Óflokkað

Svartasti dagurinn í Kauphöllinni frá bankahruni

Icelandair lækkaði um tæp 22 prósent og markaðsvirði þess er nú einn þriðji af eigin fé félagsins um síðustu áramót. Úrvalsvísitalan lækkaði meira en hún hefur gert frá því í hruninu. Krónan hefur veikst um sjö prósent innan árs. Þetta er staðan í íslensku efnahagslífi í dag.

Úrvals­vísi­tala íslensku Kaup­hall­ar­inn­ar, sem er saman sett úr gengi þeirra tíu félaga á mark­aði sem hafa mestan selj­an­leika, hefur lækkað um tæpan 22,5 prósent frá 21. febr­ú­ar. Þann föstu­dag var gengi hennar 2.170,5 stig en við lok við­skipta í dag var hún rétt rúm­lega 1.682,6 stig. Hún lækk­aði um 8,44 pró­sent í dag, sem gerir það að verkum að hann var sá svartasti í íslensku Kauphöllinni frá því að íslenskur hlutabréfamarkaður var endurreistur eftir bankahrun.

Heildarmarkaðsvirði þeirra 20 félaga sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar hefur lækkað um rúmlega 281 milljarð króna frá 21. febrúar. 

Icelandair leiðir hrunið

Alls féllu 18 af félögunum 20 sem skráð eru á aðal­listann í verði í dag. Mest lækk­aði Icelandair, eða um 22,8 prósent. Markaðsvirði þess félags við lok viðskipta var rétt um 21 milljarður króna. Það hefur ekki verið lægra frá því í jan­úar 2011. Mark­aðsvirði Icelandair fór niður fyrir 30 millj­arða króna í fyrsta skipti í átta ár í byrjun viku og hefur haldið áfram að falla hratt.

Þegar mark­aðsvirði var hæst, í apríl 2016, var það 191,5 millj­arðar króna. Síðan þá hefur hlutafé í Icelandair verið aukið um rúm­lega fimm millj­arða króna en mark­aðsvirðið samt komið niður í ofan­greinda tölu.

Samkvæmt tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í morgun nam ­­lausa­fjár­s­­staða ­­fé­lags­ins nam rúmum 39 millj­­örðum króna  í árs­­lok 2019 og er á sama stað í dag. Eigið fé Icelandair var um 60 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót. Mark­aðsvirðið er því um einn þriðji af eigin fé félags­ins og rétt rúmur helm­ingur af lausu fé þess.

Trump setur allt á annan endann

Ástæðan fyrir hinu mikla hruni í dag er vitanlega tíma­bundið ferða­­bann banda­rískra stjórn­­­valda til og frá Evr­­ópu, sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, setti á í nótt. Ferða­­bann­ið, sem á að standa yfir í 30 daga frá og með kom­andi föst­u­degi, mun virka þannig að öllum íbúum landa sem til­­heyra Schengen-­­svæð­inu, þar á meðal Ísland og þorri Evr­­ópu, verður meinað að koma til Banda­­ríkj­anna á tíma­bil­inu. Banda­rískir rík­­is­­borg­­arar og aðrir sem eru með fasta búsetu í Banda­­ríkj­unum munu fá að ferð­­ast ef þeir vilja en sam­­kvæmt frétta­til­kynn­ingu sem birt var í nótt á vef heima­varn­­ar­ráðu­­neyt­is­ins mun þeim banda­rísku far­þegum sem dvalið hafa á Schengen-­­svæð­inu hleypt inn í landið í gegnum valda flug­­velli þar sem sér­­stakar ráð­staf­­anir verða gerðar til að skima fyrir smiti.

Allar líkur eru því til þess að flug milli Banda­­ríkj­anna og landa sem til­­heyra Evr­­ópska efna­hags­­svæð­inu muni að mestu liggja niðri á meðan að bannið stendur yfir, enda ólík­­­legt að flug­­­fé­lög muni fljúga mikið þegar þorri Evr­­ópu má ekki koma til Banda­­ríkj­anna, og Banda­­ríkja­­menn hafa verið hvattir til að fara helst ekki til Evr­­ópu.  Það mun hafa gríð­­ar­­leg áhrif rekstur Icelandair. 

Krónan veikst mikið síðastliðinn mánuð

Á meðal annarra félaga sem fóru illa út úr deginum var Iceland Seafood, sem skráð var á markað í fyrra, en gengi bréfa í því féllum um 14,7 prósent í dag. Smásölurisinn Festi og tryggingafélagið VÍS féllu líka um tveggja stafa prósentutölur í viðskiptum dagsins.

Verð­mætasta félagið á mark­aði, Mar­el, fór með him­in­skaut­unum í fyrra og virði þess hækk­aði um 66 pró­sent á árinu 2019. Mark­aðsvirði félags­­ins í lok árs var 473,4 millj­­arðar króna. Það hélt áfram að hækka framan af árinu 2020 og virði þess skreið yfir 500 millj­arða króna um tíma í jan­ú­ar. Nú er það um 377,8 millj­arðar króna, eftir að bréf í félaginu lækkuðu um rúm sjö prósent í dag, og því hafa rúmlega 120 millj­arðar króna af mark­aðsvirði Marel horfið á tæpum tveimur mán­uð­u­m. 

Næst stærsta félagið á mark­aði er Arion banki. Hann var skráður á markað í júní 2018 og í lok fyrsta við­skipta­dags var gengi hluta­bréfa hans 88,8 krónur á hlut. Það er nú 65,2 krónur á hlut eða tæplega 27 prósent lægra. Mark­aðsvirði bank­ans er nú 118,3 millj­arðar króna, eða umtals­vert lægra en eigið fé bank­ans sem var 190 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót.

Íslenska krónan er líka í frjálsu falli. Hún hefur veikst um 5,4 prósent gagnvart evru síðastliðinn mánuð og alls um sjö prósent frá áramótum.


Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar