PETA

PETA kaupir hlutabréf í sláturhúsum og kjötvinnslum

Hvað eiga fyrirtækin Tyson Foods, Smithfield Foods og Maple Leaf Foods sameiginlegt fyrir utan að vera kjötframleiðendur og hafa glímt við hópsmit COVID-19 meðal starfsmanna? Svarið er að nýr fjárfestir hefur eignast hlut í þeim öllum: Dýraverndunarsamtök.

Ef þú hefur borðað hamborgara eða kjúklinganagga í Bandaríkjunum eru meiri líkur en minni að dýrinu hafi verið slátrað hjá Tyson Foods, öðrum stærsta kjötframleiðanda heims. Ef ekki þá er líklegt að kjötið komi frá Smithfield Foods. Bæði þessi fyrirtæki og miklu fleiri í sama bransa hafa síðustu mánuði hafið framleiðslu á vegan-fæðu. Í mörgum þeirra hafa komið upp hópsmit af nýju kórónuveirunni og starfsemin því í uppnámi. 

Þó að faraldur COVID-19 hafi verið áfall fyrir heimsbyggðina telja dýraverndunarsamtökin PETA að læra verði af reynslunni: Flestir smitsjúkdómar í mönnum að undanförnu megi rekja til dýra. Og því sé tímabært að hætta stórkostlegri fjöldaframleiðslu á kjöti með tilheyrandi uppeldi á milljónum dýra og slátrun þeirra og hefja í stað sjálfbæra framleiðslu á matvöru úr jurtaríkinu.

Auglýsing

Talið er nær fullvíst að upptök kórónuveirufaraldursins megi rekja til blautmarkaðar (e. wet market) í Wuhan-borg í Kína. Á slíkum mörkuðum eru seld bæði lifandi og dauð dýr og hættan á því að veirur og bakteríur berist í fólk því mikil. Nú hafa þingmenn í tveimur ríkjum Bandaríkjanna, New York og Kaliforníu, kynnt áform um lagabreytingar sem banna markaði með lifandi dýr. 

Það kann að koma fólki á óvart en í New York-borg einni saman eru yfir áttatíu markaðir með lifandi dýr þar sem kjúklingum, öndum, kalkúnum, kanínum, geitum og fleiri dýrum er slátrað á staðnum og kjötið selt viðskiptavinum. 

Í Kaliforníuríki vilja þingmenn ganga enn lengra og banna innflutning og sölu á villtum dýrum, þar með talda veiðiminjagripi úr ljónum, fílum og nashyrningum svo dæmi séu tekin.

Sjúkdómar sem berast frá dýrum í menn gera það vegna nálægðarinnar og í heimi þar sem sífellt meira er framleitt af kjöti og samneyti dýra og manna er mikið eykst hættan á slíkum smitum. Vandamálið er ekki bundið við Asíu og blautmarkaðina. Yfir sextíu bandarískir þingmenn tóku höndum saman í byrjun apríl og sendu Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni bréf þar sem hún var hvött til að banna markaði sem þessa í öllum heiminum. Í því bréfi var þó áherslan lögð á Kína – þó að markaði þar sem dýrum er slátrað á staðnum á meðan kúnninn bíður megi finna mun víðar.

Veikur kjúklingur á stóru búi í Bandaríkjunum.
PETA

Dýraverndunarsamtökin PETA hafa fagnað fyrirhuguðum lagabreytingum í bandarísku ríkjunum tveimur og segir forseti þeirra, Ingrid Newkirk, að mannfólk þarfnist markaða með lifandi dýr eins og „sundmaður þarfnast krókódíls. Svo lengi sem við höldum þeim opnum setjum við líf okkar í hættu“.

 Og PETA hefur ekki látið við það eitt sitja að hvetja aðra til góðra verka heldur hafa samtökin hafið kaup á hlutabréfum í stærstu kjötframleiðendum Bandaríkjanna, m.a. Tyson Foods. Markmið samtakanna er að geta tekið þátt í ákvörðunum fyrirtækjanna þegar kemur að framtíðarsýn þeirra og hvetja stjórnendur til að framleiða og selja aðeins matvöru úr jurtaríkinu.

Nokkrir stórir kjötframleiðendur í Bandaríkjunum hafa þegar tekið skref í þessa átt. Tyson Foods er einmitt eitt þeirra. Þar er hafin framleiðsla á kjötlausum nöggum. Hugmyndin er þó – enn sem komið er – að bjóða neytendum vörur bæði með kjöti og án þess.

Við vörum viðkvæma við myndbandinu hér að neðan en þar sjást starfsmenn sláturhúss slíta hausa af kjúklingum.

 En tengjast risavöxnu sláturhúsin í Bandaríkjunum eitthvað faraldri COVID-19? Heldur betur.

Hópsmit varð til dæmis í verksmiðjum Smithfield Foods, einum stærsta kjötframleiðanda Bandaríkjanna. Um þúsund starfsmenn smituðust. Starfsmennirnir vinna í mikilli nálægð hver við annan og auðvitað dýrin sem þeir slátra. Og stór hluti þeirra er innflytjendur. Fólk sem hefur fyrir mörgum að sjá og er oft eina fyrirvinnan í fjölskyldunni. Það var því ekki hlaupið að því að taka sér frí frá vinnu þó að óttinn við kórónuveiruna gerði vart við sig. Sömu sögu er að segja frá öðrum sláturhúsum og kjötvinnslum í landinu. Þúsundir starfsmanna slíkra fyrirtækja hafa greinst með COVID-19.

 PETA hefur síðustu daga vakið athygli á þessari hræðilegu stöðu með auglýsingum í fjölmiðlum og ítarlegum tilkynningum um stöðuna á heimasíðu sinni. Þar kemur fram að samtökin hafi keypt hluti í nokkrum stórum kanadískum og bandarískum kjötframleiðendum og eiga því héðan í frá fulltrúa á aðalfundum, geta átt í beinum samskiptum við aðra hluthafa og stjórnendur og þar með þrýst á að fyrirtækin skipti um stefnu og framleiði aðeins vegan-fæði. „Annar faraldur er óumflýjanlegur ef okkur mannfólkinu tekst ekki að læra af þessum,“ segja samtökin. „Svo við þrýstum á kjötframleiðendur að loka sláturhúsunum sínum og kveikja á vegan-framleiðslunni.“

Auglýsing

Samtökin hafa gert rannsóknir á aðbúnaði dýra í sláturhúsum m.a. hjá Tyson Foods. Við þá rannsókn kom í ljós að dæmi voru um að starfsmenn slitu hausa af kjúklingum við slátrun. Stjórnendur fyrirtækisins segja það engan veginn ásættanlegt og ekki samræmast vinnuferlum.

Fyrirtækið hefur þegar hafið framleiðslu á vegan-fæði og hvetur PETA stjórnendur til að leggja meiri áherslu á þá framleiðslu.

Smithfield Foods í Suður-Dakóta er í eigu WH Group sem er með höfuðstöðvar sínar í Hong Kong. Fyrirtækið hefur líkt og Tyson Foods hafið framleiðslu á vegan-fæði undir merkjum Pure Farmland. Hópsmitið varð til þess að draga þurfti verulega úr framleiðslunni. PETA telur þar með hafa skapast kjörið tækifæri til að skipta um kúrs og einbeita sér að vegan-vörum.

Framleiðandinn Hormel hefur verið undir smásjánni hjá PETA enda hafa starfsmenn orðið uppvísir að stórkostlegu dýraníði. Þannig hafa grísir verið barðir með járnstöngum, slegnir í höfuðið, potað hefur verið í augu þeirra og sparkað í kynfæri, samkvæmt rannsókn sem PETA gerði á svínabúi fyrirtækisins í Iowa. Hormel hefur sett á markað vegan-vörulínuna Happy Little Plants.

Svín á leið til slátrunar.
PETA

Sömu sögu er að segja frá kanadíska kjötframleiðandanum Maple Leaf Foods. Fyrirtækið hóf nýverið framleiðslu á vegan-vörum undir nafninu Lightlife. „Hvers vegna ættu þeir að halda áfram að slátra kúm, kjúklingum og svínum sem elska að hlusta á tónlist, leika sér með bolta og að fá nudd?“ bendir PETA á.

Samtökin benda svo einnig á að svínaflensuna megi líklega rekja til bandarísks svínabús og að margir aðrir infúensufaraldrar eigi rætur að rekja til kjúklingabúa. Vitna samtökin til Smitsjúkdómavarna Bandaríkjanna sem hafa varað við því að um 75 prósent af nýlegum smitsjúkdómum í mönnum eigi uppruna sinn í öðrum dýrategundum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar