Maðkur í dönsku varnarmálamysunni

Málefni danska hersins og varnarmálaráðuneytis Danmerkur hafa um árabil ratað reglulega í danska fjölmiðla. Það eru þó ekki afrek í hernaði sem þótt hafa fréttnæm heldur frændhygli og fjármálaóreiða.

Hans Høyer, yfirmaður Rekstrardeildarinnar.
Hans Høyer, yfirmaður Rekstrardeildarinnar.
Auglýsing

Þann 5. des­em­ber í fyrra birti danska Rík­is­end­ur­skoð­unin harð­orða skýrslu um margs­konar óreiðu í bók­haldi Rekstr­ar­deildar fast­eigna danska hers­ins. Starfs­menn deild­ar­innar eru sam­tals tæp­lega tvö þús­und, þeir hafa á sinni könnu umsjón með fast­eignum hers­ins, við­haldi þeirra, og sjá jafn­framt um útleigu húsa og íbúða sem her­inn á. Hús­eignir hers­ins eru um það bil sex þús­und tals­ins, vítt og breitt í Dan­mörku. Enn­fremur ann­ast Rekstr­ar­deildin umsjón og við­hald fjöl­margra æfinga­svæða og vega sem til­heyra hern­um. Það er því í mörg horn að líta. Rekstr­ar­deildin fékk á síð­asta ári úthlutað tveimur millj­örðum danskra króna (42 millj­örðum íslenskum) til rekstr­ar­ins, þ.e  launum starfs­fólks ásamt við­haldi og end­ur­bótum á fast­eignum hers­ins. 

Vinna við áður­nefnda skýrslu hafði staðið yfir um nokk­urt skeið og það var stjórn­endum Rekstr­ar­deildar hers­ins og yfir­mönnum varn­ar­mála­ráðu­neyt­is­ins vel kunn­ugt um. Ráð­herr­ann vissi hins­vegar ekk­ert um að þessi skýrsla væri á leið­inni, og enn síður um inni­hald­ið.

1. nóv­em­ber, mán­uði áður en skýrslan birtist, fékk Hans Høyer, yfir­maður Rekstr­ar­deild­ar­inn­ar, ekki bara útborgað eins og venju­lega. Auk hinna föstu launa höfðu verið lagðar inn á banka­bók hans 696.276.- krónur (tæpar 15 millj­ónir íslenskar). Skýr­ingin á milli­færsl­unni var að ráðn­ing­ar­samn­ingur hans var að renna út og greiðslan því eins­konar starfs­loka­samn­ing­ur. En hann var reyndar ekki að hætta, sam­fara þessum starfs­lokum tók nefni­lega gildi nýr samn­ing­ur. Sam­kvæmt honum varð engin breyt­ing, Hans Høyer hélt áfram sem yfir­mað­ur, allt var óbreytt.  

Auglýsing
Þetta var ekki eina auka­greiðslan sem Hans Høyer hafði fengið síðan hann varð yfir­maður Rekstra­deild­ar­inn­ar. Síðan deildin varð til árið 2014 (við skipu­lag­breyt­ing­ar) hafa fjórir yfir­menn, þar á meðal Hans Høyer sam­tals fengið sér­stakar auka­greiðsl­ur, 925 þús­und krónur (tæpar 20 millj­ónir íslenskar).

Ráð­herr­ann lét segja sér þetta tvisvar

Trine Bram­sen varn­ar­mála­ráð­herra frétti fyrst af skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar og „starfs­loka­greiðsl­unni“ að kvöldi 4. des­em­ber í fyrra, kvöldið áður en skýrslan var birt. Og var ekki skemmt. „Fyrst hélt ég að þetta væri spaug“ sagði ráð­herr­ann sem upp­götv­aði fljót­lega að svo var ekki. „Ég get ekki skilið að ein­hver, sem þar að auki er mjög vel laun­að­ur, þurfi að fá sér­staka auka­greiðslu. Tala nú ekki um þegar ein­ungis er verið að end­ur­nýja ráðn­ing­ar­samn­ing“ sagði ráð­herr­ann. „Og datt engum í hug að setja spurn­ing­ar­merki við end­ur­ráðn­ingu Hans Høyer? Í hans stjórn­ar­tíð hefur hvert hneyksl­is­málið rekið annað innan þess­arar stofn­un­ar, mér blöskr­ar“ sagði Trine Bram­sen. 

Hún sagði að samn­ingar um þessa svo­nefndu bónusa væru til­komnir löngu fyrir sína ráð­herra­tíð og hún gæti engu um þá breytt. 

Sendi yfir­mann­inn heim

Þótt Trine Bram­sen varn­ar­mála­ráð­herra  gæti ekki dregið „starfs­loka­greiðsl­una“ til baka sat hún ekki aðgerð­ar­laus. Skömmu eftir að upp­lýst varð um hinn end­ur­nýj­aða ráðn­ing­ar­samn­ing og marg­nefnda „starfs­loka­greiðslu“ var ákveðið að Hans Høyer færi í ótíma­bundið leyfi. Hvenær, og hvort, hann snýr til baka er óvíst. 

Tveir hátt­settir emb­ætt­is­menn í varn­ar­mála­ráðu­neyt­inu hafa sömu­leiðis verið sendir í leyfi.

Ekki eina málið

Mál Hans Høyer er síður en svo eina hneyksl­is­málið sem varðar varn­ar­mála­ráðu­neytið og stofn­anir þess. Næst­kom­andi þriðju­dag, 19. maí, fellur dómur í máli eins af yfir­mönnum hers­ins, sá heitir Hans-Christ­ian Mathiesen. Honum er gefið að sök að hafa gefið fyr­ir­skip­anir varð­andi breyt­ingar á inn­töku­skil­yrðum í her­inn. Breyt­ingar sem gerðu þáver­andi unn­ustu hans , og núver­andi eig­in­konu, kleift að sækja um inn­göngu. Í kjöl­farið fékk kærastan inn­göngu í her­inn. Síðar hafði Hans -Christ­ian enn­fremur hringt í einn af yfir­mönnum sínum til að mæla með að kærastan fengi stöðu­hækk­un. Sem hún fékk reyndar ekki. Rétt­ar­höldin sem nú standa yfir snú­ast einmitt um þetta atriði; hvort Hans-Christ­ian Mathiesen hafi mis­notað aðstöðu sína í þágu kærust­unn­ar.  Við rétt­ar­höldin hefur einnig komið fram að kærastan hafði aðgang að tölvu­póst­hólfi Hans-Christ­ian Mathiesen en slíkt stríðir algjör­lega gegn reglum hers­ins. Eftir að upp komst um mál­ið, árið 2018, var Hans-Christ­ian Mathiesen sendur í leyfi og síðar lækk­aður í tign. Fram­tíð hans í hernum ræðst vænt­an­lega næst­kom­andi þriðju­dag, 19. maí þegar dómur fellur í máli hans. 

Dag­blaðið Politi­ken hefur fjallað ítar­lega um mál­efni varn­ar­mála­ráðu­neyt­is­ins og Rekstr­ar­deild­ar­inn­ar. Í umfjöllun blaðs­ins hefur komið fram að Thomas Arhenkiel ráðu­neyt­is­stjóri varn­ar­mála­ráðu­neyt­is­ins er ekki í góðum mál­um. Hann dró, eins og áður var nefnt, í lengstu lög að til­kynna ráð­herr­anum um skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­un­ar, sem hlýtur að telj­ast óeðli­legt. Og enn­fremur hefur komið fram að hann sat fund þar sem tekin var ákvörðun um sér­staka auka­greiðslu, og launa­hækkun til upp­lýs­inga­full­trúa ráðu­neyt­is­ins, en það vill svo til að sú kona er unnusta ráðu­neyt­is­stjór­ans. Þessi tengsl eru gagn­rýnd í skýrsl­unni áður­nefndu en ráðu­neyt­is­stjór­inn situr enn.  

Mörg fleiri dæmi um frænd­hygli og óeðli­leg afskipti yfir­manna hers­ins mætti tína til en verða ekki nefnd hér.

Lét Rekstr­ar­deild­ina borga end­ur­bætur og við­bygg­ingu

Fyrir fjórum árum komst upp að starfs­maður Rekstr­ar­deild­ar­innar hafði látið byggja við ein­býl­is­hús sitt og jafn­framt end­ur­nýja inn­rétt­ingar og gera við þak og vegg­klæð­ing­ar. Ekk­ert við þetta að athuga, nema það að hús­eig­and­inn, starfs­maður Rekstr­ar­deildar fast­eigna hers­ins, hafði búið svo um hnút­ana að Rekstr­ar­deildin borg­aði brús­ann. 

Sá brúsi kost­aði 1.734.000 danskar krónur (37 millj­ónir íslenskar). Starfs­mað­ur­inn (hús­eig­and­inn) sá um að skrifa uppá reikn­inga sem bár­ust til Rekstr­ar­deild­ar­innar og því voru , ef svo mætti að orði kom­ast, hæg heima­tök­in. Sam­kvæmt vinnu­reglum Rekstr­ar­deild­ar­innar eiga tveir starfs­menn að skrifa uppá reikn­inga og sá sem hafði „að­stoð­að“ fékk í stað­inn tvö vönduð garð­hlið, úr smíða­járni, og lim­gerð­is­plönt­ur. Þessir tveir starfs­menn Rekstr­ar­deild­ar­innar hafa nýlega verið ákærðir vegna máls­ins en dómur er ekki fall­inn.

Og svo er það þvotta­húsið

Nýjasta málið sem varðar varn­ar­mála­ráðu­neytið og kom­ist hefur í fréttir í Dan­mörku er allt ann­ars eðl­is. Sýnir hins­vegar slæ­legt eft­ir­lit. Árið 2015, eftir útboð, samdi inn­kaupa­deild Varn­ar­mála­ráðu­neyt­is­ins við fyr­ir­tækið A-Vask, efna­laug og þvotta­hús um þvott, hreinsun og við­gerðir á ein­kenn­is­bún­ingum og vinnu­fatn­aði hers­ins. A-Vask var þá lítið fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki og eig­end­urnir him­in­lif­andi yfir að hafa fengið samn­ing við her­inn. 

Fyr­ir­tækið þvoði, hreins­aði og press­aði bún­inga, og vinnu­fatn­að, gerði við göt, skipti um rennilása og setti nýja hnappa á fötin þegar þess var þörf. Innan hers­ins var ánægja með þjón­ust­una. Árið 2019 urðu eig­enda­skipti á A-Vask. Nýju eig­end­urn­ir, Ber­end­sen Textil upp­götv­uðu að A-Vask hefði lík­lega „smurt“ á reikn­ing­ana og til­kynntu það inn­kaupa­deild hers­ins. Þegar málið var rann­sakað kom í ljós að grunur Ber­end­sen Textil hafði við rök að styðj­ast. A-Vask hafði „smurt“ mynd­ar­lega á reikn­ing­ana, um það bil 13 millj­ónum danskra króna (276 millj­ónir íslenskar) á fjög­urra ára tíma­bili, frá 2015 til 2019. Þetta mál er nýtil­komið og óljóst hvort gefin verður út ákæra á hendur fyrr­ver­andi eig­enda A-Vask. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar