Gildistöku hluta nýrra laga um hvað teljist þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki hefur verið frestað frá byrjun þessa árs til byrjun þess næsta, eða 2021. Sömu lög eiga að tryggja að aðgangur að ársreikningum og samstæðureikningum allra félaga sem skila ársreikningi sínum til ársreikningaskrár verði aðgengilegir almenningi og fjölmiðlum að kostnaðarlausu á opinberu vefsvæði. Gildistöku afnáms þeirrar gjaldtöku verður líka frestað fram til byrjun næsta árs.
Þetta kemur fram í frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, hefur útbýtt á Alþingi.
Drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í lok febrúar síðastliðins. Þar kom fram að frumvarpið hefði verið samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samvinnu við forsætisráðuneytisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti. Því koma ráðuneytin sem stýrt er af formönnum allra þriggja stjórnarflokkanna að gerð frumvarpsins.
Í greinargerð frumvarpsins segir að flestar athugasemdir sem bárust í samráðsferlinu hafi lotið að því að gildistökuákvæði greinarinnar veitti fyrirtækjum of knappan aðlögunartíma. Því var ákveðið að fresta gildistökunni um eitt ár.
Auk þess var lagt til að fresta breytingunni um afnám gjaldtöku fyrir aðgang að ársreikningum á opinberu vefsvæði til byrjun næsta árs til að skapa svigrúm „til að gera þær tæknilegu breytingar sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að birta ársreikninga félaga á opinberu vefsvæði en auk þess þarf að gera ráð fyrir þeim kostnaðaráhrifum sem ríkissjóður verður fyrir vegna breytinganna í fjárlögum og fjármálaáætlun.“
Tilgangurinn að auka gagnsæi
Tilgangur frumvarpsins er að láta stærri sjávarútvegsfyrirtæki, stóriðju- og orkufyrirtæki, flugfélög, fjarskiptafélög og skipafélög sem stunda millilandaflutninga verða skilgreind sem „einingar tengdar almannahagsmunum“ jafnvel þótt þau séu ekki skráð á hlutabréfamarkað. Gera má ráð fyrir að rúmlega 30 fyrirtæki bætist við skilgreininguna „eining tengd almannahagsmunum“ verði frumvarpið óbreytt að lögum en um helmingur þeirra eru sjávarútvegsfyrirtæki.
Breytingarnar munu ná yfir öll fyrirtæki í áðurnefndum atvinnuflokkum sem teljast sem stór félög eða stórar samstæður í skilningi ársreikningalaga. Til að teljast til slíkra þarf fyrirtæki að fara yfir mörk á að minnsta kosti tveimur af þremur viðmiðum sett eru fram í lögunum. Þau eru fyrir samstæðu að niðurstöðutala efnahagsreiknings sé að minnsta kosti þrír milljarðar króna, að hrein velta sé að minnsta kosti sex milljarðar króna eða að meðalfjöldi ársverka sé að minnsta kosti 250. Fyrir stór félög þarf að uppfylla tvennt af eftirfarandi þrennu: að eiga heildareignir yfir þremur milljörðum króna, að vera með hreina veltu sem er yfir sex milljörðum króna eða að vera með meðalfjölda ársverka yfir 250.
Mun ná til 30 fyrirtækja
Verði frumvarpið að lögum mun það ná til 30 fyrirtækja sem eru ekki skilgreind kerfislega mikilvæg í lögum í dag. Flest þeirra eru ekki skráð á hlutabréfamarkað og lúta því ekki þeim auknu skilyrðum um upplýsingagjöf sem fylgir því. Þó eru sum það, til dæmis Brim, Síminn og Eimskip.
Um helmingur þeirra sem bætast við eru stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins (meðal annars Samherji). Á meðal annarra fyrirtækja sem falla munu þar undir eru allra stærstu fyrirtækin sem stunda stóriðju og stórtæk raforkukaup hérlendis (til dæmis Río Tinto á Íslandi í Straumsvík, Alcoa Fjarðaláls og Norðuráls), óskráð fjarskiptafyrirtæki á borð við Nova og óskráð skipafélög á borð við Samskip.
Gjaldfrjáls aðgangur að ársreikningum
Til viðbótar við ofangreint er einnig lögð til sú grundvallarbreyting að ársreikningar og samstæðureikningar allra félaga sem skila ársreikningi sínum til ársreikningaskrár verði aðgengilegir almenningi og fjölmiðlum að kostnaðarlausu á opinberu vefsvæði. Í frumvarpsdrögunum segir að með breytingunni sé meðal annars ætlunin að auka aðgengi almennings að upplýsingum sem félögum sé skylt að útlista í ársreikningi. „Eðlilegt þykir að almenningur hafi greiðan aðgang að slíkum upplýsingum frá félögum. Greiðari aðgangur að ársreikningum er til þess fallinn að auka aðhald með rekstri félaga, stuðla að upplýstri umræðu og efla þannig traust almennings.“
Þeir sem hagnist af núverandi fyrirkomulagi virðast fyrst og síðast vera þriðju aðilar sem selja aðgang að upplýsingum um fyrirtæki sem milliliðir. „Fjárhagslegir hagsmunir þeirra fyrirtækja, sem eru örfá, geta vart trompað lýðræðislegt mikilvægi þess að fjölmiðlar og almenningur allur hafi frjálst, frítt og takmarkalaust aðgengi að opinberum upplýsingum um fyrirtækin sem starfa hérlendis.“