Aðsend

Samkomubannið afhjúpaði aðstöðumun nemenda

Þrátt fyrir að hafa grunað í hvað stefndi var það „pínu skellur“ þegar samkomubannið var sett á segir Haukur Eiríksson, kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri. Hann komst að því að félagslegar aðstæður og aðstaða nemenda til náms eru mjög misjafnar heima fyrir. Einnig að nám sem fram fari í kennslustofu snúist um margt annað en námsefnið sjálft. „Krakkar í dag eru frábærir, þeir eru miklu opnari en við vorum. Þó að þeir viti kannski ekki hvað skafrenningur er þá vita þeir svo margt annað. Ég er frekar bjartsýnn fyrir þeirra hönd.“

Ég er inni á heimilinu mínu, á skrifstofu sem ég er með þar,“ segir Haukur Eiríksson, kennari við rafdeild Verkmenntaskólans á Akureyri. Haukur, líkt og allir framhaldsskólakennarar landsins, hefur frá því að samkomubann hófst um miðjan mars þurft að kenna nemendum sínum í fjarnámi. Þeir höfðu ákveðið forskot því að Haukur brennur fyrir því að nýta upplýsingatækni meira í skólakerfinu og hafði tileinkað sér ýmsar rafrænar kennsluaðferðir.

Að auki hafði hann flýtt verklegum þáttum námsins þegar hann grunaði í hvað stefndi. En fjarnámið byrjaði þó fyrr en hann hafði getað ímyndað sér og því var það „pínu skellur“ þegar samkomubannið var sett á og allir framhaldsskólanemendur og kennarar þurftu að færa sig úr skólabyggingunum og koma sér upp aðstöðu heima. 

„Hausinn fór strax á fullt,“ rifjar Haukur upp. Hann eins og svo margir aðrir kennarar hafi fyrstu vikurnar unnið fram á nótt við skipulag fjarnámsins. Nemendur tóku langflestir hinu breytta fyrirkomulagi vel en í ljós kom að aðstaða þeirra til fjarnáms er misjöfn sem og félagslegur stuðningur. Sumir hafi átt erfitt. „Það verður að athuga að þessir nemendur skráðu sig í staðnám en ekki fjarnám,“ bendir hann á.

Til að halda sem best utan um hópinn margítrekaði Haukur við nemendur sína að hann væri alltaf til taks og segir þá hafa verið duglega að bera sig eftir hjálpinni við úrlausn verkefna. „Það var einmitt það sem ég vildi.“

Auglýsing

Þó að hlutunum hafi verið snúið á hvolf á einu augabragði og kennarar þurft að bregðast hratt við hafi flest gengið ágætlega. „Það eru allir að hugsa, velta hlutum fyrir sér og pæla,“ segir Haukur um kennarastéttina. „Það hefur í raun margt gott gerst í skólastarfinu og því er þetta jákvætt að ýmsu leyti þó að þetta hafi vissulega neikvæðar afleiðingar líka.“

Haukur er frá Akureyri en fór suður til náms og bjó þar í sautján ár. Hann flutti aftur norður fyrir um fimmtán árum og hefur nú kennt við VMA í fimm ár. Hann er lærður rafeindavirki og tæknifræðingur og bætti svo við sig meistaragráðu í kennslufræði fyrir nokkrum árum. Áður en hann snéri sér að kennslu var hann í upplýsingatæknigeiranum. „Fyrir fimm árum fannst mér ég þurfa að þróast betur, sem manneskja hreinlega. Þá ákvað ég að breyta til og fór að kenna.“

Kennslan gefur Hauki mikið og hann hefur ánægju af því að umgangast nemendur sem eru allt frá því að hafa nýlokið grunnskóla í það að vera ráðsett fjölskyldufólk á fertugsaldri.

Kennslan færð heim. Hér gefur að líta þá aðstöðu sem Haukur hefur komið upp heima hjá sér til að sinna kennslunni nú á vorönn.
Aðsend

„Skólaárið byrjaði nokkuð vel,“ segir hann. „Ég var frekar bjartsýnn og hafði engar sérstakar áhyggjur.“ Í upphafi vorannar voru heldur engar vísbendingar um annað en að kennslan myndi hafa sinn vanagang. En fljótlega fóru að berast fregnir utan úr heimi af veirufaraldrinum og í byrjun mars voru kennarar í VMA farnir að velta fyrir sér mögulegu raski á skólastarfinu. „Ég var búinn að ímynda mér að eftir páska myndi þetta breytast. Og ég veit að það voru fleiri kennarar farnir að undirbúa sig fyrir það.“

En tíminn sem var til stefnu í kennslustofunum varð skemmri.

Föstudaginn 13. mars var tilkynnt að samkomubann yrði sett á eftir helgina og að framhaldsskólum og háskólum yrði lokað. Kennarar við VMA höfðu skipulagsdag á mánudeginum „en á þriðjudeginum byrjaði allt í fjarkennslu,“ segir Haukur.

Sjálfur hefur hann notað upplýsingatækni mikið í sinni kennslu. Nemendur í rafdeildinni fá allt frá fyrstu önn þjálfun í að skila verkefnum rafrænt. Þeir læra til dæmis að setja myndir inn í skjöl, búa til myndbönd og vefsíður. „Þetta er eitt af því sem ég tek eftir núna að kemur sér afskaplega vel.“

Ekki hægt að sitja tímunum saman við tölvuna

Haukur ákvað að nemendur myndu ekki mæta eftir stundatöflu. „Ég sá fyrir mér að það gæti orðið of mikið. Sumir nemendur eru með fjörutíu tíma stundatöflu á viku. Þú situr ekkert fyrir framan tölvu í fjörutíu tíma á viku og fylgist með einhverjum kenna. Það er bara útilokað. Ég setti þetta því þannig upp að nemendur gætu unnið verkefnin þegar þeim hentaði.“

Hann bendir einnig á að sumir nemendur séu í vinnu og með fjölskyldu. „Þannig að mörgum hentar að kíkja á þetta á kvöldin þegar það er komið logn á heimilinu.“

Auglýsing

Í nokkur ár hefur hann notað gagnvirkt kennslukerfi sem kallast Nearpod. Í því getur hann blandað saman ýmsum kennsluaðferðum. Nemendur skrá sig inn í kerfið, hlusta á fyrirlestra og vinna verkefni á tölvurnar sínar þeim samhliða. Hægt er að keyra kennslustundina í beinni og þannig getur Haukur séð hvernig nemendum miðar í sínum verkefnum. „Ég get séð hverjir eru óvirkir og þá hnippt í menn.“

En í samkomubanninu hefur Haukur haft þann háttinn á að undirbúa kennslustundina fyrirfram og senda nemendum slóð á hana þar sem þeir geta, þegar þeir hafa tíma, hlustað á fyrirlestur, séð glærur með dæmum og útskýringum og svo framvegis. Hann getur fylgst með hvort nemendur komi inn og hvað þeir hafa gert í þeim verkefnum sem sett eru fyrir. „Þetta hefur virkað mjög vel.“

 Undirbúningurinn fyrir hverja kennslustund er þó meiri en áður. Sumt efni á hann til en annað þurfti hann að vinna frá grunni. Hann tekur upp mörg myndbönd fyrir kennsluna og síðustu vikur hefur hann útbúið um fjörutíu myndbönd fyrir nemendur sína. Stundum hefur hann þurft að byrja upp á nýtt svo hann giskar á að hann hafi tekið upp yfir sextíu myndbönd.

Spurning um úthald

Í kennslu Hauks í skólanum er skólataflan mikilvægt verkfæri. Hann keypti sér því lítið teikniborð sem hann tengir við tölvuna og getur þannig „hermt“ eftir skólatöflunni, teiknað á borðið og tekið það upp.

Og þar sem Haukur fór þá leið að kenna ekki eftir stundatöflu stofnaði hann „kennslustofur“ í forritinu Google Meet þar sem hver nemendahópur getur átt í samskiptum sín á milli og spurt hann ef á þarf að halda. „Kennslustofurnar“ eru opnar allan sólarhringinn og stundum hefur Haukur farið þangað inn seint á kvöldin til að aðstoða nemendur við úrlausn verkefna.

Flestir nemendur eru að sögn Hauks almennt iðnir og áhugasamir, bæði í skólastofunni og fjarnáminu. En við námið nú þarf ákveðinn sjálfsaga „og svo er þetta allt spurning um úthald“.

Meirihluti þeirra tók fjarnáminu vel en aðrir viðurkenna að þeim hafi aldrei gengið vel að læra heima hjá sér. Haukur segist fyrirfram hafa óttast að þeir nemendur sem stóðu höllum fæti við upphaf samkomubanns myndu heltast úr lestinni. „En þetta virðist ekki henta þeim neitt sérstaklega illa. Ég held að þessi sveigjanleiki sem fjarkennsluformið býður upp á geti haft þar sitt að segja.“

Svona birtist Haukur nemendum sínum við kennsluna á netinu.
Aðsend

Hvað Hauk sjálfan varðar segir hann að skilin milli heimilis og vinnu hafi vissulega dofnað við fjarkennsluna. Þannig geti teygst úr vinnudeginum fram á kvöld. „En það er svo sem ekkert mikið öðruvísi en var áður,“ segir hann. „Ég hef alltaf unnið töluvert á kvöldin. Ég hef þurft að gera það til að hafa allt á hreinu. En jú, þetta er meira. Svo er ég sjálfur með unglinga á heimilinu. Einn af þeim er í framhaldsskóla og það fylgir því ákveðin vinna fyrir alla eins og gengur og gerist. Á tímabili vorum við öll fjölskyldan heima að vinna.“

Þegar hann stóð í þeim sporum og átti svo samskipti við sína nemendur sem voru að reyna að læra við sömu aðstæður rann upp fyrir honum hversu gríðarlegu miklu máli aðstaða til náms og félagsleg staða nemenda skiptir. Og að hún er langt frá því að vera sú sama hjá öllum. „Félagsleg staða nemenda hefur alveg hrikalega mikið að segja um það hvernig þeim gengur í náminu. Erfiðast eiga þeir sem hafa ekki aðstöðuna heima við.“

Af vistinni og heim

Margir nemendur við VMA eru alla jafna á heimavist. Þar gera þeir sitt heimanám eða heima hjá vinum sínum. En svo var heimavistinni lokað og þá þurftu allir að fara heim til sín að læra. „Eru til tvær, þrjár eða fjórar vinnustöðvar á hverju heimili? Það er nú ekki voðalega algengt. Þarna kemur í ljós aðstöðumunur nemenda. Það eru dæmi um það að nemendur hafi einfaldlega ekki haft neina aðstöðu eða þurft að flytja út af heimilinu vegna sóttkvíar eða öðru.“

 Hann bendir á að framhaldsskólakerfið jafni nokkuð aðstöðu allra. Í skólabyggingum eða á heimavistum sé að finna aðstöðu sem allir geta nýtt sér jafnt. Heima fyrir sé ekki endilega það sama uppi á teningnum. „Þú getur ekkert verið lengi í einhverjum sófa að læra. Þú þarft að hafa skrifborð, stól og næði.“

Allir nemendur og kennarar framhaldsskóla landisns þurftu að færa sig heim þegar samkomubannið var sett á um miðjan mars.
EPA

Þeim sem best hefur vegnað við þessar óvenjulegu aðstæður eru þeir sem hafa bestu aðstöðuna heima fyrir, hafa stuðning frá fjölskyldu sinni og líka frá samnemendum sínum. „Það hefur komið alveg klárlega í ljós að það að standa sterkt félagslega skiptir líka máli í fjarnámi.“

Haukur hefur síðustu vikur átt mörg símtöl við nemendur sína sem og að ræða við þá á netinu. Hann segir að flestir þeirra beri sig vel. En á því eru þó undantekningar. Stundum hefur Hauki gengið illa að ná í nemendur og halda þeim við efnið. „Þá fæ ég stundum þær skýringar að fjarnámið henti þeim illa.“

Hann sér þess þó ekki beinlínis merki að námsárangur sé almennt að breytast. Nemendur sem standa sig vel í kennslustofunni standa sig yfirleitt líka vel í fjarnáminu. Hann veit ekki til þess að einhver úr nemendahópnum hafi hætt námi. „En eftir páska hefur mér ekki tekist að ná í nokkra nemendur svo ég veit ekki alveg hvernig þetta fer.“

Gerði einstaklingsmiðuð próf

Alltaf þarf þó að halda ákveðnum fjölda nemenda meira við efnið en öðrum. Það hefur ekki endilega breyst síðustu vikurnar. Hann hefur meiri áhyggjur af því að með því að færa námið út úr kennslustofunni vanti upp á ýmsa mikilvæga þætti. Í hans huga skipti það miklu máli að styðja nemendur í því að eiga góð samskipti sín á milli og ýta undir að þeir nálgist verkefni með jákvæðni. „Við kennarar þurfum að vera fyrirmyndir og það kemur ekki eins vel í gegn við þessar aðstæður. Við náum heldur ekki umræðu um málefni dagsins. Námsefnið er ekki allt. Nándin skiptir máli.“

Haukur hefur þegar haldið rafræn próf í flestum nemendahópunum sínum. Það er ekki nýtt fyrir honum en núna vildi hann vera með margar útgáfur af hverju prófi og það kostaði því töluvert meiri vinnu en venjulega. „Þetta vildi ég gera til að tryggja að ég fengi einstaklingsvinnuna fram,“ útskýrir hann. „Ég verð ekki var við annað en að nemendur séu að vinna þetta allt saman af heilindum.“

Auglýsing

Oft heyrist að „ungt fólk í dag“ sé svona eða hinsegin. „Krakkar í dag eru frábærir, þeir eru miklu betri en þegar ég var krakki,“ segir hann með áherslu. „Þau eru miklu opnari en við vorum. Þó að þau viti kannski ekki hvað skafrenningur er þá vita þau svo margt annað. Ég er frekar bjartsýnn fyrir þeirra hönd.“

Hann segist vona að ástandið núna eigi ekki eftir að hafa langtímaáhrif á þeirra líðan eða menntun. „Það er þó ekki hægt að fullyrða neitt um það. Það fer svolítið eftir því hvernig okkur öllum tekst að greiða úr þessu. Eins og staðan er núna þá ætti skólastarf að geta byrjað með eðlilegum hætti í haust og þá ætti þetta ekki að hafa stór áhrif. En ef það teygist meira úr þessu þá færi maður að hafa áhyggjur.“

Þó að Haukur ætli að tileinka sér áfram ýmsar kennsluaðferðir sem hann beitti í samkomubanni þá segist hann sakna þess að hitta nemendur sína ekki í kennslustofunni. „Það er eitt af því sem gefur manni mjög mikið þegar maður er að kenna, samskiptin við nemendurna.“

Þar til í haust ...

Sumir nemenda Hauks hafa þegar lokið prófum og skilað öllum verkefnum annarinnar. Aðrir eiga stutt í land. Búið er að opna skólabyggingarnar á ný en með ákveðnum takmörkunum. Sum fög í VMA eru þess eðlis að ekki er hægt að klára verklega hluta þeirra í fjarnámi og eru þeir nemendur því að mæta í skólann þessa dagana.

Skólaárinu hjá Hauki mun þó ljúka án þess að hann hitti sína nemendur. „Ég vona og trúi á að við munum hittast aftur á næstu önn. Það skiptir mjög miklu máli.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal