Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur boðið þeim sjóðsfélögum sem ofrukkaðir voru vegna vaxtahækkunar á verðtryggðum lánum þeirra í fyrra sem stóðst ekki lög, að endurgreiða þeim upphæðina sem um ræðir eða nýta hana til að greiða niður höfuðstól láns þeirra.
Auk þess hefur vaxtaútreikningur lána þeirra verður færður til fyrra horfs. Það þýðir að verðtryggðir vextir þessa hóps eru nú 1,89 prósent, eða 16 prósent lægri ein annarra lántaka sjóðsins sem áfram þurfa að borga nýju vextina, sem eru 2,26 prósent.
Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna tók þá ákvörðun 24. maí í fyrra að hækka vexti á breytilegum verðtryggðum húsnæðislánum úr 2,06 prósent í 2,26 prósent frá og með ágústbyrjun 2019. Samhliða var ákveðið að hætta að að láta ávöxtunarkröfu ákveðins skuldabréfaflokks stýra því hverjir vextirnir eru og í stað þess myndi stjórn sjóðsins ákveða þá.
Einhverjir sjóðsfélagar töldu þetta illa standast og sendu ábendingar til Neytendastofu.
Neytendastofa sagði nei
Neytendastofa birti í janúar ákvörðun þess efnis að Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), sem breytti líka útrekningi á sínum vöxtum, hafi ekki mátt breyta því hvernig verðtryggðir breytilegir vextir hluta húsnæðislána sjóðsfélaga þeirra voru reiknaðir út. Það hafi verið í andstöðu við ákvæði eldri laga um neytendalán.
Alls hefur ákvörðun Neytendastofu áhrif á öll lán með verðtryggða breytilega vexti sem gefin voru út frá ársbyrjun 2001 til apríl 2017 og varðar vaxtagreiðslur frá maí 2019. Um er að ræða átta prósent af öllum sjóðsfélagslánum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna en ekki liggur enn fyrir hversu mikil áhrifin eru á LSR.
Ákvörðun Neytendastofu þýðir að allir sem tekið höfðu húsnæðislán á breytilegum verðtryggðum vöxtum hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna fyrir 1. apríl 2017 höfðu verið ofrukkaðir um vexti í nokkra mánuði. Þeir fengu tilkynningu fyrir helgi um að sjóðurinn bauð þeim endurgreiðslu á því sem oftekið hafði verið og inni á sjóðsfélagavef hvers og eins er hægt að velta hvort viðkomandi lántaki vill láta leggja upphæðina, sem í flestum tilfellum er nokkrir tugir þúsund króna, inn á bankareikning sinn eða hvort að sjóðurinn eigi að ráðstafa henni til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðisláns.
Þótt upphæðin sem endurgreidd er sé lág í flestu samhengi, enda ofrukkaði Lífeyrissjóður verzlunarmanna hópinn einungis í nokkra mánuði, þá er annað mikilvægara sem telur mjög fyrir þann hóp sem við á. Í bréfi sem sent var út til þeirra sem breytingin nær til segir að stjórn lífeyrissjóðsins hafi, með vísan til þess sem fram kom í ákvörðun Neytendastofu, ákveðið að „færa viðmið fyrir vexti af láni þínu, þar sem það fellur undir ákvörðun stofnunarinnar, til fyrra horfs. Viðmiðið verður því upphaflegt viðmið, þ.e. vaxtaflokkurinn HFF150434, að viðbættu 0,75 prósentustiga álagi.“
Ávöxtunarkrafan sem lækkar og lækkar
Skuldabréfaflokkurinn sem um ræðir hefur þróast þannig að viðskipti með hann hafa farið minnkandi, og samhliða hefur ávöxtunarkrafa flokksins lækkað mikið. Það er helsta ástæðan fyrir því að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna tók ákvörðun um að hætta að binda vaxtaþróun við flokkinn. Vextirnir voru einfaldlega orðnir of lágir.
En þeir hafa haldið áfram að lækka. Og samkvæmt greiðsluseðli fyrir næstu afborgun sem lántakendum sem ákvörðun Neytendastofu á við um barst í vikunni eru vextir lána þeirra fyrir tímabili 3. febrúar til 3. mars 1,89 prósent, eða rúmlega 16 prósent lægri en vextir þeirra sem tóku verðtryggt lán á breytilegum vexti hjá sama sjóði eftir 1. apríl 2017. Þeir borga 2,26 prósent vexti.
Vert er að taka fram að ávöxtunarkrafan getur auðvitað líka hækkað ef viðskipti með flokkinn aukast, jafnvel þannig að vextir þeirra sem eru með lán sín bundin við þróun hans fari yfir 2,26 prósent. Það hefur þó ekki gerst frá því snemma í mars í fyrra.
Á sama tíma er verðbólga, sem leggst ofan á verðtryggða lánið, nú um stundir 1,7 prósent, og því töluvert undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði. Hún hefur ekki verið lægri frá því síðla árs 2017.
Þótt ómögulegt sé að spá fyrir um hvernig verðbólga þróast til framtíðar þá hefur tekist að halda henni að mestu undir verðbólgumarkmiði frá því í febrúar 2014 og fram til dagsins í dag, ef undan er skilið rúmlega eins árs tímabil frá miðju ári 2018 og fram til nóvember í fyrra. Spár gera ráð fyrir því að hún haldist lág í nánustu framtíð.
Hættur að lána verðtryggt á breytilegum vöxtum
Í október greindi Kjarninn frá því að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði breytt lánareglum sínum þannig að skilyrði fyrir lántöku voru þrengd mjög og hámarksfjárhæð láns var lækkuð um tíu milljónir króna. Hámarkslán er nú 40 milljónir króna. Þá ákvað sjóðurinn að hætta að lána nýjum lántakendum verðtryggð lán á breytilegum vöxtum.
Um var að ræða viðbragð við því að Lífeyrissjóður verzlunarmanna var kominn út fyrir þolmörk þess sem hann réð við að lána til íbúðarkaupa. Sjóðurinn greindi samhliða frá því að eftirspurn eftir sjóðsfélagalánum hefði aukist mikið frá því að lánareglur voru rýmkaðar í október 2015. Á þeim tíma voru sjóðsfélagalán um sex prósent af heildareignum sjóðsins en í október í fyrra voru þau um 13 prósent.