Ríkisendurskoðun gerir engar athugasemdir við störf stjórnar Lindarhvols, félags sem sá um umsýslu, fullnustu og sölu á eignum sem ríkissjóður fékk afhent vegna stöðugleikasamninganna við slitabú föllnu bankanna. Ríkisendurskoðun gerir heldur engar athugasemdir við rekstur Lindarhvols.
Þetta kemur fram í skýrslu sem stofnunin birti í dag um framkvæmd samnings sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gerði við félagið.
Í skýrslunni er sagt að stöðugleikaframlagið hafi skilað 460 milljörðum króna í ríkissjóð, en upphaflega var ætlað að tekjur ríkisins vegna þess yrðu 384 milljarðar króna. Þær eru því 76 milljörðum krónum meiri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.
Lindarhvoll var stofnað í apríl 2016. Í febrúar 2018 var greint frá því að félagið hefði lokið hlutverki sínu og yrði slitið. Skömmu áður, í janúar 2018, hafði félagið framselt eignir sem metnar voru á 19 milljarða króna til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR). Um var að ræða eignir sem Lindarhvoll hafði haft til umsýslu og töldust ekki heppilegar til sölu á almennum markaði. Framsal eignanna lækkaði lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs við B-deild LSR um áðurgreinda upphæð.
Álitamál hvort starfstími hafi verið nægjanlega rúmur
Í skýrslu Lindarhvols kemur fram að það sé álitamál hvort að starfstími Lindarhvols hafi veirð nægjanlega rúmur. „Mögulega hafi verið unnt að fá hærri tekjur fyrir einstaka eignir hefði sölu- og umsýslutíminn verið annar og lengri. Óhjákvæmilegt er þó að taka tillit til þess að vaxtakjör íslenska ríkisins bötnuðu vegna þess hversu greiðlega gekk að koma stöðugleikaframlagseignunum í verð. Þannig kunna að vegast á annars vegar hagsmunir þess að hraða sölu og fá þannig betri vaxtakjör og hins vegar möguleikar þess að fá hærra söluverð fyrir einstaka eignir á lengri tíma.“
Sá sem sá um starfsemi Lindarhvols utan stjórnar var lögmaðurinn Steinar Þór Guðgeirsson. Hann var meðal annars prókúruhafi félagsins og Lindarhvol keypti lögfræðiþjónustu frá fyrirtæki hans, Íslögum ehf. Alls var keypt þjónusta fyrir 80 milljónir króna án virðisaukaskatts af stofu Steinars og Ríkisendurskoðun kannaði sérstaklega hvort að það hefði átt að bjóða út þá þjónustu sem hún annaðist.
Gera ekki athugasemdir við ráðningu Steinars án útboðs
Í skýrslunni segir að stjórn Lindarhvols hafi fært rök fyrir því að persónuleg þekking lögmannsins og reynsla hans hafi valdið því að samningur var gerður við Íslög. „Sú þekking og reynsla auk þess skamma starfstíma sem félaginu var skammtaður hafi verið ástæða þess að gerður var samningur við Íslög ehf. Stjórnin taldi eftirsóknarvert að njóta starfskrafta lögmannsins enda hefði hann búið yfir yfirburða þekkingu á sviðinu eftir að hafa haft umsjón með gerð stöðugleikasamninga fyrir hönd Seðlabanka Íslands við öll slitabúin og þannig haft umsjón með móttöku og daglegum rekstri þessara eigna. Var það mat stjórnar að útilokað hefði verið að ná fram markmiðum í samningi við fjármála- og efnahagsráðherra um að hámarka endurheimtur jafn hratt og raun varð á og lágmarka kostnað ef farið hefði verið í útboð, enda hefði slíkt reynst tímafrekt og óvíst með öllu, að mati stjórnar félagsins, að sama þekking á stöðugleikaframlagseignum hefði náðst fram innan þeirra tímamarka sem stjórn félagsins hafði til ráðstöfunar.“
Ríkisendurskoðun kannaði lagareglur og taldi að eins og á stóð, mætti fallast á þau sjónarmið sem stjórn Lindarhvols setti fram vegna þessa fyrirkomulags. „Ríkisendurskoðun kannaði jafnframt hvort samið hefði verið um afslátt á tímagjaldi Íslaga ehf. í ljósi þess umfangs sem samningurinn fól í sér og var upplýst að verulegur afsláttur var veittur frá tímagjaldi lögfræðistofunnar. Í þessu ljósi gerir Ríkisendurskoðun hvorki athugasemdir við stjórnun félagsins né aðkeypta lögfræðiþjónustu af lögmannsstofunni Íslögum ehf.“
Eðlilega staðið að sölunni á hlut í Klakka
Sú ráðstöfun á eign sem Lindarhvoll hélt á sem vakti mesta tortryggni var sala á 17,7 prósent hlut í Klakka ehf.. (sem hét á árum áður Exista). Klakki átti á þeim tíma allt hlutafé í eignaleigufyrirtækinu Lykli.
Félagið BLM fjárfestingar, dótturfélag vogunarsjóðsins Burlington Loan Management, átti hæsta tilboðið í hlut ríkisins í Klakka en það hljóðaði upp á 505 milljónir króna. Félagið Ásaflöt bauð 502 milljónir í hlutinn en þriðja tilboðið, sem hljóðaði upp á 501 milljón króna, barst frá Frigus II í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, fyrrverandi aðaleigenda Exista, og Sigurðar Valtýssonar, fyrrverandi forstjóra Exista.
Eigendur Frigusar voru mjög ósáttir við söluna og lýstu því yfir að með henni hafi átt sér stað sala á eigum ríkisins til sérvalinna aðila án þess að reynt hafi verið að hámarka söluandvirðið.
Þessi sala var tekin til sérstakrar umfjöllunar í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í niðurstöðum hennar segir að eðlilega hafi verið staðið að sölunni. „Ekki verður annað séð en að framkvæmd útboðsins hafi verið í samræmi við það sem almennt tíðkaðist við framkvæmd útboða sem þessara. Þá gerðu bjóðendur engar formlegar athugasemdir við framkvæmd útboðsins áður en útboðsfrestur rann út. Að mati Ríkisendurskoðunar hefur stjórn Lindarhvols ehf. svarað gagnrýni sem fram kom eftir að útboðsfrestur rann út með fullnægjandi hætti.“
Ekki verður annað séð, að mati Ríkisendurskoðunar, en að framkvæmd útboðsins hafi verið í samræmi við það sem almennt tíðkaðist við framkvæmd slíkra útboða. „Þá gerðu bjóðendur engar formlegar athugasemdir við framkvæmd útboðsins áður en útboðsfrestur rann út. Að mati Ríkisendurskoðunar hefur stjórn Lindarhvols ehf. svarað gagnrýni sem fram kom eftir að útboðsfrestur rann út með fullnægjandi hætti.“