Fyrrverandi útvarpsstjóri samdi um starfslok í fyrra og lét af störfum 15. nóvember. Hann fékk greidd laun út janúar 2020 auk þess sem sem hann fékk greitt orlofsuppgjör. Staðgengill hans kostaði 2,7 milljónir króna í laun í 2019.
Kostnaður vegna heildarlauna og þóknana til útvarpsstjóra RÚV jókst um 9,9 milljónir króna milli 2018 og 2019. Í ársreikningi RÚV, sem birtur var í síðustu viku, stendur: „Heildarlaun og þóknanir útvarpsstjóra námu 35,8 milljónum króna á reikningsárinu (2018: 25,9 milljónir króna), en á árinu 2019 lét útvarpsstjóri af störfum og staðgengill hans tók við. Laun útvarpsstjóra hækka á milli ára vegna uppgjörs við starfslok og launa staðgengils.“
Kjarninn óskaði eftir sundurliðun á þessum kostnaði. Í svari framkvæmdastjóra fjármála, tækni og mannauðs hjá RÚV við fyrirspurninni kemur fram að útvarpsstjóri fékk samtals 33.056.293 krónur í laun vegna síðasta árs. „Útvarpsstjóri fékk greidd laun út janúar 2020 auk þess fékk hann greidd uppgjör vegna orlofs fyrir tvo mánuði frá fyrri árum. Öll laun voru gjaldfærð á árinu 2019, þó svo að hluti hafi komið til greiðslu á árinu 2020. Rétt er að geta þess að hluti launatengdra gjalda (mótframlag í lífeyrissjóð) er hér meðtalið.“
Staðgengill útvarpsstjóra fékk 2.718.100 krónur í laun í fyrra.
Lét af störfum 15. nóvember
Greint var frá því 1. nóvember síðastliðinn að Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefði ákveðið að skipa Magnús Geir Þórðarson í starf þjóðleikhússtjóra. Skipanin gildir í fimm ár, frá og með 1. janúar 2020.
Hann lét af störfum 15. nóvember í fyrra eftir að samkomulag náðist um hvernig starfslokum hans yrði háttað og Margrét Magnúsdóttir, skrifstofustjóri RÚV, var starfandi útvarpsstjóri frá þeim tíma þangað til að Stefán Eiríksson var skipaður í starfið eftir umsóknarferli. Stefán tók við 1. mars síðastliðinn.
Fyrrverandi útvarpsstjóri fékk því laun greidd í tvo og hálfan mánuð eftir að hann lét af störfum eftir að hafa ráðið sig í nýtt starf.
Samkeppnisreksturinn kostaði 248 milljónir
RÚV hagnaðist um 6,6 milljónir króna á árinu 2019. Tekjur fyrirtækisins voru 6,9 milljarðar króna. Þar af komu 4,7 milljarðar króna úr ríkissjóði í formi þjónustutekjna af útvarpsgjaldi, en 2,2 milljarðar króna voru tekjur úr samkeppnisrekstri. Kostnaður við rekstur samkeppnishluta, sem er að uppistöðu auglýsingasöludeild, var 248 milljónir króna í fyrra og stóð í stað milli ára.
Tekjur RÚV af auglýsingum og kostun voru samtals 1.837 milljónir króna í fyrra og lækkuðu um 199 milljónir milli ára, eða um tíu prósent. Aðrar tekjur af samkeppnisrekstri, sem felur meðal annars í sér útleigu á myndveri RÚV, jukust hins vegar í fyrra úr 315 milljónum króna í 366 milljónir króna, eða um 51 milljón króna. Það er aukning upp á 16 prósent milli ára.
Hefði verið ógjaldfært án lóðasölu
Afkoma RÚV á árunum 2013 til 2018 var jákvæð um 1,5 milljarða króna, en sú afkoma skýrðist fyrst og fremst af hagnaði vegna sölu byggingaréttar á lóð félagsins við Efstaleiti. Ef litið er á afkomu félagsins fyrir tekjuskatt og söluhagnað hefði heildarafkoma félagsins á þessu tímabili var hún neikvæð um 61 milljón króna. Án lóðasölunnar hefði RÚV ohf. orðið ógjaldfært.
Þetta er kom fram í stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á RÚV sem birt var nóvember í fyrra.
Auk þess samdi RÚV í maí 2018 við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) um að breyta skilmálum á skuldabréfi í eigu sjóðsins sem er tilkomið vegna ógreiddra lífeyrisskuldbindinga. Í samkomulaginu fólst að verulega var lengt í greiðsluferli bréfsins, en lokagjalddagi þess er nú 1. október 2057 í stað 1. apríl 2025. Samhliða er höfuðstóll hækkaður og vextir lækkaðir úr fimm prósentum í 3,5 prósent. Þetta gerir það að verkum að greiðsla skuldarinnar teygir sig til framtíðarkynslóða en fjármagnsgjöld sem RÚV greiðir árlega munu lækka umtalsvert. Þau voru 282,4 milljónir króna í fyrra.