Bára Huld Beck Jóga
Bára Huld Beck

Ástandið er ein löng jógaæfing – Jóga nidra hugleiðsla handa lesendum Kjarnans

Auður Jónsdóttir rithöfundur hitti Auði Bjarnadóttur, eiganda Jógasetursins, sem í meðfylgjandi myndbandi leiðir lesendur Kjarnans í gegnum jóga nidra hugleiðslu til að ná djúpslökun. Hér er viðtal við jógakennarann og djúphugleiðsla handa ykkur.

Í þessu skrýtna ástandi, nú um mund­ir, leitar kvíði á marga, á sama tíma og við þurfum að huga að heilsu og ónæm­is­kerfi. Jóga er skil­virk leið til að dempa kvíða og styrkja ónæm­is­kerfið svo ég bað Auði Bjarna­dótt­ur, eig­anda Jóga­set­urs­ins, um að leiða les­endur inn í jóga­æf­ingar góðar til­ þess. Auður taldi best, til að byrja með, að gera djúp­hug­leiðslu kennda við jóga nidra – sem þýðir jógískur svefn – en það er tutt­ugu mín­útna slökun sem fylgir með þessu við­tali. Hug­leiðslan styrkir lík­ama og sál.

Auður Bjarna­dóttir er frum­kvöð­ull í jóga­kennslu á Íslandi. Þessi fyrrum ball­ett­stjarna sneri baki við alþjóð­legum ball­et­ferli fyrir löngu síðan og má segja að hún hafi fylgt köllun sinni: Að kenna jóga. Margar konur eru henni djúpt þakk­látar eftir að hafa verið í með­göngu­jóga hjá henni en lík­lega hefur inn­gripum í fæð­ingar fækkað eftir að konum gafst kostur á að stunda með­göngu­jóga og und­ir­búa sig þannig fyrir fæð­ingu.

Eitt­hvað við ástandið nú minnir á fæð­ingu; við erum van­máttug á valdi afls sem hefur tekið af okkur völdin í ein­hverjum skiln­ingi. Ég sett­ist niður með Auði til að tala um þetta skrýtna ástand – sem marg­um­töluð veira hefur skap­að. Veira sem á örskömmum tíma hefur sett háþróuð nútíma­sam­fé­lög á hvolf.

Auglýsing

Í spjall­inu sagði Auður við mig: Í raun­inni er ástandið ein löng jóga­æf­ing.

Mér fund­ust þessi orð nöfnu minnar svo rétt. Þetta ástand reynir á styrk okkar og líka æðru­leysi. Um leið og ástandið ýfir upp van­mátt­ar­kennd þvingar það okkur til að hvíla í óvissu. Anda inn í kvíð­ann, halda stöð­unni. Standa upp­rétt, þó að sum okkar langi mest til að sofna til að gleyma þessum vonda draumi. Þetta er jú draumkennt ástand, svo óraun­veru­legt að eina stund­ina virð­ist allt með felldu, þá næstu líður manni eins og heimsendir sé á næsta leiti. Við stöndum öll frammi fyrir hverf­ul­leika lífs­ins og getum ekki litið und­an. Gleymt okk­ur. Því það getur kostað líf.

Svo við verðum að sleppa tök­un­um. Eins og í jóga. Bara vera. Og gera eins og okkur er sagt. Anda inn, anda út. Standa styrk. Þegar Auður und­ir­býr konur fyrir fæð­ingu kennir hún þeim öndun sem hjálp­ar, miðlar jóga­sýn á lífið og styrkir þær í að má út ótt­ann. Ég man að í fæð­ingu hjálp­aði þessi hugsun mér heil­mik­ið, að fæð­ingin væri jóga­æf­ing sem ég þyrfti aðeins að hvíla í þangað til barnið væri kom­ið.

Sleppa tök­unum á eigin lík­ama. Bara vera, á valdi aflsins, nátt­úr­unn­ar. Því ótt­inn skapar spennu og þar með mót­spyrnu, spennan gerir allt erf­ið­ara.

Að vera getur reynst flókið þegar veran verður svona snú­in, eins og í ástandi sem þessu. En lífið er alltaf hverf­ult, öllum stund­um, mun­ur­inn aðeins sá að nú blasir það svo æpandi áber­andi við að það reynir á okkur að taka til­lit til fall­valt­leik­ans í öllum okkar athöfnum næstu vik­urnar og mán­uð­ina. Við erum til­neydd til að hvíla í óviss­unni og það reyn­ist mann­eskjum oft svo strembið, enda er erf­ið­asta jóga­staðan sú að liggja í algjörri slökun og sleppa tök­un­um.

Þessi ein­falda mantra, að sleppa tök­un­um, er í raun það flókn­asta í líf­inu. Okkur reyn­ist oft um megn að sleppa ótt­an­um, stjórn­sem­inni, tikt­úrum hug­ans; þrá­hyggj­unni að hafa stjórn á hverjum degi, vera sífellt með plön og vilja ráða fram­tíð­inni.

Auður og Auður
Bára Huld Beck

Ónæm­is­kerfið skelfur með ótt­anum

Ég hóf sam­tal okkar Auðar með eft­ir­far­andi orð­um: Nú troðum við mar­vað­ann í áður ókunn­ugu ástandi, við skiljum ekki alveg ástandið sem við erum inn í og skyndi­lega blasir við óvissa. Þá koma jóga og hug­leiðsla inn sem svo sterk hjálp­ar­tæki. Hvað getur þú sagt fólk um það?

Ástandið sem við erum að fara í gegnum er ein stór jóga­æf­ing, svar­aði Auður þá. Við förum öll inn í svo mik­inn ótta, kvíða og spennu. Og það segir kannski svo­lítið mikið um hvar við erum stödd. Ef ég tala út frá jógískri sýn, þá er ótt­inn svo eðli­legur í mann­legu eðli. Ein­hver á veika móður eða ein­hver annar í fjöl­skyld­unni er með við­kvæmt ónæm­is­kerfi eða und­ir­liggj­andi sjúk­dóma og þar fram eftir göt­um. Við panikkum ansi mik­ið; hug­ur­inn skelfur og ónæm­is­kerfið skelfur með­ ótt­an­um. En ótt­inn hefur áhrif á ónæm­is­kerf­ið. Sumir myndu jafn­vel segja að ótt­inn geti verið verri veir­an. Að vera í stöð­ugum kvíða og stöðugri spennu er ekki gott fyrir heils­una, sagði hún og hreiðr­aði um sig með tebolla.

Síðan hélt nafna mín áfram: Um leið og ég brosi, þá styrki ég ham­ingj­una. Alltaf þegar ég brosi styrki ég slök­un­ar­taug lík­am­ans, svo­kall­aða flökku­taug. Já, þegar ég brosi eða syng og geri hluti sem láta mér líða vel, þá styrki ég ónæm­is­kerf­ið. Það er gott að verja sig og vita allt um sprittið – en um leið megum við ekki hætta að gera það sem gerir okkur gott og styrkir okk­ur, sagði hún og tók sem dæmi að sama dag hefði hún til dæmis farið í göngutúr með vin­konu í Ellið­ár­dal­inn, til að anda að sér fersku lofti og vera í kringum plönt­ur.

Síðan fórum við í sund og önd­uðum að okkur úti­lofti og sól – og stungum okkur í heitt og kalt. Þetta allt styrkir ónæm­is­kerf­ið, útskýrði Auð­ur.

Auglýsing

Við þurfum að vera eins mikið úti núna og við get­um. Þeim sem finna til dep­urðar eða eru kvíðnir líður oft betur bara við að fara út að ganga.

Okkur líður líka betur ef við erum í kringum tré, plöntur og nátt­úru. Bara það að lyfta upp bring­unni og búa til rými fyrir lungun færir okkur meiri vellíð­an. Það er svo gott að muna að við getum öll gert eitt­hvað smá – eins og heil­brigð­is­ráð­herr­ann okkar sagði í sjón­varp­inu um helg­ina: Ég er bara að læra núna að stoppa annað slagið og draga djúpt inn and­ann.

Við drógum báðar djúpt inn and­ann að þessu mæltu. Auður leggur áherslu á að allt þetta skipti máli því í streit­unni og kvíð­anum verði önd­unin grynn­ri, án þess við séum með­vituð um það, og slíkt dragi úr okkur orku.

Góður svefn styrkir líka ónæm­is­kerf­ið, sagði hún. Sama gildir um hreyf­ingu, úti­vist, jóga og hug­leiðslu. Þetta styrkir jákvæðn­ina í hug­an­um, en það er búið að sanna að við eigum til að leita meira í nei­kvæðn­ina í hug­an­um. Mann­eskjan rennur ósjálfrátt niður í renni­braut nei­kvæðna hugs­ana­ferl­is­ins. Hugs­anir okkar eru 60 til 70 % nei­kvæð­ar.

Svo það er verk­efni hvers og eins að finna jáið og ljósið innra með sér. Þakk­læt­ið, sagði Auð­ur, vön að pæla í mekk­an­ism­anum innra með okkur og miðla slíkum pæl­ingum í jóga­tím­um.

Bára Huld Beck

Er þessi hugsun að gera mér gott?

Hug­ur­inn er allan dag­inn að hugsa alls­konar bull, það poppar inn í höf­uð­ið, bætti hún við. En með meiri með­vit­und get ég ákveðið hvort ég vilji næra erf­iðar hugs­an­ir. Ef ég hugsa stöðugt, ómeð­vit­að, nei­kvætt, þá get ég verið að mylja niður ónæm­is­kerf­ið, án þess að vita af því. En með með­vit­und get ég hugs­að: Úpps, hvaða hugsun er þetta? Er hún að gera mér gott? Ég get talað við hug­ann og því getur ásetn­ingur skipt máli, til dæmis að stíga inn í dag­inn og segja við sjálfan sig: Ég er heil­brigð/ur og heil/l. Vegna þess að tauga­kerfið nemur hugs­anir okk­ar.

Það nemur hugs­un­ina sem ég trúi. Þannig get ég nært ótt­ann en ég get á sama hátt nært öryggi og ást. Ég þarf að velja hvort ég næri: Ótt­ann eða örygg­ið. Við erum öllum stundum að næra annað hvort.

Auður tók sér mál­hvíld en sagði síðan að mann­eskjan væri kannski í grunn­inn svo­lítið hrædd. Þess vegna leit­að­ist hún við að vera stöðugt að tryggja sig.

Með alls­konar dóti og græjum – eða bara eins og núna, fólk hamstrar varn­ing í búð­unum af því að ótt­inn er und­ir­liggj­andi, tók hún sem dæmi. En svo er magnað að um leið og við hugsum þetta sem langa jóga­æf­ingu, eins konar heims­vit­und, þá þvæ ég mér um hend­urnar fyrir mig, en líka fyrir þig. Og líka fyrir kon­una í Afr­íku! Við erum öll í því sama.

Ráðin hennar Auðar

Nú eru margir í sótt­kví og það tekur á að vera lok­aður inni dögum sam­an, sagði ég næst við Auði og spurði hvort hún ætti til ráð, æfingar eða hug­leiðslu, sem gætu gagn­ast vel í ein­angrun jafnt sem í dag­lega líf­inu.

Já, sagði Auður og hló lágt þegar hún minnti á að lífið væri ein stór óvissa!

Við þurfum að treysta, anda inn í það sem er, slaka inn í það sem er. Og ég held það sé svo gott ef okkur tekst að lifa í æðru­leysi í óviss­unni.

Leyfa æðru­leys­inu að hjálpa okkur í gegnum svona aðstæð­ur. Hugsa: Ég geri mitt besta en ég held ró minni. Ég get ekki meira, ég get ekki vitað hvað ger­ist á morg­un. Ég get bara vitað að ég get gert mitt besta í dag, botnar hún.

Að þessu mæltu fylgdi Auður mér inn í jóga­sal­inn sinn, sótt­hreins­aðan í hverjum króka og kima, og ég lagð­ist á dýnu, lygndi aftur aug­unum og hvarf inn í vit­und­ina, þangað til ég vakn­aði end­ur­nærð.

Hér er tutt­ugu mín­útna hug­leiðsla, ef þú, les­andi góð­ur, þráir að sleppa tök­unum um stund. Þess má geta að á Face­book-­síðu Jóga­set­urs­ins er nú verið að streyma jóga­tím­um, þ.e. nú eru þar jóga­tímar í beinni útsend­ingu. Strax síð­ast­lið­inn mánu­dag var byrjað að streyma tímum þar og það hugsað sem gjöf til sam­fé­lags­ins. Flesta daga er bætt við tím­um; í jóga nidra, jógaflæði, kundal­ini jóga, hug­leiðslum og fjöl­skyldu­jóga. Þá geta allir gert jóga heima. Auður mælir með að fólk búi sér til jóga­horn, á sama stað með reyk­elsi og kerta­ljósi, þannig geti það skapað vissa helgi á staðnum sín­um. Allt hér.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnAuður Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiFólk