Samdráttur í landsframleiðslu á Íslandi gæti orðið allt að 18 prósent í ár samkvæmt sviðsmyndagreiningu sem Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins hafa unnið. Þar er um að ræða svartsýnustu sviðsmyndina sem teiknuð er upp, og miðar við að hagkerfið verði fyrir „mjög þungu höggi“. Umreiknað í milljarða króna myndi það þýða að landsframleiðsla myndi dragast saman um 530 milljarða króna á þessu ári. Ef þessi versta sviðsmynd yrði að veruleika myndi atvinnuleysi á árinu 2020 verða 13 prósent.
Í grunnsviðsmynd þeirra, sem gerir ráð fyrir „miklu höggi“, er gert ráð fyrir að samdrátturinn verði 13 prósent, að atvinnuleysi verði tíu prósent að jafnaði á árinu og að hallinn á ríkissjóði verði 330 milljarðar króna á árinu 2020.
Í bjartsýnustu sviðsmyndinni, sem gerir einungis ráð fyrir „talsverðu höggi“, er gengið út frá því að landsframleiðsla dragist saman um átta prósent í ár og að atvinnuleysið verði að meðaltali sjö prósent. Miðað við þá sviðsmynd myndi íslenska hagkerfið fá 222 milljörðum krónum minna fyrir vörur og þjónustu sem það framleiðir í ár en það fékk í fyrra.
Mun dekkri en opinberu sviðsmyndirnar
Miðað við tveggja prósenta árlegan hagvöxt í kjölfar kreppunnar mun það taka fjögur til tíu ára að vinna upp framleiðslutapið sem Ísland verður fyrir. Ef hagvöxturinn í framhaldinu yrði fimm prósent tæki það Ísland tvö til fjögur ár að komast á sama stað og við vorum árið 2019.
Sviðsmyndir Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins eru mun dekkri en þær greiningar sem Seðlabanki Íslands, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa birt um stöðu hagkerfisins. Síðasta birta greining Seðlabankans, sem birt var í apríl, gerði í versta falli ráð fyrir um sex prósent samdrætti á árinu.
Fátt bendir til ferðavilja
Í inngangi greiningar Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins segir að myndin af efnahagslegum áhrifum COVID-19 faraldursins séu smátt og smátt að skýrast. „Sú mynd er dökk og hefur almennt versnað eftir því sem hagtölur innanlands og erlendis birtast. Fullkomin óvissa ríkir einnig um hvenær erlendir ferðamenn snúa aftur til landsins.“
Þar segir enn fremur að óvissan um framhaldið sé mikil um þessar mundir og að dekkstu sviðsmyndir séu mögulegar. Framundan sé einn versti samdráttur í íslenskri hagsögu.
Það er meðal annars grundvallað á því að fá ríki séu útsettari fyrir áfalli í ferðaþjónustu eins og Ísland. „Stjórnvöld hafa hins vegar lítið svigrúm til viðbótar, við blasir einn mesti hallarekstur ríkissjóðs í a.m.k. 40 ár. Seðlabankinn hefur hins vegar enn svigrúm til að þoka stýrivöxtum áfram niður líkt og önnur vestræn ríki hafa gert.“
Grunnsviðsmyndin gerir ráð fyrir að ferðaþjónustan nái sér ekki á strik það sem eftir lifir árs en sú svartsýnni að það muni taka enn lengri tíma og að engir ferðamenn komi til Íslands það sem eftir lifir ársins 2020. Í greiningunni kemur fram að tíðindi gærdagsins um tilslakanir á komum ferðamanna til landsins, sem í felast að þeir geti farið í sýnatöku til að sleppa við sóttkví, breyti ekki stóru myndinni.
Í greiningunni er meðal annars vísað í kannanir sem gerðar hafa verið á ferðavilja almennings. Í könnun sem bandaríska fréttastofa CBS News lét gera kom fram að 85 prósent aðspurðra myndu ekki telja sig vera örugga um að fara í flugvél ef útgönguhömlum yrði aflétt. Í könnun sem UN World Tourism Organization gerði á heimsvísu reiknuðu 34 prósent aðspurðra að eftirspurn erlendra ferðamanna myndi taka við sér í október til desember 2020. Í sömu könnun sögðu 39 prósent svarenda að það myndi taka fram á árið 2021.
Telja ár eftir hið minnsta
Þessi staða rímar við það sem kom fram í könnun sem Maskína gerði fyrir Samtök atvinnulífsins meðal forsvarsmanna aðildarfyrirtækja samtakanna, og birt var í gær. Á meðal niðurstaðna þar voru að meirihluti fyrirtækja í landinu telja að kreppan vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 muni standa í allt eitt ár hið minnsta. Alls segjast 30 prósent forsvarsmanna aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins að þeir telji að hún muni standa lengur en það en 25 prósent þeirra telja að hún muni standa í allt að eitt ár.
Á meðal annarra niðurstaðna sem könnunin leiddi fram eru að 70 prósent fyrirtækjanna sem hún náði til hafa urðu fyrir tekjumissi í aprílmánuði. Þrjú af hverjum fjórum fyrirtækjum hafa gripið til einhverra aðgerða til að bregðast við þessari stöðu. Í þeim hefur til að mynda falist að lækka starfshlutfall eða stytta opnunartíma.
Fjórðungur þeirra hefur þegar sagt upp starfsfólki vegna ástandsins og í ferðaþjónustugeiranum, sem hefur farið verst út úr stöðunni, hefur tæplega helmingur fyrirtækja gripið til uppsagna.
Rúmlega 40 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum sem svöruðu könnuninni. Uppsagnir náðu til rúmlega þrjú prósent starfsmanna þeirra. Það svarar til um 5.600 uppsagna í viðskiptahagkerfinu í heild.
Miðað við svörin sem fengust er fyrirliggjandi að önnur eins bylgja af uppsögnum sé framundan. Rúmlega 20 prósent fyrirtækja áforma frekari uppsagnir og SA áætlar að þær muni ná til um 5.500 manns. Langflestar uppsagnirnar verða hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu.