Þann 5. desember í fyrra birti danska Ríkisendurskoðunin harðorða skýrslu um margskonar óreiðu í bókhaldi Rekstrardeildar fasteigna danska hersins. Starfsmenn deildarinnar eru samtals tæplega tvö þúsund, þeir hafa á sinni könnu umsjón með fasteignum hersins, viðhaldi þeirra, og sjá jafnframt um útleigu húsa og íbúða sem herinn á. Húseignir hersins eru um það bil sex þúsund talsins, vítt og breitt í Danmörku. Ennfremur annast Rekstrardeildin umsjón og viðhald fjölmargra æfingasvæða og vega sem tilheyra hernum. Það er því í mörg horn að líta. Rekstrardeildin fékk á síðasta ári úthlutað tveimur milljörðum danskra króna (42 milljörðum íslenskum) til rekstrarins, þ.e launum starfsfólks ásamt viðhaldi og endurbótum á fasteignum hersins.
Vinna við áðurnefnda skýrslu hafði staðið yfir um nokkurt skeið og það var stjórnendum Rekstrardeildar hersins og yfirmönnum varnarmálaráðuneytisins vel kunnugt um. Ráðherrann vissi hinsvegar ekkert um að þessi skýrsla væri á leiðinni, og enn síður um innihaldið.
1. nóvember, mánuði áður en skýrslan birtist, fékk Hans Høyer, yfirmaður Rekstrardeildarinnar, ekki bara útborgað eins og venjulega. Auk hinna föstu launa höfðu verið lagðar inn á bankabók hans 696.276.- krónur (tæpar 15 milljónir íslenskar). Skýringin á millifærslunni var að ráðningarsamningur hans var að renna út og greiðslan því einskonar starfslokasamningur. En hann var reyndar ekki að hætta, samfara þessum starfslokum tók nefnilega gildi nýr samningur. Samkvæmt honum varð engin breyting, Hans Høyer hélt áfram sem yfirmaður, allt var óbreytt.
Ráðherrann lét segja sér þetta tvisvar
Trine Bramsen varnarmálaráðherra frétti fyrst af skýrslu Ríkisendurskoðunar og „starfslokagreiðslunni“ að kvöldi 4. desember í fyrra, kvöldið áður en skýrslan var birt. Og var ekki skemmt. „Fyrst hélt ég að þetta væri spaug“ sagði ráðherrann sem uppgötvaði fljótlega að svo var ekki. „Ég get ekki skilið að einhver, sem þar að auki er mjög vel launaður, þurfi að fá sérstaka aukagreiðslu. Tala nú ekki um þegar einungis er verið að endurnýja ráðningarsamning“ sagði ráðherrann. „Og datt engum í hug að setja spurningarmerki við endurráðningu Hans Høyer? Í hans stjórnartíð hefur hvert hneykslismálið rekið annað innan þessarar stofnunar, mér blöskrar“ sagði Trine Bramsen.
Hún sagði að samningar um þessa svonefndu bónusa væru tilkomnir löngu fyrir sína ráðherratíð og hún gæti engu um þá breytt.
Sendi yfirmanninn heim
Þótt Trine Bramsen varnarmálaráðherra gæti ekki dregið „starfslokagreiðsluna“ til baka sat hún ekki aðgerðarlaus. Skömmu eftir að upplýst varð um hinn endurnýjaða ráðningarsamning og margnefnda „starfslokagreiðslu“ var ákveðið að Hans Høyer færi í ótímabundið leyfi. Hvenær, og hvort, hann snýr til baka er óvíst.
Tveir háttsettir embættismenn í varnarmálaráðuneytinu hafa sömuleiðis verið sendir í leyfi.
Ekki eina málið
Mál Hans Høyer er síður en svo eina hneykslismálið sem varðar varnarmálaráðuneytið og stofnanir þess. Næstkomandi þriðjudag, 19. maí, fellur dómur í máli eins af yfirmönnum hersins, sá heitir Hans-Christian Mathiesen. Honum er gefið að sök að hafa gefið fyrirskipanir varðandi breytingar á inntökuskilyrðum í herinn. Breytingar sem gerðu þáverandi unnustu hans , og núverandi eiginkonu, kleift að sækja um inngöngu. Í kjölfarið fékk kærastan inngöngu í herinn. Síðar hafði Hans -Christian ennfremur hringt í einn af yfirmönnum sínum til að mæla með að kærastan fengi stöðuhækkun. Sem hún fékk reyndar ekki. Réttarhöldin sem nú standa yfir snúast einmitt um þetta atriði; hvort Hans-Christian Mathiesen hafi misnotað aðstöðu sína í þágu kærustunnar. Við réttarhöldin hefur einnig komið fram að kærastan hafði aðgang að tölvupósthólfi Hans-Christian Mathiesen en slíkt stríðir algjörlega gegn reglum hersins. Eftir að upp komst um málið, árið 2018, var Hans-Christian Mathiesen sendur í leyfi og síðar lækkaður í tign. Framtíð hans í hernum ræðst væntanlega næstkomandi þriðjudag, 19. maí þegar dómur fellur í máli hans.
Dagblaðið Politiken hefur fjallað ítarlega um málefni varnarmálaráðuneytisins og Rekstrardeildarinnar. Í umfjöllun blaðsins hefur komið fram að Thomas Arhenkiel ráðuneytisstjóri varnarmálaráðuneytisins er ekki í góðum málum. Hann dró, eins og áður var nefnt, í lengstu lög að tilkynna ráðherranum um skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem hlýtur að teljast óeðlilegt. Og ennfremur hefur komið fram að hann sat fund þar sem tekin var ákvörðun um sérstaka aukagreiðslu, og launahækkun til upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, en það vill svo til að sú kona er unnusta ráðuneytisstjórans. Þessi tengsl eru gagnrýnd í skýrslunni áðurnefndu en ráðuneytisstjórinn situr enn.
Mörg fleiri dæmi um frændhygli og óeðlileg afskipti yfirmanna hersins mætti tína til en verða ekki nefnd hér.
Lét Rekstrardeildina borga endurbætur og viðbyggingu
Fyrir fjórum árum komst upp að starfsmaður Rekstrardeildarinnar hafði látið byggja við einbýlishús sitt og jafnframt endurnýja innréttingar og gera við þak og veggklæðingar. Ekkert við þetta að athuga, nema það að húseigandinn, starfsmaður Rekstrardeildar fasteigna hersins, hafði búið svo um hnútana að Rekstrardeildin borgaði brúsann.
Sá brúsi kostaði 1.734.000 danskar krónur (37 milljónir íslenskar). Starfsmaðurinn (húseigandinn) sá um að skrifa uppá reikninga sem bárust til Rekstrardeildarinnar og því voru , ef svo mætti að orði komast, hæg heimatökin. Samkvæmt vinnureglum Rekstrardeildarinnar eiga tveir starfsmenn að skrifa uppá reikninga og sá sem hafði „aðstoðað“ fékk í staðinn tvö vönduð garðhlið, úr smíðajárni, og limgerðisplöntur. Þessir tveir starfsmenn Rekstrardeildarinnar hafa nýlega verið ákærðir vegna málsins en dómur er ekki fallinn.
Og svo er það þvottahúsið
Nýjasta málið sem varðar varnarmálaráðuneytið og komist hefur í fréttir í Danmörku er allt annars eðlis. Sýnir hinsvegar slælegt eftirlit. Árið 2015, eftir útboð, samdi innkaupadeild Varnarmálaráðuneytisins við fyrirtækið A-Vask, efnalaug og þvottahús um þvott, hreinsun og viðgerðir á einkennisbúningum og vinnufatnaði hersins. A-Vask var þá lítið fjölskyldufyrirtæki og eigendurnir himinlifandi yfir að hafa fengið samning við herinn.
Fyrirtækið þvoði, hreinsaði og pressaði búninga, og vinnufatnað, gerði við göt, skipti um rennilása og setti nýja hnappa á fötin þegar þess var þörf. Innan hersins var ánægja með þjónustuna. Árið 2019 urðu eigendaskipti á A-Vask. Nýju eigendurnir, Berendsen Textil uppgötvuðu að A-Vask hefði líklega „smurt“ á reikningana og tilkynntu það innkaupadeild hersins. Þegar málið var rannsakað kom í ljós að grunur Berendsen Textil hafði við rök að styðjast. A-Vask hafði „smurt“ myndarlega á reikningana, um það bil 13 milljónum danskra króna (276 milljónir íslenskar) á fjögurra ára tímabili, frá 2015 til 2019. Þetta mál er nýtilkomið og óljóst hvort gefin verður út ákæra á hendur fyrrverandi eigenda A-Vask.