Mynd: Birgir Þór Harðarson

Undir þriðjungi vinnumarkaðar nýtir sér skattfrjálsa séreign til að borga niður húsnæðislán

Tekjuhærri landsmenn eru mun líklegri til að safna í séreign en þeir sem eru tekjulægri. Alls hafa tæplega 60 þúsund manns nýtt sér séreignarsparnað sinn til að borga inn á húsnæðislán skattfrjálst. Þar er um að ræða gæði sem einungis þeim eru færð.

Alls höfðu 58.738 einstaklingar nýtt sér séreignasparnað sinn til að greiða inn á lán eða í útborgun fyrir íbúð í lok árs 2018. Í þeirri tölu er samskattaðir taldir sem tveir aðilar jafnvel þótt að einungis annar þeirra hafi greitt inn á höfuðstól húsnæðisláns þeirra. 

Um er að ræða bæði þá sem nýttu séreignasparnað sinn til húsnæðiskaupa og -lánaniðurgreiðslu samkvæmt úrræði þess efnis sem kynnt var undir hatti Leiðréttingarinnar vorið 2014 og þá sem nýttu sér Fyrstu fasteignar úrræðið, sem var kynnt í ágúst 2016. Um mitt síðasta ár voru 209 þúsund einstaklingar skráðir starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Því má ætla að undir 30 prósent starfandi landsmanna nýti sér séreignarsparnaðarúrræðið. 

Endanlegur fjöldi þeirra sem nýttu sér úrræðið í fyrra til viðbótar við ofangreindan hóp liggur ekki fyrir fyrr en að skattskilum vegna síðasta árs er lokið. 

Þetta kemur fram í tölum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman fyrir Kjarnann.

Við lægri mörk sem sviðsmyndir sýndu

Þegar úrræðið um að nota séreignarsparnað sinn skattfrjálst til að greiða niður húsnæðislán var kynnt var það gert þannig að sá hópur sem áætlað var að nýtti sér það myndi geta notað alls 70 milljarða króna til þeirra verka á tímabilinu. Það byggði á skýrslu sérfræðingahóps sem skilaði af sér skýrslu til forsætisráðuneytisins í nóvember 2013. Á meðal þeirra sem sátu í sérfræðihópnum voru Sigurður Hannesson, nú framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem var formaður hans og Lilja D. Alfreðsdóttir, nú mennta- og menningarmálaráðherra.

Þegar frumvarp var loks lagt fram, til að lögbinda úrræðið, sagði í greinargerð þess að áðurnefnt mat sérfræðingahópsins hefði verið „nokkurri óvissu háð“. Ekkert talnalegt mat lægi fyrir á úrræðinu.

Því skipaði Bjarni Benediktsson, þáverandi og núverandi fjármála- og efnahagshagsráðherra, nýjan starfshóp til að reikna áhrif úrræðisins. Sá hópur skilaði af sér þremur sviðsmyndum sem sýndu að fram á mitt ár 2017 myndu 56.066 til 81.597 einstaklingar nýta sér séreignasparnað til að greiða niður húsnæðislán eða til í útgreiðslu útborgunar. Heildarupphæðin sem þessi hópur átti að geta greitt inn á húsnæðisskuldir sínar átti að vera 60 til 82 milljarðar króna. 

Um síðastliðinn áramót, tveimur og hálfu ári eftir að upphaflegur tímarammi úrræðisins var liðinn, þá var fjöldi þeirra sem höfðu nýtt sér úrræðið rétt yfir lægstu mörkum þess sem búist var við. Upphæðin sem nýtt hefur verið í séreignarsparnaðarúrræðið eitt og sér var um 68 milljarðar króna, og hafði ekki náð þeirri 70 milljarða króna upphæð sem kynnt var í Hörpu í mars 2014, þegar Leiðréttingin var formlega opinberuð. Ofan á hana bætist svo sú upphæð sem nýtt hefur verið í gegnum Fyrstu fasteign, en samanlagt nema heildarumsvif beggja úrræða 74,5 milljörðum króna.

Tekjuhærri líklegri til að nýta sér úrræðið

Það hefur alltaf legið fyrir að líklegra væri að tekjuhærri landsmenn myndu nýta sér úrræðið. Í skýrslu áðurnefnds sér­fræð­inga­hóps um höf­uð­stólslækk­un kom fram að með­al­launa­tekjur fjöl­skyldna sem spör­uðu í sér­eign og skuld­uðu í fast­eign væri miklu hærri en með­al­launa­tekjur þeirra sem spara ekki. „Al­mennt eru tekjur þeirra sem spara í sér­eigna­líf­eyr­is­sparn­aði mun hærri en hinna sem ekki gera það,“ stóð orð­rétt í skýrsl­unni.

Þar sagði einnig að „tekju­mis­munur þeirra sem spara og gera það ekki er mik­ill á öllum aldri. Hér er alls staðar átt við fast­eigna­eig­endur sem skulda eitt­hvað í fast­eign­inn­i.“

Þar sem nýting séreignasparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðisláns er skattfrjáls er ljóst að hún felur í sér mikinn ávinning fyrir þá sem nýta sér leiðina. Það er skattfrelsi sem öðrum býðst ekki á lífeyrissparnað sinn. Ríkið er því að færa þeim hópi sem nýtir sér leiðina gæði umfram aðra. Þá ber að nefna að til viðbótar við það sem launþegar sjálfir spara í séreign, og greiða inn á lán sín, þá kemur mótframlag atvinnurekenda. sem er ekkert annað en viðbótarlaun til þeirra sem safna slíkum. Alls greiddu atvinnurekendur 26 milljarða króna fram til loka síðasta árs inn á húsnæðislán þeirra sem notuðu séreignasparnað sinn til slíks, eða í útgreiðslu á útborgun fyrir húsnæði við kaup. 

Kjarninn fjallar þessa daganna ítarlega um nýtingu séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána í fréttaskýringaröð. Á morgun verður fjallað um þann skattaafslátt sem notendur hafa fengið.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar