Á einum mánuði hefur líklegt innkaupaverð olíufélaga á bensínlítra lækkað um meira en 60 prósent. Sú lækkun, sem er tilkomin vegna hruns á olíuverði á heimsmarkaði, hefur ekki skilað sér til íslenskra neytenda, enda bensínverð nánast það sama nú og það var um miðjan mars. Hlutur íslensku olíufélaganna í hverjum seldum lítra er hins vegar 78 prósent hærri en hún var í mars.
Innkaupaverð á olíu er lægra en það hefur nokkru sinni verið og hlutur íslensku olíufélaga í hverjum seldum lítra hérlendis hefur aldrei verið hærri en hann er nú um stundir. Um miðjan síðasta mánuð kostaði einn lítri af bensíni á Íslandi 209,8 krónur og af honum fóru 18,52 prósent til olíufélaganna. Nú, eftir að heimsmarkaðsverð á olíu hefur hrunið um tugi prósenta á nokkrum vikum, hefur viðmiðunarverð á bensíni hérlendis nánast staðið í stað. Það er 208,9 krónur sem er einungis 0,4 prósent lægra verð en var um miðjan mars. Hlutur olíufélaganna í hverjum seldum lítra er hins vegar nú 32,96 prósent, eða 78 prósent hærri en hann var um miðjan mars.
Þetta má sjá í nýjustu Bensínvakt Kjarnans sem unnin er í samvinnu við Bensínverð.is og var birt í dag.
Bensínvakt Kjarnans reiknar út líklegt innkaupsverð á bensíni út frá verði á lítra til afhendingar í New York í upphafi hvers mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi Bandaríkjadals gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands.
Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu eða skammtímasveiflna á markaði. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
Hrun á heimsmarkaði
Samkvæmt nýjustu útreikningum hefur líklegt innkaupaverð á hvern lítra af bensíni lækkað um tæplega 61 prósent milli mars og apríl. Það er nú 19,92 krónur á lítra en var 50,65 krónur á lítra í marsmánuði.
Ástæðan fyrir þessum miklu lækkum eru tvíþættar. Sú fyrri er miklu minni eftirspurn, meðal annars vegna þess að flugferðir hafa að mestu verið aflagðar. Raunar er um að ræða mesta samdrátt í eftirspurn á olíu sem átt hefur sér stað, nokkru sinni.
Hin ástæðan er ákvörðun Sádí-Arabíu, stærsta olíuframleiðanda í heimi, marsmánaðar að stórauka framleiðslu sína í stað þess að draga úr henni til að reyna að ná verðum aftur upp. Þetta gerður Sádar til að meðal annars vegna þess að ekki náðist samkomulag við Rússa um að þeir myndu takmarka olíuframleiðslu sína.
Samkomulag náðist milli helstu olíuframleiðsluríkja heims um að draga úr framleiðslu um síðustu helgi en það virðist ekki hafa dugað til að hífa heimsmarkaðsverðið upp á ný, enda framleiðslan enn langt umfram eftirspurn.
Á móti hefur íslenska krónan veikst um 3,11 prósent gagnvart Bandaríkjadal síðastliðinn mánuð og alls um 17,65 prósent á árinu. Það gengi hefur umtalsverð áhrif á þróun eldsneytisverðs hérlendis þar sem að innkaup á eldsneyti fara fram í dölum.
Þrátt fyrir þessa miklu lækkun á heimsmarkaði þá hefur bensínverð hérlendis svo gott sem staðið í stað milli mánaða. Viðmiðunarverð á bensíni samkvæmt Bensínvakt Kjarnans fer úr 209,8 krónum á lítra í 208,9 krónur á lítra. Hlutdeild olíufélaganna í hverjum seldum lítra fer úr því að vera 18,52 prósent í mars í að vera 32,96 prósent í apríl. Hún hefur aldrei verið hærra en lægst fór hún í tæplega ellefu prósent í júní 2009.
Viðmiðunarverðið er fengið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Seið ehf. sem meðal annars heldur úti síðunni Bensínverð.is og fylgst hefur með bensínverði á flestum bensínstöðum landsins daglega síðan 2007. Miðað er við næstlægstu verðtölu í yfirlitinu til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó með lægstu verðum og sýnir þar með lægri hlut olíufélagsins en reikna má með að raunin sé meðaltalið af öllu seldu bensíni á landinu.
Hlutur olíufélags er reiknaður sem afgangsstærð þegar búið er að draga frá hlutdeild ríkisins í hverjum seldum bensínlítra og líklegt innkaupverð á honum frá reiknuðu viðmiðunarverði, enda haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna ekki opinberar.
Hlutur ríkisins í hverjum lítra 57,5 prósent
Íslenska ríkið tekur til sín stóran hluta af hverjum seldum lítra af bensíni. Þannig fór 21,11 prósent af verði hans um miðjan apríl í sérstakt bensíngjald, 13,09 prósent í almennt bensíngjald og 3,93 prósent í kolefnisgjald. Þá er ótalið að 19,35 prósent söluverðs er virðisaukaskattur.
Samanlagt fór því 120,12 krónur af hverjum seldum lítra til ríkisins, eða 57,5 prósent. Hæstur fór hlutur ríkisins í 60,26 prósent í júlí 2017.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði