Ríkisstjórnin afgreiddi á fundi sínum í gærkvöldi frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem gerir ráð fyrir því að veita fyrirtækjum í landinu mánaðarfrest á helmingi tryggingagjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda sem voru á gjalddaga í mars. Eindagi þeirra gjalda er að óbreyttu á mánudag, 16. mars, en verður seinkað fyrir helming þeirrar upphæðar sem fyrirtækin í landinu eiga að greiða til 15. apríl.
Gert er ráð fyrir því að þær lagabreytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu hafi í för með sér seinkun á tekjum ríkissjóðs upp á 22 milljarðar króna.
Frumvarpið verður lagt fyrir á viðbótarþingfundi sem fram fer í dag vegna aðstæðna í samfélaginu og ætti að verða að lögum í kjölfarið,
Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu segir að meðan greiðslufrestur varir verði unnið að útfærslu nýrrar leiðar til að tryggja fyrirtækjum í erfiðleikum úrræði til greiðsludreifingar. „Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar má rekja til samþykktar ríkisstjórnarinnar 10. mars, um markvissar aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19. Aðgerðirnar miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Meðal aðgerða sem þar voru kynntar var að veita fyrirtækjum svigrúm sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls og er brugðist við því með ofangreindu frumvarpi um frestun gjalddaga.
Ferðabannið flýtti viðbrögðum
Ljóst er að ferðabannið sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, setti á í fyrrinótt, og kemur meðal annars í veg fyrir að farþegar frá Íslandi geti ferðast til Bandaríkjanna í 30 daga frá og með miðnætti í dag, hefur gert það að verkum að ríkisstjórn Íslands hefur endurmetið viðbrögð sín við efnahagslegum afleiðingum útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Á þriðjudag kynnti ríkisstjórnin alls sjö aðgerðir sem ráðast ætti í til að takast á við aðstæðurnar. Ein þeirra var að fresta með einhverjum hætti greiðslu opinberra gjalda, en sú leið var ekki útfærð með neinum hætti á þeim blaðamannafundi, né í þeim tillögum sem birtar voru opinberlega í kjölfar hans. Nú hefur fyrsta útfærsla þeirra litið dagsins ljós.
Í þeim pakka voru líka aðgerðir sem þegar höfðu verið kynntar, eins og tilfærsla á innstæðum Íbúðalánasjóðs úr Seðlabanka Íslands og yfir til viðskiptabanka til að auka laust fé innan þeirra.
Þá hafði áður verið greint frá því að aukin kraftur yrði settur í fjárfestingar hins opinbera og engar nýjar slíkar tilgreindar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar. Þar var hins vegar líka greint frá því að fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum og að gistináttaskattur verði felldur niður. Hann hefur skilað rúmlega einum milljarði króna í tekjum á undanförnum árum en fyrir liggur að gistináttaskatturinn, sem er 300 krónur á hverja selda gistinótt, mun hvort eð er skila mun minna í tekjur fyrir ríkissjóð ef ferðamenn eru ekki að koma til landsins.
Þá greindi ríkisstjórnin frá því að hún ætlaði í markaðsátak erlendis „þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.“
Virkt samtal um hvernig bankar eigi að taka á stöðu fyrirtækja sem geta ekki staðið við greiðslur af lánum né almennar rekstrargreiðslur, eins og launagreiðslur, hefur verið í gangi en engin niðurstaða kynnt um hvernig þeim málum verði háttað að öðru leyti en að til standi að reyna að fleyta „lífvænlegum fyrirtækjum“ í gegnum þann kúf sem framundan er.
Forsætisráðherra sagði mikla áskorun framundan
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gaf í gær munnlega skýrslu um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldursins sem nú geisar á Alþingi. Þar sagði hún meðal annars: „Ég vil segja það að markviss og traust viðbrögð skipta sköpum í aðstæðum eins og við glímum nú við. Aðgerðir stjórnvalda munu miða við að styðja við atvinnulífið og fólkið í landinu, enda er það tengt órjúfanlegum böndum.“
Katrín kynnti engar nýjar aðgerðir en fór yfir það sem þegar verið verið lagt á borðið og sagði að mestu máli skipti að aðgerðir stjórnvalda verði markvissar, réttlátar og skynsamar. „Gerum okkur grein fyrir því, við sem hér sitjum, að íslenskt samfélag stendur frammi fyrir mikilli áskorun. Og það er áskorun sem er mikilvægt að við mætum í sameiningu og leggjum öll okkar að mörkum til að sigrast á henni. Þar er hlutverk okkar allra mikilvægt, bæði ríkisstjórnar en ekki síður þingsins. Við þurfum öll að sýna forystu til þess að við getum tekist á við þessa áskorun með sómasamlegum hætti.“