Það var hagvöxtur í fyrra, en hann verður lítill í ár í köldu hagkerfi
Útlit er fyrir að hagvöxtur í ár og á næsta ári verði minni en búist var við. Í fyrra óx hins vegar landsframleiðsla, þvert á nær allar spár. Samhangandi hagvaxtarskeið Íslands hefur því staðið yfir frá árinu 2011.
Gengið hefur verið út frá því að samdráttur hafi verið í íslenska hagkerfinu á síðasta ári. Í nóvember gerðu hagvaxtarhorfur ráð fyrir því að hann yrði 0,2 prósent. Það þótti skaplegt, enda efnahagskerfið búið að ganga í gegnum ýmis áföll á árinu 2019 með gjaldþroti WOW air, loðnubresti og vandræðum Icelandair Group vegna kyrrsetningar á 737 Max-vélunum. Afleiðingin af vandræðum flugfélaganna varð meðal annars sú að ferðamönnum sem heimsóttu Ísland fækkaði um 329 þúsund á síðasta ári, eða sem nemur nánast einni íslenskri þjóð, en hún telur nú um 364 þúsund manns. Þá fækkaði gistinóttum líka um 3,1 prósent á milli ára.
Þeir ferðamenn sem komu eyddu hins vegar meira og í gang fór tímabær aðlögun víðsvegar í atvinnulífinu þar sem stöndug fyrirtæki gátu styrkt sig en þau sem byggðu ekki á jafn styrkum stoðum þurftu frá að hverfa.
Nú liggur hins vegar fyrir, samkvæmt nýrri hagvaxtarspá sem greint er frá í febrúarhefti Peningamála Seðlabanka Íslands, að það var hagvöxtur í fyrra. Hann var 0,6 prósent og því er ljóst að hagvaxtarskeiðið sem hófst árið 2011 stendur enn yfir. Þótt að landsframleiðslan hafi aukist lítillega í fyrra þá er sú aukning ekki í neinum takti við það sem átti sér stað árin áður. Mestur varð hagvöxturinn á þessu tímabili 2016, 6,6 prósent, en minnstur 1,3 prósent árið 2012. Árið 2018 var hann 4,8 prósent.
Lakari hagvaxtarhorfur 2020 og 2021
Það eru jákvæð tíðindi að Ísland hafi náð hagvexti þrátt fyrir þá lendingu sem efnahagskerfið átti í fyrra eftir svimandi hátt flug áranna á undan. Sú lending varð mjúk, og mun mýkri en margir höfðu spáð. Þar spiluðu inn í lífskjarasamningar sem undirritaðir voru í apríl við stóran hluta almenns vinnumarkaðar og gerðu ráð fyrir hóflegum launahækkunum á síðasta ári.
Í Peningamálum Seðlabankans, sem birt eru í dag, kemur hins vegar fram að hagvaxtarhorfur fyrir 2020 og 2021 hafi versnað frá því í fyrrahaust.
Þar segir að í stað þess að aukast lítillega sé nú útlit fyrir að útflutningur vöru og þjónustu dragist saman í ár og yrði það í fyrsta sinn frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar sem útflutningur dregst saman tvö ár í röð. „Hægari bati í ferðaþjónustu, framleiðsluhnökrar í áliðnaði og loðnu - brestur annað árið í röð vega þar þungt. Þá hækkaði álag á vexti fyrirtækjalána nokkuð undir lok síðasta árs sem veldur því að nú er talið að atvinnuvegafjárfesting aukist hægar í ár og á næsta ári en áður var spáð.“
Því er talið að hagvöxtur í ár verði einungis 0,8 prósent, en í nóvember hafði Seðlabankinn spáð því að hann yrði 1,6 prósent. Væntur hagvöxtur 2020 hefur því helmingast á örfáum mánuðum samhliða versnandi horfum í atvinnulífinu.
Spár gera þó ráð fyrir því að hagvöxtur taki við sér á næsta ári og verði 2,4 prósent. Það er hins vegar líka minna en spáð var í nóvember, þegar búist var við 2,9 prósent hagvexti á árinu 2021. „Horfur fyrir árið 2022 breytast hins vegar lítið samkvæmt Peningamálum.
Tökum aðlögum út í atvinnuleysi
Sögulega hefur íslenska krónan gefið eftir, þ.e. gengi hennar hefur veikst, samhliða því að áskoranir herja á efnahagslífið. Sömuleiðis hefur verðbólga þá látið á sér kræla. Því er ekki að skipta nú. Verðbólga á Íslandi er 1,7 prósent og hefur ekki verið minni frá því í september 2017. Hún er því langt undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sem er 2,5 prósent.
Þess í stað er aðlögun efnahagslífsins tekin út í gegnum atvinnuleysi, líkt og er vaninn í mörgum öðrum vestrænum markaðshagkerfum. Atvinnuleysi mælist nú 4,3 prósent og hefur ekki verið hærra hérlendis frá því um vorið 2013. Hæst er það á Suðurnesjum, svæði sem er mjög háð háu atvinnustigi í ferðaþjónustu, þar sem það mælist 8,7 prósent. Til samanburðar er meðaltal atvinnuleysis á evrusvæðinu 7,4 prósent.
Í Peningamálum segir að búist sé við því að atvinnuleysið aukist fram eftir ári. Samandregið er þar komist að eftirfarandi niðurstöðu: „Horfur eru því á að slakinn í þjóðarbúinu vari lengur en áður var talið.“
Lækkun vaxta hefur ekki skilað auknu súrefni
Til að bregðast við þessari stöðu þá lækkað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands stýrivexti í morgun niður í 2,75 prósent. Meginvextir Seðlabanka Íslands hafa aldrei verið lægri á meðan að núverandi peningastefna hefur verið við lýði. Alls hafa stýrivextir því lækkað um 1,75 prósentustig frá því í maí síðastliðnum þegar yfirstandandi vaxtalækkunarferli hófst.
Þessar vaxtalækkanir áttu að veita súrefni inn í efnahagskerfið. Þ.e. hvetja til frekari lánastarfsemi. Sú þróun hefur staðið verulega á sér.
Heimili landsins hafa reyndar haldið áfram að taka fasteignalán, enda hafa kjör þeirra snarbatnað á síðustu árum þótt þau séu enn töluvert frá því sem þekkist til dæmis innan Evrópusambandsins. Sú mikla hækkunarhrina á íbúðarhúsnæði sem fært hefur miklar eignaaukningu á pappír til þeirra sem eiga slíkt virðist þó vera að lokum komin, að minnsta kosti í bili.
Útlán til fyrirtækja landsins hafa hins vegar, svo vægt sé til orða tekið, staðið á sér. Bankakerfið er frekar að draga úr allri þjónustu við hefðbundið atvinnulíf. Útlán þess til fyrirtækja drógust saman um 60 prósent í fyrra. Stóru viðskiptabankarnir eru einfaldlega ekki að miðla fjármagni út til fyrirtækjanna í landinu. Það er yfirlýst stefna þeirra að einhverju leyti. Arion banki hefur til að mynda greint frá því að hann ætli að minnka umfang fyrirtækjaútlána um fimmtung fyrir næsta haust.
Við blasir að ákvörðun um að lækka vexti enn frekar er tilraun til að veita auknu súrefni inn í atvinnulífið.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði