Mynd: 123rf.com

Krónan eftir höft: Stöðugleiki og stöðnun

Íslenska krónan, gagn hennar og lestir, er eitt helstu þrætuepli íslenskrar þjóðar. Frá aldarmótum hafa farið fram þrjár mismunandi tilraunir í að stýra henni þannig að gagnsemi krónunnar sé sem mest, en að lestir þessa örgjaldmiðils láti sem minnst á sér kræla. Þessar tilraunir hafa gengið misjafnlega. Síðustu daga hefur Kjarninn fjallað um þær. Í þessari síðustu grein verður tímabilið frá því að höft voru að mestu afnumin 2017 og fram til dagsins í dag, greint.

Í sept­em­ber 2012 birti Seðla­banki Íslands rit sem bar heitið „Val­kostir Íslands í gjald­mið­ils- og geng­is­mál­u­m“. Ritið er 623 blað­síður og mjög ítar­leg grein­ing á þeim val­kostum sem standa Íslandi, þess­ari nú 364 þús­und manna þjóð í miðju Atl­ants­hafi, til boða. 

Nið­ur­staða þess hóps sér­fræð­inga sem vann rann­sókn­ina, og skrif­aði rit­ið, var að raun­hæfir val­kostir Íslands í gjald­miðla­málum væru tveir; íslensk króna með ákveðnum þjóð­hags­var­úð­ar­tækjum og evra í kjöl­far inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið og evr­ópska mynt­banda­lag­ið.

Á þeim tíma sem ritið var unnið var Ísland enn í því ferli að ganga í Evr­ópu­sam­band­ið. Það ferli rann sitt skeið eftir þing­kosn­ing­arnar 2013, þegar ný rík­is­stjórn Evr­ópu­sam­bandsand­stæð­inga tók við völdum á Ísland­i. 

Því hefur í raun ein­ungis einn kostur verið í gjald­miðla­málum hér­lendis á und­an­förnum árum: íslensk króna sem fær ekki að lúta lög­málum frjálsra gjald­eyr­is­við­skipta, heldur er studd með hækjum í formi þjóð­ar­var­úð­ar­tækja. 

Reynt á var­úð­ar­tækin

Þegar ritið kom út voru mjög ströng fjár­magns­höft við lýði á Íslandi og því reyndi ekki á þá útgáfu af krónu­hag­kerf­inu sem hún boð­aði á þeim tíma. Höftin voru hins veg­ar, að mestu, losuð í mars 2017. 

Þá var staða íslensks efna­hags­kerfis tölu­vert öðru­vísi en hún hafði verið nokkru sinni áður. Ferða­þjón­usta hafði vax­ið, á örfáum árum, frá því að vera nán­ast efna­hags­legt smælki og upp í það að vera burð­ug­asta stoðin undir efna­hags­lífi íslenskrar þjóð­ar. Með fjölgun ferða­manna úr um hálfri milljón á árinu 2010 og í 2,3 millj­ónir árið 2018 þá gjör­breytt­ist flæði erlends gjald­eyris sem rann úr vasa kaup­enda að íslenskri þjón­ustu og í vasa íslenskra þjón­ustu­veit­enda. 

Með öðrum orðum varð hér við­skipta­af­gang­ur. Þ.e. Íslend­ingar fluttu út meira en þeir fluttu inn, þegar þjón­ustu­við­skipti sem veitt eru útlend­ingum hér­lendis eru talin með útflutn­ing­i. 

Það varð til þess að krónan styrkt­ist. Og styrkt­ist og styrkt­ist. 

Hinn almenni launa­maður fagn­aði. Sum­ar­fríið til Tenerife kost­aði minna en áður og raf­tækin sem hægt var að kaupa Í Elko, eða bara panta af net­inu, hríð­lækk­uðu í verð­i. 

Atvinnu­líf­ið, sér­stak­lega sá hluti þess sem hafði tekjur í erlendum gjald­miðlum en tölu­verðan kostn­að, aðal­lega launa­kostn­að, í íslenskum krón­um, var ekki jafn ham­ingju­samt. Hin svo­kall­aða „sam­keppn­is­hæfni“ Íslands dróst sam­an. 

Sveigj­an­leik­inn far­inn

Ein helstu rökin fyrir íslensku krón­unni hafa verið þau að hún sé svo sveigj­an­leg. Á manna­máli þýðir það að hún gæti veikst hratt og mikið til að auka sam­keppn­is­hæfni okkar þegar efna­hags­á­standið tekur dýfu. Vana­lega fylgdi þessu aukin verð­bólga. Það gerð­ist til dæmis eftir hrun­ið. Í þeirri sam­keppn­is­hæfni felst að laun Íslend­inga verða mun lægri í alþjóð­legum sam­an­burði og þeir sem flytja út vörur eða þjón­ustu fá fleiri krónur fyrir þegar þeir skipta doll­urum eða evrum hjá Seðla­banka Íslands. Helsti kost­ur­inn við þetta er tal­inn vera sá að þá er hægt að taka út aðlög­un­ina eftir gerð hag­stjórn­ar­mis­tök með því að velta kostn­að­inum af henni á launa­fólk án þess að atvinnu­leysi láti á sér kræla. 

Nú er þetta hins vegar ekki stað­an. Í nið­ur­sveifl­unni sem átti sér stað á árinu 2019, þegar sam­dráttur varð í íslenska efna­hags­kerf­inu meðal ann­ars vegna gjald­þrots WOW air, loðnu­brests og vand­kvæða Icelandair vegna kyrr­setn­ingar á Boeing 737 Max vél­un­um, þá var birt­ing­ar­mynd afleið­ing­anna svipuð og ann­ars staðar í Evr­ópu, þar sem evran er gjald­mið­ill­inn. Þ.e. aukið atvinnu­leysi.

Atvinnu­leysið mælist nú 4,3 pró­sent of hefur ekki mælst hærra frá árinu 2013. Rúm­lega átta þús­und manns eru án atvinnu. Mest var atvinnu­leysið á Suð­ur­nesjum, þar sem ferða­þjón­ustu­tengd starf­semi er aðal atvinnu­veg­ur­inn, eða 8,7 pró­sent. Það er meira atvinnu­leysi en mælist á evru­svæð­inu að með­al­tali, þar sem það er 7,4 pró­sent.

Gripið inn í

Seðla­­banki Íslands birti í nýverið yfir­lit yfir þróun ýmissa þátta sem snúa að íslensku krón­unni. Þar kom meðal ann­ars fram að gengi krón­unnar hafi lækkað um alls 3,1 pró­­sent í fyrra. Flökt á henni hefði verið minna en á árinu 2018 en munur á hæsta og lægsta gildi krón­unnar var 7,2 pró­­sent. 

Þessi nið­ur­staða gerð­ist þó ekki að sjálfu sér. Seðla­bank­inn greip inn í gjald­eyr­is­mark­að­inn, með því að kaupa eða selja gjald­eyri, á alls tólf dögum á árinu 2019. Í jan­úar í fyrra seldi Seðla­­bank­inn gjald­eyri fjóra við­­skipta­daga í röð í því skyni að vega á móti snar­pri lækkun gengis krón­unn­­ar. Í mars, maí og júní seldi bank­inn gjald­eyri bæði vegna útflæðis aflandskróna og til að koma í veg fyrir óhóf­­legt skamm­­tíma­flökt af öðrum ástæð­u­m. 

Í þessum inn­gripum birt­ist pen­inga­stefna Seðla­bank­ans skýrt og greini­lega. Í henni felst að halda krón­unni stöðugri með því að grípa inn í ef hún er að styrkj­ast of mik­ið, eða veikj­ast of mik­ið. 

Á fyrri helm­ingi síð­­asta árs keypti Seðla­­bank­inn gjald­eyri fyrir sam­tals fyrir 11,9 millj­­arða króna en á þeim síðar fyrir 2,4 millj­­arða króna. Gjald­eyr­is­­kaupin áttu sér stað tvo við­­skipta­daga í júlí og sept­­em­ber.  

Heild­­ar­velta á gjald­eyr­is­­mark­aði var svipuð og á árinu 2018, eða 188,3 millj­­arðar króna. Hlut­­deild Seðla­­bank­ans í velt­unni var 7,6 pró­­sent sem var öllu meira en árið 2018, en tals­vert minna en á árinu 2017.

Þetta er hægt að gera vegna þess að Seðla­banki Íslands á stóran gjald­eyr­is­vara­forða. Á meðal að þeir sem gætu látið sér detta í hug að spila á gengi krón­unnar til að græða pen­inga, með því að styrkja hana eða veikja með handafli, trúa því að bank­inn muni nota þann forða til að við­halda stöð­ug­leika þá gengur pen­inga­stefnan upp. 

Munum eftir því í hrun­inu að nán­ast allur aðgengi­legur forði Seðla­banka Íslands var lán­aður til Kaup­þings, alls 500 millj­ónir evra. Stór hluti þess forða tap­að­ist. Þar var um að ræða skuld­settan forða sem kost­aði mikla pen­inga í vaxta­greiðsl­ur. 

Síð­ustu ár hefur Seðla­banki Íslands verið að safna sér upp óskuld­settum forða. Hann var undir 50 millj­örðum króna árið 2013. Um síð­ustu ára­mót var hann 822 millj­arðar króna og óx um 86 millj­arða króna á síð­asta ári. 

Ásgeir Jónsson tók við sem seðlabankastjóri í ágúst 2019, af Má Guðmundssyni. Hann tók að mörgu leyti við góðu búi en stendur líka frammi fyrir flóknum áskorunum.
Mynd: Bára Huld Beck

Sam­hliða hefur erlend staða íslenska þjóð­ar­bús­ins snú­ist í að verða jákvæð. Ár eftir ár er íslenska þjóð­ar­búið að fá inn meiri pen­inga fyrir það sem það er að selja, en það er að eyða í það sem það er að kaupa. Sam­an­lagður af­­gang­ur af við­skipta­­jöfn­uði lands­ins á fyrstu níu mán­uðum árs­ins 2019 var til að mynda tæp­ur 121 millj­­arður króna. Hrein staða Íslands við útlönd, þ.e. eignir þegar búið var að draga allar skuldir frá, var 714 millj­arðar króna í lok þess tíma­bils. Hrein eign var 24,5 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu.

Það er vert að muna að í lok árs 2008 var hrein eign Íslands gagn­vart útlöndum nei­kvæð um 187 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu. Algjör við­snún­ingur varð á þess­ari stöðu þegar sam­komu­lag var gert við kröfu­hafa föllnu bank­anna um stöð­ug­leika­fram­lag á árinu 2015. Til við­bótar hefur útflutn­ingur líf­eyr­is­sjóða á fé eftir að höftum var lyft, til fjár­fest­inga erlend­is, bætt veru­lega við eigna­stöðu Íslands utan heima­mark­að­ar.

Verð­bólga helst lág og vextir lækka

Pen­inga­stefnan er enn þannig að Seðla­banki Íslands hefur verð­bólgu­mark­mið að leið­ar­ljósi, en það er 2,5 pró­sent. Helsta stýri­tæki bank­ans er enn vext­ir, sem hann hækkar eða lækkar til að reyna að hafa áhrif á verð­bólg­una. 

Heilt yfir hefur verð­bólga verið afar lág und­an­farin ár. Frá því í febr­úar 2014 og langt fram á haustið 2018 var hún undir verð­bólgu­mark­miði. Þá hækk­aði hún yfir mark­mið og reis hæst í 3,7 pró­sent í des­em­ber 2018. í lok árs 2019 fór hún svo aftur undir mark­mið og í dag mælist hún ein­ungis 1,7 pró­sent.

Vert er að taka fram að sú verð­bólga sem mæld­ist á fyrri hluta árs í fyrra er lág í öllu íslensku efna­hags­sögu­legu sam­hengi, þótt hún hafi verið yfir mark­miði. Skörp lækkun hennar undir lok árs var þó jákvæð tíð­indi fyrir alla þá lands­menn sem eru með verð­tryggð lán, meðal ann­ars flest heim­ili lands­ins. Lægri verð­bólga þýðir að þau lán verða ódýr­ari.

Lægri vextir og lág verðbólga bæta eiginfjárstöðu heimila, enda flest þeirra með verðtryggð lán.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Seðla­bank­inn lækk­aði líka meg­in­vexti sína, oft kall­aðir stýri­vext­ir, hratt á síð­asta ári. Þeir fóru úr því að vera 4,5 pró­sent í maí í að vera 3,0 pró­sent í nóv­em­ber. Þar eru þeir enn.

Súr­efnið ekki að skila sér

Þessar vaxta­lækk­anir áttu að veita súr­efni inn í efna­hags­kerf­ið. Þ.e. hvetja til frek­ari lána­starf­semi. Sú þróun hefur staðið veru­lega á sér. 

Heim­ili lands­ins hafa reyndar haldið áfram að taka fast­eigna­lán, enda hafa kjör þeirra snar­batnað á síð­ustu árum þótt þau séu enn tölu­vert frá því sem þekk­ist til dæmis innan Evr­ópu­sam­bands­ins. Sú mikla hækk­un­ar­hrina á íbúð­ar­hús­næði sem fært hefur miklar eigna­aukn­ingu á pappír til þeirra sem eiga slíkt virð­ist þó vera að lokum kom­in, að minnsta kosti í bil­i. 

Útlán til fyr­ir­tækja lands­ins hafa hins veg­ar, svo vægt sé til orða tek­ið, staðið á sér. Banka­­kerfið er frekar að draga úr allri þjón­­ustu við hefð­bundið atvinn­u­líf. Útlán þess til fyr­ir­tækja dróg­ust saman um 60 pró­­sent í fyrra. Stóru við­skipta­bank­arnir eru ein­fald­lega ekki að miðla fjár­magni út til fyr­ir­tækj­anna í land­inu. Það er yfir­lýst stefna þeirra að ein­hverju leyti. Arion banki hefur til að mynda greint frá því að hann ætli að minnka umfang fyr­ir­tækja­út­lána um fimmt­ung fyrir næsta haust. 

Á sama tíma jókst hins þegar veð­­setn­ing hluta­bréfa á íslenskum mark­aði um 50 pró­­sent. Það er því enn lánað til slíkra hluta. 

Útlend­ingar vilja lítið fjár­festa á Íslandi

Mögu­lega spilar þar inn í að erlendir fjár­festar hafa verið að selja íslensk hluta­bréf og það eru ekki margir kaup­endur af þeim hér­lend­is. Þ.e. nema að bankar láni til slíkra kaupa. 

Þetta er ekki vanda­mál sem var ófyr­ir­séð. Á umræðu­fundi um stöðu sam­keppn­innar í end­ur­reistu hag­kerfi, sem hald­inn var í maí 2016, var Gylfi Magn­ús­son, nú for­seti við­skipta­fræði­deildar Háskóla Íslands og með­limur í banka­ráði Seðla­banka Íslands, á meðal þeirra sem sat í pall­borði. Hann sagði þar að los­un hafta myndi búa til leið fyrir líf­eyr­is­­sjóði, sem höfðu keypt gríð­ar­legt magn af íslenskum hluta­bréfum á árunum eftir hrun, til að kom­­ast erlend­­is. Það myndi hins ­vegar ekki leysa þau vanda­­mál sem íslenskt fjár­­­fest­inga­um­hverfi stæði frammi ­fyr­­ir. Á end­­anum þyrfti alltaf ein­hver að eiga hluta­bréf­in.

Gylfi Magnússon, forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.
Mynd: Kristinn Ingvarsson

Gylfi sagði að við blasti að er­­lendir aðilar virt­ust ekki hafa mik­inn áhuga á íslenskum hluta­bréf­um. Ef útlend­ingar kaupi ekki íslensku hluta­bréfin séu það eig­in­­lega bara líf­eyr­is­­sjóð­irnir sem geti gert það. „Það er annað hvort það eða ­mynstrið sem við höfðum hérna fyrir hrun sem ég held að eng­inn vilji sjá aft­­ur. Þegar eig­endur voru skuld­­sett eign­­ar­halds­­­fé­lög sem áttu ekk­ert eigið fé held­ur bara lánsfé sem þau not­uðu til að kaupa hluta­­fé.“

Krónan hraða­hindrun fyrir nýsköpun

For­sæt­is­ráð­herra ræddi það í almennum umræðum um stjórn­mál í síð­asta mán­uði að það þyrfti að auka nýsköpun hér­lend­is. Það er auð­vitað orðið þekkt stef, að við séum ekki með nægi­lega fjöl­breytt atvinnu­líf og þurfum að bæta við geirum, meðal ann­ars. til að geta tek­ist betur á við sveiflur í þeim stærstu: ferða­þjón­ustu, sjáv­ar­út­vegi og orku­bú­skap.

Í könnun sem greint var frá nýver­ið, og var unnin upp úr svörum 735 fyr­ir­tækja sem sótt höfðu um styrk til Tækn­i­­þró­un­­ar­­sjóðs á síð­ustu þremur árum fyrir sum­­­arið 2019, kom fram að 73,5 pró­­sent aðspurðra töldu að sér­­ís­­lenskur gjald­mið­ill hefði nei­­kvæð áhrif á rekstur nýsköp­un­­ar­­fyr­ir­tækja.

Rúm­­lega helm­ing­ur aðspurðra, eða 61 pró­­sent, töldu að banka­­þjón­usta á Íslandi henti illa eða mjög illa fyrir nýsköp­un­­ar­­fyr­ir­tæki.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur lagt áherslu á að auka nýsköpun.
Mynd: Bára Huld Beck

Það eru heldur ekki að verða til mikið af nýjum sér­fræð­inga­störfum á Íslandi. Þvert á móti virð­ist þeim vera að fækka sums stað­ar. Hjá Marel og Öss­ur, flag­skips­fyr­ir­tæki íslenskrar nýsköp­un­ar, sem eru nú tæp­lega fer­tug og fimm­tug, hefur störfum á Íslandi verið að fækka á sama tíma og fyr­ir­tækin sjálf eru í örum alþjóð­legum vext­i. 

Erlend fjár­fest­ing

Það þarf ekki að koma á óvart að erlendir lang­tíma­fjár­festar setja íslensku krón­una fyrir sig þegar þeir ákveða hvort þeir vilji binda pen­inga á Íslandi. Ófyr­ir­sjá­an­leiki hennar er það mik­ill að erfitt getur reynst að gera áætl­anir sem stand­ast. Þeir skamm­tíma­fjár­festar sem ákváðu að veðja á hækkun kröfu­eigna eftir banka­hrunið eru nú, hver á fætur öðrum, að draga saman seglin og hverfa til nýrra ævin­týra. Ísland er ein­fald­lega í vand­ræðum með að laða að erlenda fjár­fest­ingu þrátt fyrir að höft hafi nú verið að mestu afnumin í tæp þrjú ár.

Ýmis­legt hefur verið reynt til að bregð­ast við þess­ari stöðu. Í byrjun mars í fyrra gekk í gildi breyt­ing á lögum um með­­­ferð krón­u­­eigna sem háðar eru sér­­­stökum tak­­mörk­unum og breyt­ingar voru gerðar á reglum um bind­ingu reið­u­fjár vegna nýs inn­­­streymis erlends gjald­eyr­­is. Von­­ast var til að sú breyt­ing, sem kvað á um að lækkun bind­ing­­ar­hlut­­falls á nýtt fjár­­­magnsinn­­streymi í skulda­bréf og hávaxta­inn­­stæður var lækkuð úr 20 pró­­sent í 0 pró­­sent, myndi örva erlenda fjár­­­fest­ingu til lands­ins. Af því hefur ekki orðið af neinu marki.

Hreint inn­­­flæði nýfjár­­­­­fest­inga erlendis frá nam þvert á móti 32 millj­­­örðum króna á fyrstu níu mán­uðum árs­ins 2019, sem er þremur millj­­­örðum krónum minna en á sama tíma­bili 2018.

Fjár­fest­ing í atvinnu­líf­inu er ein­fald­lega að verða vanda­mál. Íslensku bank­arnir eru ekki að lána og fjár­fest­ingin virð­ist ekki ætla að koma að utan. Áhug­inn virð­ist bara ekki vera til stað­ar­. Þar spilar krónan hlut­verk þótt fleira komi til.

Stað­reynd máls­ins virð­ist ein­fald­lega vera sú að okkur vegn­aði betur í höftum en án þeirra. Eftir að þau voru afnumin hefur ríkt, að mestu ákveðin stöðn­un.

Peningaþvættisógnin

Með því að vera með eigin gjaldmiðil þá erum við auðvitað í þeirri stöðu að það gæti verið áhugi á allskyns spákaupmennsku með hann. Það höfum við auðvitað séð oft í sögunni, af hendi bæði innlendra og erlendra aðila, þar sem markmiðið er hagnaður af styrkingu eða veikingu krónunnar. Taka stöðu með eða á móti henni.

Önnur hætta er síðan peningaþvætti, líkt og mikið hefur verið rætt um undanfarin misseri, sérstaklega eftir að peningaþvættisvarnir Íslands fengu falleinkunn hjá Financial Action Task Force (FATF) í apríl 2018 og að landið var sett á gráan lista samtakanna í október í fyrra eftir að margháttaðar aðgerðir sem ráðist var í til að bæta stöðuna þóttu ekki nægjanlegar.

ÍÍ áhættumati sem ríkislögreglustjóri birti í fyrra vegna peningaþvættisógnar fyrir Ísland kom fram að mikil áhætta á peningaþvætti hefði fylgt afléttingu fjármagnshafta á Íslandi. Sú áhætta var margþætt og grípa þarf til margháttaðra aðgerða til að laga stöðuna, meðal annars vegna þess að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans skortir þekkingu á hættumerkjum og aðferðum við peningaþvætti.

Engar lagalegar skyldur hafa hvílt á Seðlabankanum vegna aðgerða gegn peningaþvætti þrátt fyrir að hann haft umsjón með öllu gjaldeyriseftirliti og losun hafta á undanförnum árum þegar hundruð milljarða króna hafa verið flutt til og frá landinu. Þá hefur bankinn ekki getað miðlað þagnarskyldum upplýsingum í tengslum við gjaldeyriseftirlitið til þar til bærra aðila vegna skorts á lagaheimild.

Í áætlun íslenskra stjórnvalda gegn peningaþvætti sem birt var í fyrrahaust kom fram að það eigi að bregðast við þessari miklu áhættu á allra næstu vikum og mánuðum.

Vandamálið við áætlunina er að hún var birt í september 2019, en fjarmagnshöftunum, sem höfðu verið við lýði frá því í nóvember 2008, var að mestu verið aflétt 12. mars 2017.

Því liggur fyrir að þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á hinni afar áhættusömu peningaþvættisleiðum sem höftin buðu upp á eru gerðar nokkrum árum eftir að höftin voru tekin niður.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar