Fjöldi áskrifenda Vodafone, sem tilheyrir Sýn-samstæðunni, sem var með sjónvarp yfir svokallað IP-net dróst saman um dróst saman um 18 prósent á árinu 2019. Í byrjun þess voru 41.388 áskrifendur með myndlykla frá Vodafone en um síðustu áramót voru þeir orðnir 33.918. Frá árslokum 2017 hefur áskrifendafjöldi fyrirtækisins alls dregist saman um tæpan fjórðung.
Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn 2019 sem birt var nýverið.
Vert er að taka fram að fjöldi þeirra sem er með sjónvarp yfir IP-net, sem er það sjónvarp sem miðlað er í gegnum ADSL- eða ljósleiðaratengingar í myndlykla sem leigðir eru af fjarskiptafyrirtækjum, hefur fækkað umtalsvert á undanförnum árum samhliða því að streymisveitur á borð við Netflix, Amazon Prime og nú nýlega Viaplay hófu innreið sína inn á íslenskan sjónvarpsmarkað. Hægt er að horfa á slíkar í gegnum öpp á sjónvarpi og öðrum tækjum án þess að myndlykil þurfi til.
Frá árslokum 2017 hefur áskrifendum sem eru með sjónvarp yfir IP-net fækkað um tæplega tíu þúsund, eða um tæplega tíu prósent. Á árinu 2019 einu saman fækkaði þeim um 7.108 talsins.
Það tap á viðskiptavinum er allt hjá Vodafone. Síminn, hinn leikandinn á þessum markaði, heldur sínum viðskiptavinafjöld milli ára og bætti við 362 nýjum. Markaðshlutdeild hans er nú 63,1 prósent á markaði fyrir sjónvarp yfir IP-net en hlutdeild Vodafone 36,9 prósent.
Eitt fyrirtæki eykur tekjur hratt, hitt upplifir mikinn samdrátt
Hörð barátta hefur átt sér stað á sjónvarpsmarkaði milli þeirra fjarskiptafyrirtækja sem keppa á honum á undanförnum árum. Síminn hefur bætt verulega í þá þjónustu sem hann selur undir hatti Sjónvarpi Símans og Sýn keypti í lok árs 2017 fjölda fjölmiðla, meðan annars Stöð 2, Stöð 2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977 fyrir tæplega átta milljarða króna.
Hjá Símanum voru rekstrartekjur af sjónvarpsþjónustu drifkrafturinn í auknum tekjum fyrirtækisins í fyrra, eða 75 prósent þeirra. Alls jukust tekjurnar af sjónvarpsþjónustunni um 818 milljónir króna á einu ári. Þar skiptir meðal annars miklu að Síminn náði til sín sýningarréttinum að enska boltanum af Sýn.
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 hélt Síminn áfram að hagnast á sjónvarpsþjónustu, en tekjur hans á fyrstu þremur mánuðum ársins vegna hennar voru 1.583 milljónir króna og 252 milljónum króna meira en á sama tímabili í fyrra. Alls er um að ræða tekjuaukningu um 18,9 prósent.
Á sama ársfjórðungi drógust tekjur Sýnar vegna fjölmiðlareksturs saman um 229 milljónir króna, eða ellefu prósent, og voru 1.943 milljónir króna.
Á örskömmum tíma hefur staðan í fjölmiðlasamkeppni þessara tveggja íslensku fjarskiptarisa gjörbreyst. Á þriðja ársfjórðungi 2018 voru tekjur Sýnar vegna fjölmiðla 76 prósent hærri en tekjur Símans vegna þeirrar tekjustoðar. Á fyrstu þremur mánuðum yfirstandandi árs voru þær 23 prósent hærri.
160 prósent aukning hjá Nova á tveimur árum
Þegar kemur að internettengingum þá er Síminn líka stærstur. Hlutdeild hans á markaði er 47,6 prósent sem er mjög svipað hlutfall og verið hefur undanfarin ár. Fyrirtækinu virðist ganga ágætlega að bæta við sig þeim viðskiptavinum sem bætast við á hverju ári og halda stöðu sinni. Á árinu 2019 fjölgaði þeim til að mynda um 2.662 talsins og voru 66.273 í lok þess.
Nova seldi lengi vel ekki internetþjónustu með öðrum hætti en í gegnum farsímakerfi. Á því varð breyting á árinu 2016 þegar að fyrirtækið tilkynnti að það ætlaði að hefja ljósleiðaraþjónustu. Síðan þá hefur hlutdeild fyrirtækisins vaxið hratt. Hún var 3,3 prósent um mitt ár 2017 en 12,4 prósent í lok árs 2019. Alls hefur þeim viðskiptavinum sem kaupa internetþjónustu hjá Nova fjölgað um 160 prósent frá lokum árs 2017.
Hringdu hefur líka komið sér ágætlega fyrir á internetmarkaðnum og er með 7,8 prósent hlutdeild, sem hefur haldist nánast óbreytt síðastliðin tvö ár, en þó þannig að fyrirtækið hefur bætt við sig nýjum viðskiptavinum á hverju ári.
Eina fyrirtækið sem Póst- og fjarskiptastofnun fjallar um í skýrslunni, og selur internettengingar, sem hefur verið að missa markaðshlutdeild og viðskiptavini er Vodafone, sem tilheyrir Sýnar-samstæðunni. Staða fyrirtækisins batnaði umtalsvert í lok árs 2017 þegar það tók yfir internetstarfsemi 365 og fékk með tæplega 15 þúsund viðskiptavini. Þá voru þeir alls 49.557 talsins en hefur síðan fækkað um 8.583 á tveimur árum, eða um 17,3 prósent.