Ríkisendurskoðun birti í skýrslu sinni um hlutabótaleiðina lista yfir öll fyrirtæki sem fengu heildargreiðslur til launamanna sinna yfir 30 milljónum króna í mars og apríl. Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru fyrirferðamest á þeim lista, sem Kjarninn hefur rýnt í og tekið saman hér að neðan.
Tekið skal fram að þetta eru einungis greiðslurnar sem launamenn þessara félaga fengu frá Vinnumálastofnun í mars og apríl, en heildargreiðslur vegna hlutabótaleiðarinnar á þessu tímabili námu um 11,7 milljörðum króna. Hins vegar er nú gert ráð fyrir því að hlutabótaleiðin muni kosta ríkissjóð 34 milljarða þar til í lok ágúst.
1. Icelandair Group - 1,11 milljarðar króna
Icelandair Group er langefst á lista, en samandregið fengu launamenn hjá dótturfélögum samstæðunnar, 3.318 talsins, 1.116 milljón króna greiðslur frá Vinnumálastofnun í mars og apríl vegna minnkaðs starfshlutfalls.
Þar af voru 2.493 starfsmenn Icelandair ehf. í skertu starfshlutfalli og 502 starfsmenn Flugleiðahótela hf., auk starfsmanna Air Iceland Connect, Iceland Travel og fleiri dótturfélaga.
Starfsmenn Flugleiðahótela fengu alls 248 milljónir króna greiddar frá Vinnumálastofnun vegna minnkaðs starfshlutfalls í mars og apríl, en inn í heildarsummuna sem fór til starfsmanna Icelandair Group reiknast einungis 87 milljónir af þeirri upphæð, sökum þess að í apríl seldi Icelandair Group 75 prósent hlut sinn í hótelkeðjunni.
2. Bláa lónið - 185,8 milljónir króna
Bláa lónið setti alls 441 starfsmann í minnkað starfshlutfall í mars og apríl. Heildargreiðslur til launamanna fyrirtækisins frá Vinnumálastofnun á þessu tímabili námu tæpum 186 milljónum króna.
Áður en kórónuveirufaraldurinn skall á hafði fyrirtækið 764 starfsmenn í vinnu. 164 þeirra var sagt upp 26. mars og fyrirtækið hefur nú tilkynnt að um komandi mánaðamót verði 403 starfsmönnum til viðbótar sagt upp störfum.
Ekki liggur fyrir hvort Bláa lónið ætli að óska eftir því að hluti launagreiðslna starfsmanna á uppsagnarfresti greiðist úr ríkissjóði.
3. Íslandshótel / Fosshótel Reykjavík - 161,3 milljónir króna
Hótelkeðjan Íslandshótel, sem er ein sú stærsta hér á landi og rekur meðal annars Grand Hótel auk Fosshótela víða um land, var með 365 starfsmenn í minnkuðu starfshlutfall í mars og apríl og fengu þeir 122,6 milljónir greiddar frá Vinnumálastofnun.
Fosshótel Reykjavík, sem er tengt félag, var svo með 108 starfsmenn í skertu starfshlutfalli í mars og apríl og fengu þeir starfsmenn 38,6 milljónir greiddar frá Vinnumálastofnun.
Samanlagt voru félögin því með 473 starfsmenn á hlutabótaleiðinni á tímabilinu. Nokkrum hótelum í keðjunni hefur verið lokað tímabundið.
4. CenterHotels - 98,1 milljón króna
Hótelin hafa staðið auð að mestu frá því að kórónuveirufaraldurinn braust út. CenterHotels hafa ekki farið varhluta af því, en 201 starfsmaður fyrirtækisins var í minnkuðu starfshlutfalli í mars og apríl. Nokkrum hótelum keðjunnar hefur verið lokað tímabundið.
5. Kynnisferðir - 81,5 milljónir króna
Rútufyrirtækið Kynnisferðir, annars vegar hópbílahlutinn og hins vegar ferðaskrifstofuhlutinn, komast bæði á lista Ríkisendurskoðunar yfir þau fyrirtæki sem fengu hæstar greiðslur til starfsmanna sinna vegna hlutabótaleiðarinnar.
Samanlagt setti fyrirtækið 151 starfsmann á hlutabótaleiðina í mars og apríl. 150 starfsmönnum var sagt upp í lok apríl.
6. IKEA á Íslandi (Miklatorg) - 65 milljónir króna
IKEA lokaði verslun sinni í Kauptúni í Garðabæ á meðan kórónuveirufaraldurinn gekk yfir, en 180 starfsmenn fyrirtækisins voru settir á hlutabótaleiðina á meðan. Verslunin opnaði á ný 4. maí og ekki hefur þurft að koma til uppsagna þar.
7. Airport Associates - 58,4 milljónir króna
Mikill samdráttur varð hjá Airport Associates, sem þjónustar flugfélög á Keflavíkurflugvelli, þegar flugfélög hættu að fljúga til og frá Íslandi. Fyrirtækið var með 153 starfsmenn á hlutabótaleiðinni í mars og apríl, en sagði upp 131 starfsmanni í lok aprílmánaðar.
8. Gray Line (Allrahanda) - 56,3 milljónir króna
Rútufyrirtækið Gray Line var með 109 starfsmenn á hlutabótaleiðinni í mars og apríl. Í lok apríl sagði fyrirtækið upp nær öllum starfsmönnum, eða 107 af alls 116 sem þar störfuðu.
9. Bílaleiga Akureyrar - Höldur - 53,5 milljónir króna
Bílaleiga Akureyrar er stærsta bílaleiga landsins og var með 183 starfsmenn á hlutabótum í mars og apríl.
Fram kemur á vef fyrirtækisins að um 5.000 bílar séu þar í rekstri yfir sumartímann, en fyrirtækið er einnig með bílasölu, bifreiðaverkstæði og dekkjaþjónustu. Fyrirtækið sagði upp um það bil 20 manns í lok apríl.
10. KEA-hótel - 49,9 milljónir króna
KEA-hótel voru með 153 starfsmenn á hlutabótaleiðinni í mars og apríl. Greiðslur til þeirra námu tæpum 50 milljónum króna.
11. Sjóklæðagerðin 66°Norður - 46,3 milljónir króna
66°Norður nýtti hlutabótaleiðina fyrir alls 87 starfsmenn í mars og apríl og lokaði nokkrum verslunum á meðan faraldurinn var að ganga yfir.
12. Festi - um 45 milljónir króna
Smásölusamstæðan Festi nýtti hlutabótaleiðina fyrir starfsmenn dótturfélaganna N1 og Elko. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að 156 starfsmenn N1 hafi verið í minnkuðu starfshlutfalli í mars og apríl og greiðslur til þeirra hafi numið rúmum 29 milljónum króna.
Í skýrslunni kemur hins vegar ekkert fram um hversu margir starfsmenn Elko voru á hlutabótaleiðinni. Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festar sagði þó við mbl.is fyrr í mánuðinum að heildargreiðslur til starfsmanna fyrirtækja Festar vegna hlutabótaleiðarinnar hefðu verið um 45 milljónir króna.
Fyrirtækið er í hópi stöndugra stórfyrirtækja sem stjórnvöld gagnrýndu skyndilega og harðlega fyrir notkun á hlutabótaleiðinni og hefur gefið út að það ætli að endurgreiða féð í ríkissjóð.
13. Fríhöfnin - 45,2 milljónir króna
Alls 152 starfsmenn Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli voru á hlutabótaleiðinni í mars og apríl. 30 starfsmönnum var sagt upp í lok apríl. Fríhöfnin er dótturfélag opinbera hlutafélagsins Isavia.
14. Penninn - 39 milljónir króna
Penninn sagði upp 90 manns strax í lok marsmánaðar, en þar var aðallega um að ræða fólk í hlutastörfum undir 45 prósent starfshlutfalli, sem hlutabótaleiðin náði ekki til. Uppsagnirnar náðu til um það bil 35 stöðugilda.
Fjöldi annarra starfsmanna, alls 135 talsins, voru í minnkuðu starfshlutfalli í mars og apríl.
15. World Class - 36,9 milljónir króna
Líkamsræktarstöðvum var gert að loka vegna sóttvarnaráðstafana. Sú stærsta í þeim geira hérlendis, World Class, var með 117 starfsmenn á hlutabótum í mars og apríl.
16. Öryggismiðstöð Íslands - 36,6 milljónir króna
Alls 142 starfsmenn Öryggismiðstöðvar Íslands voru á hlutabótum í mars og apríl. Um 75 prósent þeirra sem voru í minnkuðu starfshlutfalli störfuðu við flugverndarþjónustu á Keflavíkurflugvelli.
17. Hertz (Bílaleiða Flugleiða) - 36,4 milljónir
Bílaleiga Flugleiða, sem fer með rekstur Hertz á Íslandi, var með 94 starfsmenn á hlutabótum í mars og apríl.
18. Arctic Adventures (Straumhvarf) - 36,3 milljónir króna
Straumhvarf, dótturfélag Arctic Adventures, var með 86 starfsmenn á hlutabótaleiðinni í mars og apríl. Öllum starfsmönnum Arctic Adventures og dótturfélaga, alls 152 talsins, var sagt upp í lok apríl.
19. Bílaleigur ALP hf. - 35,9 milljónir króna
ALP hf., sem rekur bílaleigurnar Avis og Budget á Íslandi, var með 84 starfsmenn á hlutabótaleiðinni í mars og apríl.
20. Bílaumboðið Askja - 35,4 milljónir króna
Askja var með 112 starfsmenn í minnkuðu starfshlutfalli í mars og apríl.
21. Brimborg - 32,2 milljónir króna
Brimborg var með 165 starfsmenn á hlutabótaleiðinni í mars og apríl.
22. Húsasmiðjan - 31 milljón króna
Húsasmiðjan var með alls 148 starfsmenn í minnkuðu starfshlutfalli í mars og apríl.
23. Össur - 30,6 milljónir króna
Össur nýtti hlutabótaleiðina fyrir um þriðjung starfsmanna sinna á Íslandi, alls 166 manns. Starfshlutfall þeirra fór niður í 50 prósent í apríl, en fyrirtækið hefur gefið það út að það hyggist endurgreiða Vinnumálastofnun, eftir að hvöss gagnrýni kom skyndilega fram frá stjórnvöldum.