunum.
Í þessu felst skref hjá tæknirisunum til að fara inn á fjármálamarkað, en í samstarfi við banka. Þetta er meðal annars gert til að tæknifyrirtækin geti uppfyllt reglur á fjármálamarkaði þegar kemur að greiðslumati í Bandaríkjunum (Credit Score System) en aðeins er hægt að veita þeim greiðslukort sem stenst það mat.
Þetta er flókinn heimur, enda eru reglur um greiðslumat ekki alltaf sambærilegar milli ríkja innan Bandaríkjamarkaðar.
Það sem tæknifyrirtækin hafa fram yfir banka - ekki síst Amazon - eru dýpri gögn um viðskiptavini, sem hjálpa til við mat á áhættu við t.d. lánastarfsemi.
Welcome to Sony Finance, the financial services arm of @Sony group, as our new shareholder to helps us grow the digital securities space. https://t.co/gqJdQQGYHI
— Carlos Domingo (@carlosdomingo) February 4, 2020
Hvað með alþjóðamarkaði?
Tæknifyrirtæki stóru eru að þessu leyti í einstakri stöðu til að fara hratt inn á fjármálmarkaði, og marka sér stöðu þar í gegnum viðskiptasamband við fólk um allan heim. Það sem mun ráða því hvað þetta gerist hratt, er hvernig regluverkið verður mótað á hverju markaðssvæði fyrir sig.
Til dæmis mun Ísland þurfa að móta sýn á þessi mál, líkt og Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, minntist í lokorðum sínum, þegar hann lét af embætti. Það getur verið stórt og viðamikið mál fyrir lítið land eins og Ísland, ef greiðslumiðlun færist að stóru leyti úr landi - og lánastarfsemi jafnvel líka, líkt og reyndin gæti orðið í gegnum fyrirtæki eins og Amazon.
Tiltölulega ný staða
Á undanförnum áratug hafa orðið miklar breytingar á mörkuðum, með auknu vægi tæknifyrirtækja - einkum þeirra stærstu - í daglegri starfsemi fjölmargra fyrirtækja. Þetta hefur meðal annars endurspeglast í gífurlegri aukningu á markaðsvirði þeirra og tekjum. Sem dæmi er markaðsvirði Amazon nú um 13 falt meira en hjá Goldman Sachs, og líklegt munurinn aukist enn meira á næstu misserum, enda fátt sem bendir til annars en að tæknirisarnir stækki áfram hratt.