Alls áttu lífeyrissjóðir landsins 4.959 milljarða króna í lok árs 2019. Eignir þeirra jukust um 59 milljarða króna í jólamánuðinum og að óbreyttu má búast við því að þær hafi í fyrsta sinn í sögunni farið yfir fimm þúsund milljarða króna í janúar síðastliðnum.
Alls hækkaði virði eigna þeirra um 714 milljarða króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um lífeyrissjóðakerfið sem birtar voru nýverið.
Það er mun meiri hækkun í krónum talið innan árs en nokkru sinni hefur átt sér stað á eignasafni alls lífeyrissjóðakerfisins áður. Á árinu 2017, sem var fyrra metárið, jukust eignir sjóðanna um 403 milljarða króna og 2018 jukust eignir þeirra um 302 milljónir króna. Sú hækkun sem varð á eignasafni þeirra í fyrra er meiri en samanlögð hækkun á eignum lífeyrissjóðanna á árunum 2017 og 2018.
Vert er að taka fram að ekki er einungis um hækkun vegna ávöxtunar að ræða heldur aukast inngreiðslur einnig ár frá ári vegna fjölgunar í hópi greiðenda og hærri iðgjaldsgreiðslna.
Mesta hlutfallslega hækkun innan árs á síðari árum var á árinu 2006, í miðju fyrirhruns góðærinu, þegar eignasafnið hækkaði um 23,3 prósent innan árs.
Eiga íslensk hlutabréf fyrir 689 milljarða króna
Stíf fjármagnshöft sem sett voru síðla árs 2008 gerðu lífeyrissjóðunum erfitt fyrir í fjárfestingum og þeir höfðu ekki marga aðra kosti en að binda þá peninga sem streymdu frá sífellt fleiri greiðendum í þeim innlendu fjárfestingum sem buðust. Sjóðirnir keyptu skuldabréf af miklum móð og eignuðust þar með stóran bita í skuldum bæði opinbera og einkageirans. Alls eiga þeir nú tæplega tvö þúsund milljarða króna í innlendum markaðsskuldabréfum og víxlum. Það þýðir að þeir eiga um 75 prósent allra slíkra hérlendis.
Til viðbótar hafa lífeyrissjóðirnir, sérstaklega á allra síðustu árum, verið leiðandi á íbúðalánamarkaði og þar af leiðandi tekið sér stöðu sem stórir beinir lántakendur íslenskra heimila. Það hafa þeir gert með því að bjóða upp á miklu betri vaxtakjör en bankar og fyrir vikið hefur hlutfall skulda heimila við lífeyrissjóði farið úr tíu prósentum í yfir 20 prósent frá árinu 2016.
Erlendu eignirnar uxu hratt í fyrra
Alls eru 70 prósent eigna lífeyrissjóðanna innanlands. Frá því að fjármagnshöftum var lyft snemma árs 2017 hafa þeir þó í auknum mæli beint sjónum sínum að fjárfestingum utan landsteinanna, bæði til að auka áhættudreifingu sína og til að komast í fjölbreyttari fjárfestingar en þeim býðst á Íslandi. Hlutfall innlendra eigna lífeyrissjóðakerfisins var á þeim tíma 77 prósent og hefur því hlutfallslega dregist verulega saman, þrátt fyrir góða ávöxtun innlendra hlutabréfa í fyrra.
Í apríl 2017, í kjölfar þess að höftunum var lyft, voru erlendar eignir kerfisins 786 milljarðar króna. Í dag eru þær tæplega tvisvar sinnum meiri, eða 1.488 milljarðar króna. Í fyrra hækkuðu erlendu eignirnar um 399 milljarða króna og ljóst að þar er uppistaðan í þeirri eignaraukningu sem varð til í lífeyrissjóðum landsmanna á síðasta ári.