Enn sem komið er þá hefur Seðlabanki Íslands einungis hvatt viðskiptabankanna til að „sýna þá samfélagslegu ábyrgð á þessum sérstöku tímum að nýta ekki það svigrúm sem aflétting sveiflujöfnunaraukans skapar til þess að greiða út arð.“
Telji Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands þó, byggt á gögnum eða upplýsingum sem það styðst við, að líkur séu á að banki uppfylli ekki ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, svo sem um eiginfjár- eða lausafjárhlutfall, getur það gripið til valdheimilda samkvæmt lögum. „Á meðal þeirra valdheimilda er bann við arð- og vaxtagreiðslum til hluthafa og fjárfesta og takmörkun á kaupaukum við hlutfall af hreinum hagnaði.“
Þá þarf fjármálafyrirtæki, eins og banki, alltaf að fá fyrir fram samþykki Fjármálaeftirlitsins Seðlabankans fyrir endurkaupum á eigin hlutum og lækkun hlutafjár og hefur Fjármálaeftirlitið talsvert svigrúm við mat á veitingu slíks samþykkis.
Þetta kemur fram í svörum Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Kjarnans um þær aðgerðir sem bankinn getur gripið í til að hindra að viðskiptabankar nýti nýfengið svigrúm, sem er tilkomið vegna þess að ýmsar hömlur á eiginfé hafa verið losaðar, til að greiða hluthöfum sínum arð.
350 milljarða svigrúm
Á skömmum tíma hefur bindiskylda verið lækkun niður í núll og sveiflujöfnunarauki sem lagðist á eigið fé bankanna afnumin. Aflétting kröfu um sveiflujöfnunarauka á að auðvelda bankakerfinu að styðja við heimili og fyrirtæki með því að skapa svigrúm til nýrra útlána sem nemur að öðru óbreyttu allt að 350 milljörðum króna, eða um 12,5 prósent af núverandi útlánasafni.
Það er þó ekkert sem segir til um að það svigrúm sem skapist verði ekki nýtt til annarra verka, eins og að greiðast út til hluthafa.
Í yfirlýsingu frá fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands, sem tók ákvörðun um að auka svigrúmið með því að afnema sveiflujöfnunaraukann, sem birt var 18. mars brýndi nefndin fyrir fjármálafyrirtækjum að þau taki tillit til þeirrar miklu óvissu sem uppi er í þjóðarbúskapnum við ákvörðun um útgreiðslu arðs og endurkaup á eigin hlutabréfum á komandi misserum. „Nefndin ætlast til þess að það svigrúm sem lækkun sveiflujöfnunaraukans skapar verði notað til að styðja við heimili og fyrirtæki. Fylgst verður vel með viðbrögðum bankakerfisins, stöðu heimila og fyrirtækja, og þeim fjármálalegu skilyrðum sem þeim eru búin á næstu misserum. Nefndin er reiðubúin að beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi.“
Í fundargerð peningastefnunefndar, af fundi sem fór fram daginn áður eða 17. mars, kemur fram að nefndarmenn hennar hefðu verið „sammála um að afar mikilvægt væri að fjármálafyrirtækin nýttu ekki svigrúmið sem við þetta skapaðist til arðgreiðslna.”
Áform um arðgreiðslur enn í gildi
Sama dag og peningastefnunefnd fundaði, þann 17. mars síðastliðinn, fór aðalfundur Arion banka fram. Arion er eini stóru viðskiptabankanna þriggja sem er í einkaeigu. Á aðalfundinum var samþykkt að fresta tíu milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa um tvo mánuði, eða fram í miðjan maí. Auk þess var heimild stjórnar til að kaupa allt að tíu prósent af hlutafé bankans endurnýjuð. Miðað við markaðsvirði Arion banka í dag myndi það þýða að tæplega tíu milljarða króna greiðslu til eigenda bankans.
Þremur dögum síðar, 20. mars, var sent bréf til Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhald ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum, fyrir hönd Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þar var farið fram á að hún myndi horfa fram hjá kröfum um ávöxtun og arðgreiðslur á árinu 2020 og að þeim skilaboðum yrði komið áfram til stjórna fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins.
Bjarni var að segja ríkisbönkunum tveimur að í ljósi þeirra aðstæðna sem komnar eru upp vegna COVID-19 heimsfaraldursins þá ættu þeir ekki að greiða út arð.
Arion banki hefur enn sem komið er ekki endurskoðað sín áform um að greiða út arð í maí. Í tilkynningu sem bankinn sendi til Kauphallar Íslands 27. mars síðastliðinn, vegna aðgerða sem hann hefur gripið til vegna COVID-19, kemur þvert á móti fram að eiginfjár- og lausafjárstaða bankans sé mjög sterk án þess að tillit sé tekið til „fyrirsjáanlegrar arðgreiðslu að fjárhæð 10 milljarða króna“. Þar sagði enn fremur að auk ákvörðunar um að fresta arðgreiðslu í tvo mánuði myndi bankinn „ekki fara í frekari kaup á eigin bréfum fyrr en óvissa vegna heimsfaraldursins hefur minnkað.“
Höfðað til samfélagslegrar ábyrgðar
Í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Kjarnans er bent á að aðalfundur Arion banka hafi verið haldinn áður en að Seðlabankinn birti sínar yfirlýsingar og hvatti til þess að arðgreiðslur yrðu ekki greiddar. Hann var haldinn einum degi áður en þær yfirlýsingar voru birtar. „Aðstæður hafa verið að breytast og skýrast. Seðlabankinn treystir því að tillaga um arðgreiðslu verði afgreidd í samræmi við þær óskir sem bankinn hefur sett fram. Hér á landi sem annars staðar í Evrópu hefur verið höfðað til samfélagslegrar ábyrgðar fjármálafyrirtækja,“ segir í svari Seðlabankans.
Að því sögðu taldi Seðlabankinn þó einnig vert að benda á að ef Fjármálaeftirlit hans teldi, byggt á gögnum eða upplýsingum sem það styðst við, að líkur væru á að fjármálafyrirtæki uppfyllti ekki ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, svo sem um eiginfjár- eða lausafjárhlutfall, geti það gripið til valdheimilda samkvæmt lögum. „Á meðal þeirra valdheimilda er bann við arð- og vaxtagreiðslum til hluthafa og fjárfesta og takmörkun á kaupaukum við hlutfall af hreinum hagnaði. Þá þarf fjármálafyrirtæki ávallt fyrirframsamþykki Fjármálaeftirlitsins Seðlabankans fyrir endurkaupum á eigin hlutum og lækkun hlutafjár og hefur Fjármálaeftirlitið talsvert svigrúm við mat á veitingu slíks samþykkis.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði