Namibíska lögreglan (NAMPOL) hefur kyrrsett Heinaste á ný, líkt og Kjarninn greindi frá í gær. Togarinn er nú við bryggju í Walvis Bay og undir yfirráðum namibískra yfirvalda.
Lögin sem kyrrsetningin byggir á eru upprunalega frá árinu 2004 en voru uppfærð árið 2008. Bálkurinn heitir „lög til að hindra skipulega glæpastarfsemi“.
Kyrrsetning Heinaste er framkvæmd með vísun í 28. grein laganna, sem segir að lögreglan megi kyrrsetja eignir, sem tengjast spillingarrannsóknum, ef hún telur að rökstuddur grunur sé um að verið sé að skjóta þeirri eign undan. Sú kyrrsetning er þó tímabundin og ákvæðið sem nýtt er nokkurs konar neyðarheimild. Nú er unnið að því að fá varanlegri kyrrsetningu á skipið samþykkta af dómstólum í Namibíu.
Namibískir fjölmiðlar eru á einu máli í umfjöllun sinni um ástæður þess að ráðist var í kyrrsetningu á grunni laga um skipulagða glæpastarfsemi. Yfirvöld þar í landi töldu einboðið að Heinaste yrði fluttur úr lögsögu landsins við fyrsta tækifæri eftir að fyrri kyrrsetningu, sem var vegna ólöglegra veiða, var aflétt fyrr í vikunni.
Það var ekki ástæðulaus grunsemd. Hinum tveimur skipunum sem Samherji hefur notað við veiðar innan lögsögu Namibíu, Saga og Geysir, var siglt burt sitt hvoru megin við síðustu helgi og eru nú í alþjóðlegri landhelgi. Engin fyrirvari var á þeirri brottför og á þriðja hundruð skipverjar á þeim sátu eftir í algjörri óvissu með framtíð sína.
Hægt er að sjá umfjöllun NBC í Namibíu hér að neðan.
Greiddu sektina í reiðufé
Samherji hefur verið að draga starfsemi sína í Namibíu saman hratt eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu, var gerð opinber í nóvember.
Vilja gera skipið upptækt
Kyrrsetningu Heinaste var aflétt eftir málalokin en ljóst var að yfirvöld í Namibíu höfðu áfram áhyggjur af því að skipið yrði fjarlægt úr lögsögu landsins við fyrsta tækifæri.
Namibískir fjölmiðlar hafa greint frá því undanfarna daga að spillingarlögreglan í Namibíu hafi ráðlagt þarlendum stjórnvöldum að leyfa skipum Samherja ekki að fara frá landinu nema að hún verði látin vita. Þrátt fyrir það hafa tvö af þremur skipum Samherja í landinu, Geysir og Saga, farið þaðan á undanförnum dögum.
Samherji sendi frá sér tilkynningu á fimmtudag þar sem fram kom að unnið væri að því að gera Heinaste út í Namibíu og að tímabundið yrði það fólgið í því að leigja skipið namibískum aðilum og tryggja sem flestum úr áhöfn skipsins áframhaldandi vinnu. Ljóst má vera að yfirvöld í Namibíu hafi ekki lagt mikinn trúnað á þann vilja, þar sem að ráðist var í að tryggja, til bráðabirgða, nýja kyrrsetningu á skipinu á meðan að unnið væri að formlegri greinargerð sem á að leggja fyrir dómstóla. Vilji yfirvalda í Namibíu stendur til að reyna að gera Heinaste upptækt, og nota til að veiða hrossamakrílkvóta sem ríkisútgerðin Fishcor á en hefur ekki skip til að veiða. Fishcor átti ekki fyrir launum starfsmanna í desember og janúar en fyrirtækið var lykilleikandi í Samherjamálinu þar sem það seldi kvóta á undirverði til íslenska sjávarútvegsrisans.
Ákærðir fyrir spillingu
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður Fishcor, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og þrír aðrir menn voru handteknir í Namibíu í fyrra fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu.
Auk Shanghala, Esau og James Hatuikulipi er um að ræða Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau og frændi James, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Mennirnir hafa verið ákærðir fyrir spillingu og peningaþvætti.
Mál Samherja er hins vegar enn til rannsóknar í Namibíu og ekki útilokað að fleiri verði handteknir í tengslum við það. Það er einnig til rannsóknar á Íslandi, hjá bæði héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra, og í Noregi, vegna viðskipta Samherja við norska ríkisbankann DNB. Þá hafa eignir verið frystar í Angóla vegna málsins og þar á sér einnig stað sakamálarannsókn.