Samfylkingin tapaði 2,9 prósentustigum af fylgi milli mánaða, samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup og mælist nú með 14,4 prósent fylgi. Það er samt sem áður meira fylgi en hún mældist með um áramót.
Þrír flokkar bæta marktækt við sig fylgi milli mánaða. Miðflokkurinn bætir við sig 1,7 prósentustigum og nýtur nú stuðnings 14,2 prósent kjósenda. Það er mesta fylgi sem Miðflokkurinn hefur nokkru sinni mælst með í könnunum Gallup. Ef horft er á þróun á fylgi flokksins frá því að það náði lægsta punkti, í desember 2018 í kjölfar Klausturmálsins, Hefur það aukist um 8,5 prósentustig, eða um 150 prósent.
Þá eins og nú stóð yfir harðvítug kjarabarátta með mikla áherslu á hækkun lægstu launa þar sem Efling, annað stærsta stéttarfélag landsins, stóð í stafni. Helstu talsmenn Sósíalistaflokksins hafa stutt baráttu Eflingar í ræðu og riti með miklum ákafa.
Að sama skapi hefur Samfylkingin, flokkur borgarstjórans í Reykjavík, legið undir ámæli fyrir að gera ekki meira til að leysa yfirstandandi kjaradeilu og binda enda á verkföll rúmlega 1.800 félagsmanna Eflingar sem hafa meðal annars víðtæk áhrif á starf leikskóla í borginni, hjúkrunarheimila og sorphirðu.
Vinstri græn er eini stjórnarflokkurinn sem bætir marktækt við sig fylgi milli mánaða og mælist nú með 11,9 prósent stuðning, sem er 1,4 prósentustigi meira en í lok janúar. Fylgi flokksins er samt sem áður 30 prósent minna en það var í kosningunum 2017.
Framsókn í vandræðum
Gengi hinna stjórnarflokkanna tveggja er af öðrum toga. Fylgi Framsóknarflokksins heldur áfram að dala og mælist nú sjö prósent. Það er lægsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með frá því í lok september 2018, áður en Klausturmálið svokallaða kom upp í lok þess árs, en í kjölfar þess hækkaði fylgi Framsóknar skarpt um stund. Fylgið nú er 35 prósent minna en það sem flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum 2017.
Sjálfstæðisflokkurinn er áfram sem áður stærsti flokkur landsins og fylgi hans breytist lítið milli mánaða. Það mælist nú 22 prósent. Það er við lægstu mörk þess sem fylgi hans hefur mælst við á kjörtímabilinu. Í síðustu kosningum var fylgi hans 25,3 prósent.
Píratar dala lítillega milli mánaða og mælast nú með 10,7 prósent fylgi. Rétt á eftir þeim kemur Viðreisn með 10,3 prósent, sem er nákvæmlega sama fylgi og flokkurinn mældist með í janúar.
Af þeim átta flokkum sem eru með fulltrúa á Alþingi í dag er Flokkur fólksins líklegastur til að falla af þingi að óbreyttu, en fylgi hans mælist fjögur prósent. Flokkurinn hefur ekki mælst með yfir fimm prósent fylgi síðan í desember 2018 í könnunum Gallup.
Sósíalistaflokkurinn tekið mest nýtt fylgi til sín
Ef kosningar myndu fara eins og könnun Gallup í febrúar segir til um yrðu því líkast til áfram átta flokkar á Alþingi. Sú breyting yrði á að Sósíalistaflokkurinn myndi taka sæti Flokks fólksins.
Ríkisstjórnin er að óbreyttu fallin, enda sameiginlegt fylgi þeirra þriggja flokka sem hana mynda 40,9 prósent.
Samfylkingin, Píratar og Viðreisn eru samanlagt með 7,8 prósentustigum meira fylgi en flokkarnir voru með í kosningunum 2017. Af þeim flokkum sem eru á þingi hefur Viðreisn bætt mestu við sig, eða 3,6 prósentustigum.
Sá flokkur sem hefur náð næst mestum árangri í fylgisaukningu frá októberlokum 2017 er Miðflokkurinn, sem hefur bætt við sig 3,3 prósentustigum.
Mesta fylgisaukning allra flokka sem mældir eru er þó hjá Sósíalistaflokki Íslands, sem var ekki til haustið 2017, en mælist nú með fimm prósent fylgi.