Eignir lífeyrissjóða lækkuðu um 87,5 milljarða á einum mánuði en stóra höggið er eftir
Eignasafn íslenska lífeyrissjóðakerfið mun taka á sig mikið högg vegna þeirra efnahagslegu hamfara sem nú ríða yfir heiminn. Eignir þess hafa einungis tvívegis dregist saman um fleiri krónur á einum mánuði en í febrúar: í desember 2018 og í október 2008. Stóra höggið á þó eftir að koma fram. Það raungerðist í mars.
Eignir íslensku lífeyrissjóðanna lækkuðu um 87,5 milljarða króna í febrúar og voru 4.919 milljarðar króna, samkvæmt nýjum tölum um efnahag lífeyrissjóða sem Seðlabanki Íslands birti í morgun.
Eignir kerfisins fóru yfir fimm þúsund milljarða króna í janúar 2020. Innlendu eignir sjóðanna drógust saman um tæpa 30 milljarða króna í febrúarmánuði en erlendu eignirnar um tæplega 58 milljarða króna þrátt fyrir að krónan hafi veikst skarpt það sem af er ári.
Vert er að benda á að á annan tug milljarða króna er greitt inn í lífeyrissjóðakerfið í formi iðgjalda í hverjum mánuði. Því er tapið milli mánaða, að þeim meðtöldum, yfir 100 milljarðar króna.
Þetta er í fyrsta sinn síðan í desember 2018 sem að eignir kerfisins dragast saman milli mánaða. Þá lækkuðu eignirnar um 100 milljarða króna en jukust svo aftur um 145 milljarða króna í næsta mánuði á eftir. Þar var því um mjög tímabundna niðursveiflu að ræða. Því er ekki að skipta nú.
Eina skiptið fyrir utan það sem eignirnar hafa lækkað meira í krónum talið en þær gerðu í febrúar 2020 var í október 2008, þegar íslenska bankakerfið hrundi. Þá töpuðu lífeyrissjóðirnir 209 milljörðum króna á einum mánuði.
Það verður þó að taka inn í dæmið að heildareignir þeirra fyrir hrunið voru 1.868 milljarðar króna og því var hlutfallslega áfallið þá mun meira en það er nú. Í febrúar 2020 lækkuðu eignir íslensku lífeyrissjóðanna um 1,7 prósent en í hrunmánuðinum 2008 lækkuðu þær um rúmlega ellefu prósent.
Í nóvember 2008 hækkuðu eignirnar svo aftur um 73 milljarða króna og hluti af tapinu náðist því til baka, aðallega með gengisfalli.
Stóra höggið eftir
Ljóst er að stærsti hluti þess höggs sem lífeyrissjóðirnir munu þurfa að taka á eignasafn sitt vegna áhrifa af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum eiga eftir að koma fram, enda hófst hið eiginlega hrun á mörkuðum 20. febrúar og raungerðust að mestu í mars. Í þeim mánuði lækkaði til að mynda úrvalsvísitala íslensku kauphallarinnar, sem er saman sett úr gengi þeirra tíu félaga á íslenskum hlutabréfamarkaði sem eru með mestan seljanleika, um 9,6 prósent. Íslenskir lífeyrissjóðir eiga, beint eða óbeint í gegnum fjárfestingarsjóði, í sameiningu nálægt helmingi allra skráðra hlutabréfa á Íslandi.
Hlutabréfamarkaðar út um allan heim hafa líka hríðfallið síðastliðinn mánuð og ljóst að áhrifin á erlenda eignasafnið hjá lífeyrissjóðunum verður líka verulegt, þótt að hröð lækkun á gengi íslensku krónunnar mildi það högg nokkuð. Bandaríska DOW-vísitatalan hefur til að mynda átt sinn versta ársfjórðung frá upphafi, en félögin sem mynda hana féllu um 23,2 prósent í verði á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þá átti S&P 500-vísitalan sinn versta ársfjórðung sínar í lok árs 2008. Marsmánuður stóð þar upp úr.
FTSE-vísitalan breska átti sinn versta ársfjórðung frá árinu 1987 og þann næst versta frá upphafi.
Beðnir um að fara ekki út með peninga
Lífeyrissjóðirnir hafa stóraukið fjárfestingar sínar utan Íslands frá því að fjármagnshöftum, sem sett voru síðla árs 2008, var lyft að mestu vorið 2017.
Óformlegt samkomulag er í gildi um að lífeyrissjóðirnir haldi að sér höndum í gjaldeyriskaupum næstu þrjá mánuði hið minnsta. Það var gert eftir að formaður stjórnar Landsamtaka lífeyrissjóða, Guðrún Hafsteinsdóttir, fundaði með Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra 17. mars síðastliðinni.
Í tilkynningu sem send var út í kjölfar þess að þetta óformlega samkomulag, sem er ekki bindandi heldur sett fram í formi hvatningar, stóð að að mikill viðskiptaafgangur síðustu ára hafi gefið lífeyrissjóðum landsins svigrúm til þess að fjárfesta erlendis og ná fram áhættudreifingu í eignasafni sínu. „Í ljósi þess að útflutningstekjur landsins munu fyrirsjáanlega dragast saman tímabundið telja Landssamtök lífeyrissjóða það eðlilegt að lífeyrissjóðir standi ekki að gjaldeyriskaupum á næstu mánuðum. Sjóðirnir eru í eigu almennings og því mikilvægt að þeir sýni ríka samfélagslega ábyrgð þegar kemur til fjárfestinga og viðbragða í okkar samfélagi á óvissutímum.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði