Allt að 330 milljarða tekjur munu ekki skila sér í þjóðarbúið 2020
Ferðamönnum sem heimsækja Íslands mun fækka um allt að 69 prósent í ár. Mikil óvissa er um það hvenær viðspyrna getur hafist en ganga má út frá því að starfsemi í ferðaþjónustu verði skert í allt að ár í viðbót hið minnsta. Þúsundir fyrirtækja eru tæknilega gjaldþrota og tugir þúsunda atvinnulausir.
Í dag hafa 150 lönd í heiminum sett einhverskonar skorður á ferðalög og 50 lönd hafa algjörlega lokað landamærum sínum fyrir ferðamönnum. Algjör óvissa er um hvenær þessum hömlum verður lyft og í hvers konar skrefum. Ástæðan er útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Eins og stendur eru tekjur fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu þó nær að öllu leyti horfnar og flestar sviðsmyndir sem teiknaðar eru upp um þessar mundir reikna með að ferðaþjónustan muni búa við skerta starfsemi í allt að níu til tólf mánuði til viðbótar. Hið minnsta.
Áhrifin á Íslandi, sem hefur vaxið gríðarlega hratt sem ferðaþjónustuland, verða óumflýjanlega ofsaleg. Beint framlag ferðaþjónustunnar til landsframleiðslu árið 2018 var 8,6 prósent og í fyrra orsökuðu tekur af erlendum ferðamönnum 35 prósent af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.
Í skýrslu sem KPMG hefur unnið með Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála eru birtar spár um hvaða áhrif hrunið í ferðaþjónustu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar muni hafa á tekjuöflun greinarinnar. Þar er reiknað með að komur ferðamanna til Íslands muni dragast saman um 43 til 69 prósent á árinu 2020. Bjartsýnasta spáin gerir ráð fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna sem komi hingað til lands verði rétt rúmlega helmingur þess sem kom í fyrra, þegar þeir voru um tvær milljónir. Svartsýnasta spáin gerir ráð fyrir að erlendu ferðamennirnir verði einungis 600 þúsund.
Afleiðingin af þessu er kolsvört: reiknað er með að gjaldeyristekjur dragist saman um 275 til 330 milljarða króna.
Til að setja þá tölu í samhengi þá skilaði sjávarútvegur íslenska þjóðarbúinu 260 milljörðum króna í gjaldeyristekjur í fyrra og álframleiðsla, sem rekin er fyrir íslenska orku, 212 milljörðum króna. Gangi spá KPMG eftir er höggið því sambærilegt og að allar tekjur í sjávarútvegi og þriðjungur af tekjum vegna álframleiðslu, myndu hverfa.
Gangi svartsýnasta spáin eftir heildar vöru- og þjónustuútflutningur íslenska þjóðarbúsins dragast saman um 25 prósent bara vegna samdráttar í tekjum ferðaþjónustunnar.
Atvinnuleysi á leiðinni upp í 17 prósent
Ferðaþjónustan er mannaflafrek. Í janúar störfuðu 23.300 manns í greininni. Veirufaraldurinn og efnahagslegar hliðarverkanir hans hafa skilað því að atvinnuleysi hérlendis er í hæstu hæðum. Samtals voru um 38.600 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í lok mars, þar af um 24.400 í minnkuðu starfshlutfalli og á hlutabótum.
Um 43 prósent af þeim umsóknum sem Vinnumálastofnun hefur borist um hlutabætur eru frá frá geirum sem tengjast flugrekstri og ferðaþjónustu.
Spár Vinnumálastofnunar gera ráð fyrir að hlutfall atvinnulausra muni fara upp í 17 prósent í aprílmánuði og að fjöldi þeirra sem munu vera á hlutabótum á meðan að það úrræði stendur til bóta, sem er út næsta mánuð, verði nálægt 35 þúsund. Þeir launþegar muni koma frá allt að 6.500 fyrirtækjum.
Verst er ástandið á Suðurnesjum þar sem stór hluti starfa tengist flugi til og frá landinu og ferðaþjónustu. Um 70 prósent íbúa Suðurnesja sem eru í minnkuðu starfshlutfalli starfa í þeim geirum. Í lok mars var atvinnuleysi á svæðinu 14,1 prósent og gert er ráð fyrir að það aukist í 23 til 24 prósent í apríl.
Vilja afskriftir og rekstrarstuðning
Ofan á tekjubrestinn er staða ferðaþjónustunnar sú að geirinn er afar skuldsettur. Áætlaðar skuldir greina ferðaþjónustu án flugs voru samtals 248 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2020, samkvæmt skýrslu KPMG.
Þar segir að samkvæmt tölum Seðlabankans hafi skuldsetning greinarinnar við viðskiptabankana þrjá – Landsbankann, Íslandsbanka og Arion banka – aukist um 84 prósent frá ársbyrjun 2016 á sama tíma og tekjur hefðu vaxið um þrjú prósent. „Veiking krónunnar eykur svo skuldavandann á meðan engar tekjur berast þar sem þriðjungur lána er í erlendri mynt.“
Í skýrslu KPMG er bent á að í árslok 2019 hafi ferðaþjónusta staðið undir um það bil 16 prósent af íslenskum vinnuafli. Meðaltal ferðaþjónustustarfa í ríkjum OECD er 6,9 prósent. Tjónið á Íslandi verði því mun meira en í öðrum hagkerfum sem landið ber sig jafnan saman við.
Þetta skilar því að rekstur fjölmargra ferðaþjónustufyrirtækja er á leiðinni í gjörgæslu.
Í skýrslu KPMG er fjallað um þær mótvægisaðgerðir sem ferðaþjónustugeirinn telur að nauðsynlegt sé að grípa til. Þar segir að lykilatriði sé að tryggja rekstrarsamfellu en veik staða og há skuldsetning geri flestum ferðaþjónustufyrirtækjum erfitt að starfa við núverandi aðstæður. Það þurfi því að tryggja þessum félögum aðgang að fjármagni án tafa. „Mikil skuldsetning félaganna felur í sér að ríkið mun þurfa, með einum eða öðrum hætti, að bera stórt hlutfall af föstum rekstrarkostnaði þeirra félaga sem hafa forsendur til að starfa í greininni til lengri tíma litið.“
Í ofanálag muni íslensk ferðaþjónusta ekki geta reitt sig á innlenda ferðamenn í sama mæli og aðra þjóðir til að milda höggið. „Þjónusta við innlenda ferðamenn vegur þungt í ferðaþjónustu margra nágrannaríkja en á Íslandi er vægi innlenda markaðarins lítið. Aukning á innlenda markaðinum mun vega lítið samanborið við samdrátt í þjónustu við erlenda ferðamenn.“
Félög innan greinarinnar séu mörg hver ekki lengur sjálfbær miðað við óbreyttan rekstur og viðbótarskuldsetningu. „Því er ólíklegt að eðlileg viðbótarfyrirgreiðsla og/eða endurfjármögnun á haustmánuðum standi þeim til boða vegna skorts á veðrými og slæmrar eiginfjárstöðu. Þrátt fyrir möguleg „Brúarlán“ eru félögin ekki gjaldfær til lengri tíma litið, þau eru tæknilega gjaldþrota og lánastofnunum einfaldlega óheimilt að lána þegar ekki er sýnt fram á að félag geti greitt lán til baka.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði