Icelandair Group ætlar að auka hlutafé sitt um 30 þúsund milljón hluti. Útgefið hlutafé í dag er 5.437.660.653 hlutir. Núverandi eign hluthafa verður því 15,3 prósent af útgefnu hlutafé ef það tekst að selja alla ætluðu hlutafjáraukninguna.
Fyrirhugað hlutafjárútboð, sem verður almennt og fer fram í júnímánuði, á að safna rúmlega 29 milljörðum króna, eða 200 milljónum Bandaríkjadala, í aukið hlutafé. Miðað við það má ætla að til standi að selja hvern hlut í hlutafjárútboðinu á rúmlega eina krónu á hlut. Gengi Icelandair við lok viðskipta í dag í Kauphöllinni var 2,37 krónur á hlut.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair Group sendi til Kauphallar Íslands í kvöld.
Í tilkynningunni segir að stjórn Icelandair muni einnig óska eftir því að núverandi hluthafar gefi eftir forgangsrétt á nýútgefnum bréfum í félaginu. „Útboðið verður þannig opið almenningi sem og fagfjárfestum. Stjórn mun taka ákvörðun um úthlutun hluta en leitast verður við að skerða ekki úthlutun til núverandi hluthafa og starfsmanna.“
Á ríkisstjórnarfundi í dag var samþykkt tillaga fjögurra ráðherra, þar á meðal formanna allra stjórnarflokkanna, um að ríkið væri tilbúið að eiga samtal um mögulega veitingu lánalínu eða ábyrgð á lánum til Icelandair Group.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að aðkoma stjórnvalda sé háð því að fullnægjandi árangur náist í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins í samræmi við þær áætlanir sem kynntar hafa verið, þar með talið að afla nýs hlutafjár.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í Kastljósi í kvöld að ábyrgðir ríkisins gætu hið minnsta numið yfir tíu milljörðum króna.
Lífeyrissjóðir verða í stóru hlutverki
Stærsti einstaki hluthafi Icelandair Group, bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management, hefur undanfarið minnkað hlut sinn í félaginu úr 13,7 prósent í 13,2 prósent. Fyrst með því að selja 0,2 prósent hlut og svo aftur með því að selja 0,3 prósent hlut á allra síðustu dögum.
Næst stærsti eigandinn í Icelandair, á eftir Par Capital Management, er Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 11,8 prósent hlut og þar á eftir koma lífeyrissjóðirnir Gildi (7,24 prósent) og Birta (7,1 prósent). Alls eiga íslenskir lífeyrissjóðir að minnsta kosti 43,6 prósent í Icelandair Group með beinum hætti, en mögulega eiga þeir einnig meira með óbeinum hætti í gegnum nokkra fjárfestingarsjóði sem eiga einnig stóran hlut í félaginu.
Núverandi eign hluthafa mun fara niður í 15,3 prósent við vænta hlutafjáraukningu, takist að selja hana alla.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans munu íslensku lífeyrissjóðirnir sem eru á meðal stærstu eigenda félagsins leika lykilhlutverk í endurfjármögnun Icelandair Group. Því er viðbúið að þeir haldi sterkri stöðu í eigendahópnum.
Vilja að kröfuhafar breyti skuldum í hlutafé
Í tilkynningunni sem send var út í kvöld kemur líka fram að samhliða hlutafjárútboðinu muni Icelandair Group kanna möguleika á því að breyta skuldum í hlutafé. Á meðal þeirra sem Icelandair skuldar umtalsvert fé er ríkisbankinn Landsbankinn. Léleg rekstrarniðurstaða Icelandair á árinu 2018 gerði það að verkum að skilmálar skuldabréfa sem félagið hafði gefið út voru brotnir. Mánuðum saman stóðu yfir viðræður við skuldabréfaeigendurna um að endursemja um flokkanna vegna þessa. Þær viðræður skiluðu ekki árangri og 11. mars 2019 var greint frá því að Icelandair hefði fengið lánað 80 milljónir dala, þá um tíu milljarða króna, hjá innlendri lánastofnun gegn veði í tíu Boeing 757 flugvélum félagsins, sem eru komnar nokkuð til ára sinna. Lánsfjárhæðin var nýtt sem hlutagreiðsla inn á útgefin skuldabréf félagsins.
Því var verið að flytja hluta af fjármögnun Icelandair frá skuldabréfaeigendum og yfir á banka í eigu íslenska ríkisins vegna þess að ekki tókst að semja við þá. Hinn ríkisbankinn, Íslandsbanki, hefur líka lánað Icelandair fé, en bein ríkisábyrgð er á starfsemi beggja bankanna í gegnum eign á hlutafé.