Tíu stærstu útgerðir landsins halda samtals á tæplega 53 prósent af úthlutuðum kvóta. Það er mjög svipuð staða og var uppi í september í fyrra. Innan þessa hóps eru aðilar sem eru tengdir þótt þeir séu það ekki samkvæmt lögum um fiskveiðar. Brim, Samherji og Kaupfélag Skagfirðinga eru fyrirferðamestu útgerðirnar. Þær halda á, einar og sér og ásamt félögum sem eigendur þeirra eiga í, á tæplega 43 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.
Þetta kemur fram í nýjum tölum um kvótastöðu 100 stærstu útgerða landsins þann 31. mars síðastliðinn.
Fiskistofa birtir tölurnar en hún hefur eftirlit með því að yfirráð einstakra aðila yfir aflahlutdeildum fari ekki umfram þau mörk sem lög um stjórn fiskveiða kveða á um. Þau lög segja að hámarksaflahlutdeil sem einstakir eða tengdir aðilar halda á megi ekki fara yfir tólf prósent af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda. Samkvæmt gildandi lögum fer enginn yfir þau mörk, en mikil pólitísk umræða hefur verið um að breyta því hvað teljist tengdir aðilar í sjávarútvegi undanfarin misseri.
Eiga að fá sex ár til að koma sér undir þakið
Í febrúar kynnti Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, drög að frumvarpi um breyttar skilgreiningar á því hvað teljist tengdir aðilar.
Í þeim drögum kom fram að þeir sem lagabreytingin hefur áhrif á munu hafa fram á fiskveiðiárið 2025/2026 til að koma sér undir lögbundið kvótaþak, eða sex ár.
Frumvarpsdrögin byggði á vinnu verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Hún var skipuð í mars 2019, í kjölfar þess að Ríkisendurskoðun skilaði svartri stjórnsýsluúttekt á Fiskistofu í janúar 2019.
Í tillögunum var hvorki tekin afstaða til reglna um hámarksaflahlutsdeild né kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum. Þau mál eru enn til skoðunar hjá nefndinni og eiga að vera til umfjöllunar í lokaskýrslu hennar. Þeirri skýrslu átti að skila í síðasta mánuði, eða í mars 2020.
Brim, Samherji og FISK eru risarnir í íslenskum sjávarútvegi
Litlar breytingar eru á umfangi kvóta þeirra stóru útgerðarhópa sem tengjast innbyrðis án þess þó að verða tengdir aðilar samkvæmt lögum. Þannig er Brim sú útgerð sem heldur á mestum kvóta, eða 10,13 prósent. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 44,65 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,51 prósent af öllum aflaheimildum. Útgerðarfélag Reykjavíkur er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra og stjórnarmanns í Brimi.
Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 1,55 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi þrjú félög eru því með 15,19 prósent af úthlutuðum kvóta.
Samherji er með næst mesta aflahlutdeild, eða 7,02 prósent. Fyrirtækið er í eigu forstjórans Þorsteins Más Baldvinssonar, útgerðarstjórans Kristjáns Vilhelmssonar og Helgu S. Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkona Þorsteins Más. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag heldur á 0,64 prósent hans.
Kaupfélag Skagfirðinga á FISK Seafood, sem heldur á 5,5 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með 4,5 prósent heildaraflahlutdeild. Þá á Vinnslustöðin 48 prósent hlut í útgerðarfélaginu Huginn í Vestmannaeyjum, sem heldur á 0,76 prósent af útgefnum kvóta.
FISK á til viðbótar allt hlutafé í Soffanías Cecilsson, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja rétt yfir ellefu prósent, og er því undir 12 prósent markinu þótt þeir yrðu skilgreindir með öðrum hætti.
Samanlagt eru þessir þrír hópar með yfirráð yfir tæplega 43 prósent af öllum úthlutuðum kvóta á Íslandi.