Íslenska ríkið er hætt við að hefja söluferli á Íslandsbanka. Frá þessu er greint á vef RÚV og þar vitnað í svör fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að sala á bönkum sé ekki raunhæf í augnablikinu.
Ríkið á tvo banka, Íslandsbanka og Landsbankann. Fjallað var um eignarhald ríkisins á bönkum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og því fyrirliggjandi að þeir þrír ólíku flokkar sem mynda ríkisstjórnina hafa rætt málið þegar hún var mynduð. Þar segir að eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum sé „það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því.“
Lítið gerðist hins vegar í þeim málum framan af kjörtímabili annað en að farvegurinn var undirbúinn með gerð Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem fjallaði ítarlega um það hvernig skyldi standa að sölu á hlutafé í bönkunum. Hún var birt í lok árs 2018.
Í kjölfarið tjáði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, sig ítrekað um það opinberlega að hann vildi byrja að selja, að minnsta kosti hluta, af Íslandsbanka áður en kjörtímabilinu lýkur.
Allir formennirnir sammála
Bjarni opnaði svo á það í viðtali við Morgunblaðið í byrjun febrúar síðastliðnum að það ætti að fara að hefja söluferli á fjórðungshlut í Íslandsbanka. Hann bætti um betur í aukablaði Sjálfstæðisflokksins, sem bar nafnið „Á réttri leið“ og var dreift í aldreifingu með Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar. Þar sagði Bjarni að sala á 25 til 50 prósent hlut í Íslandsbanka á næstu árum myndi opna á stór tækifæri til fjárfestinga. „Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um gjaldtöku til að fjármagna samgöngubætur og það er skiljanlegt, vegna þess að við þurfum að hraða framkvæmdum, en nærtækari leið er að losa um þessa verðmætu eign og afmarka gjaldtöku í framtíðinni við stærri framkvæmdir á borð við Sundabraut, Hvalfjarðargöng og aðra gangagerð. Núna er góður tími til að huga að átaki í þessum efnum, efnahagslífið er tilbúið fyrir opinberar framkvæmdir.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var svo síðastur á vagninn af formönnum ríkisstjórnarflokkanna þegar hann sagðist í samtali við helgarblað Fréttablaðsins snemma í febrúar að hann teldi skynsamlegt að setja Íslandsbanka í söluferli. Hann setti söluna í sama samhengi og hinir formennirnir, að það væri hægt að nota fjármunina sem bundnir væru í eigninni í innviðauppbyggingu.
Breytt eigendastefna til að undirbúa sölu
Í nýrri eigendastefnu íslenska ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki, sem birt var 28. febrúar, var búið að gera umtalsverðar breytingar á þeim markmiðum sem ríkið hefur varðandi eignarhald á Landsbankanum. Í eldri eigendastefnunni, sem var frá árinu 2017, sagði að stefnt yrði að því að ríkið ætti verulegan eignarhlut, 34 til 40 prósent, í bankanum til langframa. Að öðru leyti yrðu eignarhlutir ríkisins seldir „á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi“ samhliða því að hann yrði skráður á hlutabréfamarkað.
Í nýju eigendastefnunni var búið að taka út það stærðarmark sem æskilegt sé að ríkið eigi í Landsbankanum. Þess í stað segir að ríkið eigi að eiga „verulegan hlut“ í bankanum til langframa.
Búið var að taka út áform um að selja eignarhlutinn strax og hagfelld og æskileg skilyrði séu fyrir hendi og áform um að skrá hann á hlutabréfamarkað. Þess í stað er búið að bæta því inn í eigendastefnuna að ákvörðun um sölu Landsbankans verði ekki tekin fyrr en að söluferli Íslandsbanka sé lokið.
Í nýju stefnunni sagði að markmiðið með eignarhaldinu sé að „stjórnvöld hafi ráðandi ítök í a.m.k. einni fjármálastofnun sem þjónustar almenning og fyrirtæki og hefur höfuðstöðvar hér á landi. Þannig tryggja stjórnvöld að almenn, vönduð og traust fjármálaþjónusta standi öllum til boða óháð m.a. búsetu. Markmiðið með eignarhaldinu er ennfremur að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu, ásamt því að tryggja nauðsynlega og áreiðanlega innviði þess.“
Engin breyting var hins vegar gerð á markmiðum ríkisins hvað varðar eignarhald á hinum bankanum sem það á, Íslandsbanka. Enn var stefnt að því að selja bankann „þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi.“
Þrátt fyrir að einungis rúmir tveir mánuðir séu liðnir frá því að þessi söluáform voru að færast upp um gír þá hafa aðstæður gjörbreyst vegna COVID-19 og nær engar líkur eru á því að hagstætt verð eða viðeigandi kaupendur finnist að íslenskum banka sem stendur.
Umtalsvert tap á fyrstu þremur mánuðum ársins
Íslandsbanki tapaði 1,4 milljarði króna á fyrsta ársfjórðungi 2020. Á sama tíma í fyrra hagnaðist bankinn um 2,6 milljarða króna og því er um fjögurra milljarða króna viðsnúning að ræða milli ára.
Þetta kom fram í ársfjórðungsuppgjöri bankans sem birt var í dag.
Þar sagði að virðisbreytingar útlána til viðskiptavina bankans hafi verið neikvæðar um tæplega 3,5 milljarða króna og útskýrir það tapið að mestu. Hún var 907 milljónir króna á sama tíma í fyrra og hækkaði því um 2,6 milljarða króna milli ára. Arðsemi eigin fjár hjá bankanum var neikvæð um þrjú prósent.
Virðisrýrnunin á útlánum bankans tengist að uppistöðu lánum sem hann hefur veitt til ferðaþjónustufyrirtækja.