Mynd: Bára Huld Beck

Ef 20 þúsund fara á hlutabætur þá kostar það 12,8 milljarða

Miklar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpi sem er ætlað að gera fyrirtækjum í vanda kleift að minnka starfshlutfall starfsmanna en gera þeim kleift að sækja hlutabætur í Atvinnuleysistryggingasjóð á móti. Hlutföll hafa verið hækkuð og þeim sem eru með lægstu launin munu halda 100 prósent af tekjum.

Ríkisstjórnin reiknar með að ef 20 þúsund einstaklingar muni semja um lækkað starfshlutfall við atvinnurekanda sinn, og nýti sér það að fá hlutabætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði á móti mun heildarkostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þessa bráðabirgðaúrræðis verða 12,8 milljarðar króna. Sá heildarkostnaður er reiknaður út frá þeim forsendum að greiðslur hlutabóta standi yfir frá 15. mars til 1. júní, eða í tvo og hálfan mánuð. 

þetta kemur fram í kostnaðarmati sem félagsmálaráðuneytið hefur sent til velferðarnefndar Alþingis fyrir fund hennar sem fram fer á eftir klukkan 18, og Kjarninn hefur undir höndum. 

Á fundinum stendur til að fjalla um breytingar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breyt­ingar á lögum um atvinnu­leys­is­trygg­ingar og lögum um Ábyrgð­ar­sjóð launa, vegna sér­stakra aðstæðna á vinnu­mark­að­i, sem lagt var fram af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og var upphaflega afgreitt úr ríkisstjórn síðastliðinn föstudag.

Umtalsverðar breytingar á frumvarpinu

Frumvarpið mun taka töluverðum breytingum. Samkvæmt þeim drögum frumvarpsins sem Kjarninn hefur séð þá eru helstu breytingarnar þær að starfsfólk sem er með allt að 700 þúsund krónur í mánaðarlaun mun geta fengið allt að 90 prósent launa sinna á tímabilinu annars vegar frá vinnuveitanda og hins vegar í formi atvinnuleysisbóta. Þeir sem eru með undir 400 þúsund krónur á mánuði munu fá 100 prósent launa sinna. Upphaflega var hlutfallið sem hægt var að fá greitt 80 prósent af launum upp að 650 þúsund krónum á mánuði og engar sérstakar ráðstafanir gerðar til að verja launalægsta hópinn. 

Þá hefur sú breyting verið gerð á frumvarpinu að starfsmaður getur nú að hámarki lækkað í 25 prósent starfshlutfall og fengið greiðslur á móti, en áður var það hámarkshlutfall 50 prósent. 

Viðmælendur Kjarnans segja að frumvarpið gæti enn tekið breytingum áður en fundur velferðarnefndar hefst í dag, og ofangreindar tölur eru settar fram með þeim fyrirvara.

Var harðlega gagnrýnt í umsögnum

Upphaflega þegar frumvarpið var lagt fram af Ásmundi Einari fól það í sér að fyrirtæki sem myndi skuldbinda sig til að greiða starfsfólki 50 til 80 prósent launa sinna áfram myndi geta sóst eftir því að það starfsfólk gæti fengið atvinnuleysisbætur á móti launum frá vinnuveitenda. 

ASÍ gagnrýndi frumvarpið nokkuð harðlega í umsögn sinni. Drífa Snædal er forseti ASÍ.
Mynd: Bára Huld Beck.

Heildargreiðslur áttu aldrei að geta numið hærri fjárhæð en 80 prósentum af meðaltali launa og ekki meira en 650 þúsund krónur í heildina. Frumvarpið var harðlega gagnrýnt í umsögnum um það og bentu fulltrúar launþega meðal annars á að fyrir einstaklinga á lægstu laununum myndi sú innbyggða launalækkun sem hlutabæturnar fælu í sér skila því að þeir færu úr 317 þúsund krónum fyrir skatta í 254 þúsund krónur á mánuði. Í umsögn ASÍ sagði: „Þessi hópar geta ekki tekið á sig slíka lækkun tekna.“

Tekið hefur verið tillit til þessara athugasemda og áðurnefndar breytingar lagðar til á frumvarpinu. 

Tíminn styttur

Í kostnaðarmati félags- og barnamálaráðuneytisins kemur fram að Vinnumálastofnun áætli að um 23 þúsund manns hafi verið starfandi í ferðaþjónustutengdum greinum í febrúar. Í matinu er áætlað að ef 20 þúsund einstaklingar semji um lækkað starfshlutfall við vinnuveitanda sinn í tvo og hálfan mánuð, frá 15. mars til 1. júní, þá muni heildarkostnaður Atvinnutryggingasjóðs nema 12,8 milljörðum króna. 

Upphaflega átti að vera hægt að sækja um hlutabætur til 1. júlí og heimildir Kjarnans herma að kostnaðarmat til þess tíma, út frá sömu forsendum, væri að slíkt myndi kosa Atvinnutryggingasjóð 19 milljarða króna. 

Því liggur fyrir að tímabilið sem þessi ráðstöfun á að ná til hefur verið stytt um einn mánuð samkvæmt fyrirliggjandi drögum um breytingar á frumvarpinu. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar