Mynd: Samsett

Laun bankastjóranna á bilinu 3,6 til 4,7 milljónir króna á mánuði

Bankastjórar ríkisbankanna tveggja eru með mánaðarlaun sem eru í kringum fjórar milljónir króna á mánuði. Bankastjóri Arion banka er með enn hærri laun og aðstoðarbankastjórinn hans toppar alla æðstu stjórnendurna. Kjarninn fer yfir launaþróun innan íslenska bankakerfisins.

Fyrir ári síðan lék allt á reiði­skjálfi í sam­fé­lag­inu vegna launa banka­stjóra rík­is­bank­anna tveggja, og launa­hækk­ana ann­arra rík­is­for­stjóra sem fjöl­miðlar höfðu opin­ber­að. Á þeim tíma stóð yfir harð­vítug kjara­bar­átta þar sem ný og her­ská for­ysta stærstu stétt­ar­fé­laga lands­ins krafð­ist kjara­bóta fyrir sitt fólk sem ráða­menn og atvinnu­lífið töldu úr öllum takti við stöðu efna­hags­lífs­ins á þeim tíma. 

Miklar launa­hækk­an­ir, oft um tugi pró­senta, til ýmissa for­stjóra rík­is­fyr­ir­tækja og emb­ætt­is­manna vegna ákvarð­ana Kjara­ráðs hleyptu mjög illu blóði í kjara­deil­urn­ar. For­ystu­menn stétt­ar­fé­lag­anna bentu á að það virt­ist sem svo að það mætti „leið­rétta“ laun þeirra sem væru með hæstu launin um tugi pró­senta en að það þætti stór­skað­legt að gera slíkt fyrir þá sem áttu í vand­ræðum með að ná endum sam­an.

Mesti hit­inn var í kringum launa­kjör banka­stjóra rík­is­bank­anna tveggja, Íslands­banka og Lands­bank­ans en him­inhá laun þáver­andi banka­stjóra Arion banka voru líka ítrekað dregin inn í umræð­una.

Með­al­mað­ur­inn á íslenskum vinnu­mark­aði vann sér inn um 21 þús­und krónur á mán­uði miðað við mið­gildi heild­ar­launa á árinu 2018. Það tók hann 224 daga að vinna sér mán­að­ar­laun banka­stjóra Arion banka, 202 daga að vinna sér inn mán­að­ar­laun banka­stjóra Íslands­banka og 171 dag að vinna sér inn mán­að­ar­laun banka­stjóra Lands­bank­ans. Þótt laun banka­stjóra allra bank­anna þriggja hafi lækkað á síð­asta ári í sam­an­burði við árið áður eru þau enn mjög há. Banka­stjóri ann­ars rík­is­bank­ans er til að mynda með rúm­lega 70 pró­sent hærri laun en hún var með þegar hún var ráðin og hin rík­is­banka­stjór­inn er með rúm­lega tvisvar sinnum þau laun sem kjara­ráð ákvað að hún ætti að vera með á árinu 2017.

Lækk­aði lít­il­lega að með­al­tali á milli ára

Íslands­banki var að mestu í eigu kröfu­hafa Glitnis fyrstu árin eftir hrun. Í stöð­ug­leika­samn­ing­unum sem gerðir voru árið 2015 var hins vegar samið um að eign­ar­hald hans myndi fær­ast til íslenska rík­is­ins. Það gerð­ist svo form­lega í upp­hafi árs 2016. Við það færð­ist ákvörðun um laun Birnu Ein­ars­dótt­ur, banka­stjóra Íslands­banka, frá stjórn bank­ans og til kjara­ráðs.

Birna hafði verið með 4,2 millj­ónir króna á mán­uði árið 2015 í laun og frammi­stöðu­tengdar greiðslur og því ljóst að hún gat búist við kjara­rýrn­un. Þegar árs­reikn­ingur bank­ans fyrir árið 2016 var birtur kom hins vegar í ljós að laun hennar juk­ust milli ára og voru 4,85 millj­ónir króna. Raunar úrskurð­aði kjara­ráð ekki um laun Birnu fyrr en snemma árs 2017, þegar búið var að taka ákvörðun um að færa ákvörðun um laun hennar frá kjara­ráði, en áður en sú ákvörðun tók gildi. Sam­kvæmt þeim úrskurði áttu laun Birnu að vera tvær millj­ónir króna á mán­uð­i. 

Miklar kjaradeilur hafa staðið yfir á Íslandi undanfarin misseri. Á meðal þess sem gagnrýnt er eru miklar launaleiðréttingar stjórnenda innan ríkisfyrirtækja sem eru fyrir með há laun á íslenskan mælikvarða.
Mynd: Bára Huld Beck

Stjórn bank­ans taldi sig ekki þurfa að fram­fylgja þeim úrskurði þar sem Birna væri með tólf mán­aða upp­sagn­ar­frest sem næði langt fram yfir þann tíma sem ákvörð­un­ar­vald yfir launum hennar færð­ist aftur til stjórnar Íslands­banka. Þegar árs­reikn­ingur bank­ans fyrir árið 2017 var birtur kom í ljós að Birna var með 4,8 millj­ónir króna í laun að með­al­tali það árið.

Til við­bótar fékk hún eina milljón króna á mán­uði í mót­fram­lag atvinnu­rek­enda í líf­eyr­is­sjóð. Á árinu 2018 voru laun hennar 5,3 millj­ónir króna en hún óskaði sjálf eftir því að lækka laun sín seint á því ári. Í fyrra voru laun hennar 4,2 millj­ónir króna að með­al­tali auk þess sem hún fékk áfram eina milljón króna á mán­uði í mót­fram­lag í líf­eyr­is­sjóð. Til sam­an­burðar getur lands­maður sem er með með­al­tal heild­ar­launa búist við því að mót­fram­lag atvinnu­rek­enda hans í líf­eyr­is­sjóð sé í kringum 80 þús­und krónur á mán­uði. Það tekur því með­al­mann­inn því um 149 mán­uði að safna saman sama mót­fram­lagi í líf­eyr­is­sjóð og Birna fær greitt árlega frá rík­is­banka.

Frið­rik Soph­us­son, stjórn­ar­for­maður Íslands­banka, sem verður 77 ára síðar á þessu ári og hefur því verið á eft­ir­launa­aldri í að minnsta kosti ára­tug, fékk að með­al­tali 940 þús­und krónur greiddar í laun fyrir stjórn­ar­setu á síð­asta ári. 

Með yfir 70 pró­sent hærri laun en við ráðn­ingu

Banka­stjóri Lands­bank­ans, Lilja Björk Ein­ars­dótt­ir, var með tæp­lega 2,1 milljón króna í laun á mán­uði þegar hún var ráðin í starf­ið, en hún hóf störf 15. mars 2017.

Laun hennar voru skömmu síð­ar, eða um mitt ár 2017, hækkuð í 3,25 millj­ónir króna og á árinu 2018 upp í 3,8 millj­ónir króna. Laun Lilju höfðu því hækkað um 82 pró­sent. 

Banka­ráð Lands­bank­ans sagði í bréfi sem það sendi ráð­herra að launin hefðu verið hækkuð svona mikið vegna þess að þau hefðu dreg­ist „langt aftur úr þeim launum sem greidd voru fyrir sam­­­bæri­­­leg störf“ á árunum 2009 til 2017. Þetta hefði gert það að verkum að laun banka­­­stjór­ans hafi ekki verið sam­keppn­is­hæf og ekki í sam­ræmi við starfs­kjara­­­stefnu bank­ans. Þá taldi banka­ráðið sig hafa sýnt bæði hóf­­­semi og var­kárni þegar samið var um að hækka laun banka­­­stjór­ans.

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, brást við bréfum frá stjórnum rík­is­bank­ana í fyrra, þar sem þær vörðu launa­hækk­anir æðstu stjórn­enda, með því að senda bréf til Banka­sýslu rík­is­ins þar sem hann óskaði eftir því að hún komi því með afdrátt­­ar­­lausum hætti á fram­­færi við stjórnir rík­­is­­bank­anna Íslands­­­banka og Lands­­bank­ans að „ráðu­­neytið telji að bregð­­ast eigi við þeirri stöðu sem upp er komin með taf­­ar­­lausri end­­ur­­skoðun launa­á­kvarð­ana og und­ir­­bún­­ingi að breyt­ingum á starfs­kjara­­stefn­um, sem lagðar verði fram á kom­andi aðal­­fundum bank­anna.“

Laun Lilju Bjarkar voru um 3,6 millj­ónir króna að með­al­tali á mán­uði í fyrra. Það er um 200 þús­und krónum lægri laun en hún var með að með­al­tali 2018 en 71 pró­sent hærri laun en Lilja Björk hafði þegar hún var ráðin í starfið 2017. Auk þess fékk hún 683 þús­und krónur að með­al­tali á mán­uði í líf­eyr­is­sjóðs­greiðslur frá Lands­bank­an­um. Til sam­an­burðar getur lands­maður sem er með með­al­tal heild­ar­launa búist við því að mót­fram­lag atvinnu­rek­enda hans í líf­eyr­is­sjóð sé í kringum 80 þús­und krónur á mán­uði. Það tekur því með­al­mann­inn því um 103 mán­uði að safna saman sama mót­fram­lagi í líf­eyr­is­sjóð og Birna fær greitt árlega frá rík­is­banka.

Helga Björk Eiríks­dótt­ir, for­maður banka­ráðs Lands­bank­ans, var með 11,7 millj­ónir króna í laun og hlunn­indi frá bank­anum í fyrra fyrir stjórn­ar­setu, eða 975 þús­und krónur að með­al­tali á mán­uði. Hún fékk auk þess 1,4 millj­ónir króna í mót­fram­lag í líf­eyr­is­sjóð.

Hæstu launin í Arion banka

Hæst laun­aði banka­stjóri lands­ins er Bene­dikt Gísla­son, sem stýrir Arion banka, eina stóra bank­ans á land­inu sem er í einka­eig­u. ­Arion banki er einnig sá banki sem skil­aði lök­ustu afkomu þriggja stærstu bank­anna á síð­asta ári.

Á þeim sex mán­uðum sem hann sat í stóli banka­stjóra í fyrra þáði hann að með­al­tali 4,7 millj­ónir króna á mán­uði í laun. Laun hans eru umtals­vert lægri en laun Hösk­uldar H. Ólafs­son­ar, fyr­ir­renn­ara hans í starfi, voru undir lok starfs­tíma hans. Á árinu 2018 var Hösk­uldur með 6,2 millj­ónir króna að með­al­tali í laun. Til­­kynnt var um það í apríl í fyrra að Hösk­­uldur hefði  sagt starfi sínu hjá Arion banka lausu. Starfs­­lok hans kost­uðu Arion banka 150 millj­­ónir króna, en sú greiðsla sam­an­stóð ann­­­ars vegar af upp­­­sagn­­­ar­fresti og hins vegar samn­ingi um starfs­­­lok.

Höskuldur H. Ólafsson, sem er hér til hægri á myndinni að hringja bjöllunni í Kauphöllinni þegar Arion banki var skráður á markað sumarið 2018, yfirgaf bankann í apríllok í fyrra.
Mynd: Nasdaq OMX Iceland

Bene­dikt fékk þó ágæt­lega greitt á öðrum vett­vangi í fyrra. Kjarn­inn greindi frá því í októ­ber í fyrra að Stjórn Kaup­þings, sem taldi fjóra til fimm ein­stak­linga, hafi 1,2 millj­arð króna í laun á árinu 2018. Bene­dikt Gísla­­son hætti í stjórn­inni í ágúst 2018 og tók þess í stað sæti í stjórn Arion banka, sem þá var að að stóru leyti enn í eigu Kaup­­þings. Bene­dikt var svo ráð­inn banka­­stjóri Arion banka í fyrra­sum­­­ar. Því verður að gera ráð fyrir að greiðslur til Bene­dikts fram að þeim tíma sem hann hætti hjá Kaup­­þingi telj­ist með í heild­­ar­­upp­­hæð launa­greiðslna til stjórn­­­ar. 

Ásgeir H. Reyk­fjörð Gylfa­son var ráð­inn aðstoð­ar­banka­stjóri Arion banka í fyrra og hóf störf  5. sept­em­ber. Hann starf­aði auk þess sem fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja- og fjár­fest­inga­banka­sviðs frá 26. sept­em­ber. Laun Ásgeirs voru að með­al­tali hærri en laun banka­stjór­ans, en alls fékk hann greiddar 22,5 millj­ónir króna í fyrra fyrir tæp­lega fjög­urra mán­aða störf. Það þýðir að með­al­laun hans á mán­uði voru um 5,6 millj­ónir króna.  

Stefán Pét­urs­son, fjár­mála­stjóri Arion banka, er líka með ágætis laun, eða um fjórar millj­ónir króna á mán­uð­i. 

Mót­fram­lag ­Arion ­banka í líf­eyr­is­sjóð stjórn­enda hans er ekki til­greint í árs­reikn­ingi.

Brynjólfur Bjarna­son var kjör­inn stjórn­ar­for­mað­ur­ ­Arion ­banka í mars í fyrra. Hann fékk sam­tals greitt 16,3 millj­ónir króna í laun á síð­asta ári. Þar er um sam­tölu þess að fá greitt fyrir stjórn­ar­setu og greiðslur fyrir setu í nefndum á vegum stjórn­ar. Alls voru laun Brynj­ólfs, sem er 74 ára gam­all og hefur því verið á eft­ir­launa­aldri í nokkur ár, tæp­lega 1,3 millj­ónir á mán­uði að með­al­tali.

Á aðal­fund­i ­Arion ­banka 2019 var sam­þykkt að stjórn­ar­menn með búsetu utan Íslands myndu fá tvö­föld laun stjórn­ar­manna sem búsettir eru á Íslandi. Á árinu 2019 fékk stjórn­ar­mað­ur­inn Stein­unn Kristín Þórð­ar­dótt­ir, sem búsett er erlend­is, því aft­ur­virka leið­rétt­ingu vegna þessa ákvæð­is. Hún fékk alls 22,1 millj­ónir króna greiddar í stjórn­ar­laun í fyrra. Það þýðir að, að teknu til­liti til hinnar aft­ur­virku leið­rétt­ing­ar, að hún var með 1,8 millj­ónir króna að með­al­tali á mán­uði.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar