Árið 2017 stofnaði Rasmus Paludan stjórnmálaflokkinn Stram Kurs, Stífa stefnu. Í bæja og sveitarstjórnarkosningunum það ár bauð flokkurinn fram í öllum bæja- og sveitarfélögum en fékk lítið fylgi og náði hvergi að fá fulltrúa kjörinn. Rasmus Paludan lét þó engan bilbug á sér finna, sagði fall fararheill. Flokkurinn væri rétt að byrja að fóta sig og ekki myndi líða á löngu uns allir Danir þekktu hann. Það reyndust orð að sönnu þótt það hafi kannski ekki orðið með þeim hætti sem flestir bjuggust við.
Hver er hann, þessi Rasmus Paludan?
Þótt fæstir Danir hafi kannski kannast við Rasmus Paludan áður en hann skaust upp á fjölmiðlahimininn árið 2017 þekkir hvert mannsbarn hann í dag.
Rasmus Paludan er fæddur 2. janúar 1982. Hann ólst upp í Hornbæk á Norður- Sjálandi og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Helsingjaeyri árið 2000. Að lokinni herskyldu hóf hann nám í lögfræði við Hafnarháskóla og útskrifaðist árið 2008 og fékk réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 2014. Á árunum 2015 -2018 var Rasmus Paludan stundakennari við lögfræðideild Hafnarháskóla. Á þeim tíma bárust yfirstjórn skólans fjölmargar kvartanir vegna framkomu og kennsluhátta hans.
Rasmus Paludan var um tíma félagi í samtökum sem kennd voru við sænska listamanninn Lars Vilks, og stóðu fyrir umræðufundum um þjóðfélagsmál. Á fundi samtakanna í samkomuhúsinu Krudttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn 14. febrúar 2014 hugðist vopnaður maður, Omar El-Hussein ráðast inn á fundarstaðinn. Fyrir utan húsið varð Omar El-Hussein manni að bana og flýði síðan af vettvangi. Um miðnætti sama dag varð Omar El-Hussein öðrum manni að bana, í miðborg Kaupmannhafnar. Sjálfur féll hann svo í skotbardaga við lögreglu. Lars Vilks samtökin leystust upp árið 2019 en þá var Rasmus Paludan löngu róinn á önnur mið. Hafði haft stutta viðkomu í stjórnmálaflokknum Nye Borgerlige en var rekinn úr flokknum vegna ummæla sem hann hafði viðhaft á fundi samtakanna For Frihed. Þar sagði Rasmus Paludan í ræðu að í Danmörku ríkti borgarastyrjöld vegna innrásar frá framandi fjendum, múslimum.
Stram Kurs – Stíf stefna
Eins og áður var nefnt stofnaði Rasmus Paludan nýjan flokk, Stram Kurs, Stífa Stefnu árið 2017. Aðal baráttumál flokksins (sem oft hefur verið kallaður eins manns flokkur) var barátta gegn múslimum og að hálfri milljón fólks, sem ekki væri af vestrænum uppruna (orðalag flokksformannsins) en byggi í Danmörku yrði vísað úr landi. Í kosningum til bæja- og sveitastjórna það sama ár fékk Stíf Stefna engan fulltrúa kjörinn. Ýmsir töldu að þessi nýi flokkur væri þar með úr sögunni. Það reyndist ekki rétt.
Árið 2018 hélt Rasmus Paludan fjölda úti- og mótmælafunda, í nafni flokksins. Fundarefnið var ætíð hið sama, barátta gegn múslimum. Framferði hans vakti mikla reiði múslima í Danmörku, hann kveikti í Kóraninum, hvatti fólk til að spræna á þessa helgustu bók múslima, og trampa á henni. Stundum átti Rasmus Paludan fótum fjör að launa og lögregla bannaði oft á tíðum fundi sem hann hugðist halda. Stuðningsmenn Stífrar Stefnu birtu á netinu, td. YouTube, myndbönd sem sýndu flokksformanninn flytja ræður, þar sem hann fór mikinn. Þetta dró athygli að flokknum og þeim sem fylgdu honum að málum fjölgaði mjög.
Fyrir kosningarnar í Danmörku árið 2019 fékk Stíf Stefna nægan fjölda meðmælenda til að geta boðið fram í þingkosningunum sem fram fóru 5. júní. Fyrir kosningar bentu kannanir til að flokkurinn myndi ná manni á þing, en sú varð þó ekki raunin.
Meðmælendasvindl og hugsanleg nafnbreyting
Fljótlega að kosningum loknum fóru að heyrast raddir um að ekki hefði allt verið með felldu varðandi meðmælendalista sem lagður var fram og heimilaði Stífri Stefnu að bjóða fram. Nefnd sem hefur eftirlit með undirbúningi og framkvæmd kosninga hefur þetta mál nú til athugunar og mun tilkynna niðurstöðu sína í lok þessa mánaðar.
Glæpahundarnir gæta hans
Í æviminningum sínum sagði Paul Schluter fyrrverandi forsætisráðherra Dana frá því að fyrsta daginn í embætti sem forsætisráðherra (árið 1982) mætti bílstjórinn ekki á réttum tíma við heimili hans. „Ég tók þá bara strætó eins og ég var vanur“ sagði Paul Schluter. Þetta myndi ekki gerast í dag, og þarf ekki forsætisráðherra til.
Samkvæmt dönskum lögum ber lögreglunni að gæta öryggis stjórnmálamanna. Hversu mikil sú gæsla skuli vera er metin í hverju tilviki. Í samræmi við þetta gæta nú lögregluþjónar Rasmus Paludan og fylgja honum hvert fótmál, nótt sem nýtan dag. Honum hefur margoft verið hótað lífláti vegna skoðana sinna.
Í október í fyrra flutti Rasmus Paludan til smábæjarins Rødkærsbro, smábæjar á Mið- Jótlandi. Á dagvinnutíma eru það starfsmenn Leynilögreglunnar, PET, sem gæta flokksformannsins en á nóttunni eru tveir lögregluþjónar frá Mið- og Vestur Jótlandi á vakt við húsið. Rødkærsbro er ekki beinlínis í þjóðleið og sú ákvörðun Rasmus Paludan að setjast þar að kallar því á mikil útgjöld lögreglunnar.
Danska útvarpið, DR, fjallaði nýlega ítarlega um kostnaðinn sem fylgir lögregluvernd nokkurra stjórnmálamanna, þar á meðal Rasmus Paludan. Þar kom fram að frá október í fyrra og til 1. mars í ár nema útgjöld lögreglunnar á Mið- og Vestur Jótlandi vegna Rasmus Paludan (síðan hann flutti til Rødkærsbro) um það 180 þúsund dönskum krónum (3.6 milljónum íslenskum). Kostnaður dönsku Leynilögreglunnar vegna gæslunnar liggur ekki fyrir en þó er vitað að hann er umtalsvert hærri. Við þetta bætist svo kostnaður annarra lögregluumdæma þegar Rasmus Paludan er að heiman, að sögn fréttamanna DR er það meira en önnur hver nótt.
Samkvæmt upplýsingum DR voru heildarútgjöld lögreglu á árinu 2019, vegna gæslunnar í kringum Rasmus Paludan rúmlega 100 milljónir danskra króna (rúmir 2 milljarðar íslenskir).
Rasmus Paludan hefur ekki tjáð sig mikið um löggæsluna og kostnaðinn við hana. Segist bara halda sínu striki, og sofa vel. Þegar hann var spurður hvernig honum líkaði að hafa lögregluna á vappi fyrir utan húsið á nóttunni svaraði hann „það er alltaf gott að hafa varðhunda, hvort sem þeir eru fjórfættir eða tvífættir“.