Svört skýrsla um hlutabótaleiðina sýnir grun um misnotkun
Ríkisendurskoðun gagnrýnir framkvæmd hlutabótaleiðarinnar harðlega í skýrslu sem hún hefur unnið. Of margir sem áttu ekki í bráðum rekstrarvanda hafi nýtt sér hana til að sækja fjármuni í ríkissjóð og misbrestur hafi verið á eftirliti með ráðstöfun ríkisfjár vegna leiðarinnar. Kostnaður við hana var upphaflega áætlaður 755 milljónir króna en verður líklega 34 milljarðar króna.
Þrátt fyrir áherslu stjórnvalda um að hlutabótaleiðin, einnig kölluð hlutastarfaleiðin, væri stuðningur við lífvænleg fyrirtæki sem misst hefðu miklar tekjur virðist að nokkuð frjálsræði hafi verið á túlkun laga um hana. Í hópi þeirra fyrirtækja sem nýttu sér hana eru „fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag en ekki verður séð af lögunum og lögskýringargögnum að slíkt hafi verið ætlunin.“
Vakið hefur athygli að sveitarfélög og opinberir aðilar, til dæmis fyrirtæki í opinberri eigu, hafi nýtt sér úrræðið þrátt fyrir að lögskýringargögn beri með sér að það hafi verið ætlað fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra.
Brýnt er að eftirlit sé haft með nýtingu ríkisfjár og að staðinn sé vörður um hagsmuni ríkissjóðs þegar tugum milljarða króna er ráðstafað úr honum í leið eins og hlutabótaleiðina. Á því varð misbrestur og alls óvíst er hversu mikill kostnaður hefði fallið á ríkissjóð vegna aðstæðna í efnahagslífinu ef ekki hefði verið ráðist í hlutabótaleiðina. Ljóst sé að fyrirtæki sem hvorki eiga í bráðum rekstrar- né greiðsluvanda, voru í sumum tilvikum með öflugan rekstur og sterkan efnahag, hafi nýtt sér leiðina.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar um úttekt sem stofnunin hefur gert á hlutabótaleiðinni. Skýrslan er unnin að frumkvæði Ríkisendurskoðunar og hún var kynnt fyrir velferðarnefnd seint á miðvikudag. Forseti Alþingis gerði grein fyrir tilvist skýrslunnar við upphaf þingfundar í dag. Áður hafði félags- og barnamálaráðuneytið og Vinnumálastofnun fengið vitneskju um að hún væri í vinnslu.
Atvinnuleysi mun kosta 84 milljarða í ár
Hlutabótaleiðin var kynnt í fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnarinnar þann 21. mars síðastliðinn og er langstærsta einstaka úrræðið sem hefur verið gripið til enn sem komið er vegna yfirstandandi efnahagsaðstæðna. Leiðin gengur út á að stjórnvöld greiða allt að 75 prósent launa þeirra sem lækka tímabundið í starfshlutfalli upp að ákveðnu þaki.
Í greinargerð frumvarpsins, sem var lagt fram 13. mars 2020, var gert ráð fyrir að um 1.000 manns myndu nýta sér úrræðið og kostnaður þess myndi nema um 755 milljónum króna.
Eftir að hlutastarfaleiðin var lögfest þann 20. mars 2020 taldi forstjóri Vinnumálastofnunar að varlega áætlað gæti kostnaðurinn orðið þrír milljarðar króna ef fimm þúsund manns myndu nýta sér leiðina og 6,4 milljarðar króna ef fjöldinn yrði tíu þúsund.
Þegar ríkisstjórnin kynnti úrræðið á blaðamannafundi þann 21. mars sama ár var gert ráð fyrir mun meiri kostnaði. Samkvæmt kynningunni var talið að viðbótarþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs yrði 22 milljarðar króna Ekki var sett fram nein spá um fjölda einstaklinga sem kynnu að nýta sér leiðina en miðað við áætlaða fjárþörf má gera ráð fyrir að fjöldinn yrði um 30 þúsund. Kostnaðurinn varð miklu meiri
Rúmlega 37 þúsund manns voru sett á hlutabótaleiðina þegar mest var. Rétt tæplega 73 prósent allra þeirra 6.435 vinnuveitenda sem nýttu sér leiðina voru með þrjá eða færri starfsmenn. Nú áætla stjórnvöld að kostnaður vegna leiðarinnar verði 34 milljarðar króna, en til stendur að framlengja gildistíma hennar með breytingum út ágústmánuð. Heildargreiðslur Vinnumálastofnunar vegna úrræðisins á því tímabili sem Ríkisendurskoðun skoðaði, greiðslur vegna mars og aprílmánaða, námu 11,7 milljörðum króna og því viðbúið að greiðslur til einstakra fyrirtækja, sem fjallað verður um hér að neðan, verði meiri þegar árið verður gert upp.
Áætlaðar atvinnuleysisbætur í byrjun árs og út árið voru 27,4 milljarðar króna. Vegna yfirstandandi ástands, og aðgerða ríkisstjórnarinnar, hefur sú talað hækkað um 56,5 milljarða króna í 83,9 milljarða króna. Inni í þeirri tölu eru allar áætlaðar greiðslur til bæði þeirra sem eru atvinnulausir að fullu og þeirra sem nýttu hlutabótaleiðina.
Til samanburðar má nefna að allt árið 2018 námu heildargreiðslur vegna atvinnuleysis ellefu milljörðum króna. Metárið í útgreiðslu atvinnuleysisbóta hingað til var árið 2009, þegar alls voru greiddar út 27,9 milljarðar króna. Sú upphæð hefur því vel rúmlega tvöfaldast á fjórum mánuðum.
31 fyrirtæki með yfir 100 starfsmenn á leiðinni
Alls setti 31 fyrirtæki fleiri en 100 starfsmenn á leiðina. Á meðal þeirra eru mörg stöndug fyrirtæki eins og Miklatorg ehf., sem á og rekur IKEA á Íslandi og hefur verið rekið í miklum hagnaði árum saman, setti 180 starfsmenn á hlutabótaleiðina. Alls greiddi ríkissjóður 65 milljónir króna vegna þessa í mars og apríl. Stoðtækjafyrirtækið Össur setti 166 starfsmenn á leiðina og greiðslur úr ríkissjóði vegna þessa námu 30,6 milljónum króna. Össur hefur sagt að fyrirtækið ætli að endurgreiða þá fjármuni. Athygli vekur að Íslandspóstur, sem er fyrirtæki að öllu leyti í eigu ríkisins, ákvað að setja 154 manns á hlutabótaleiðina. Festi, sem er skráð félag sem gerir ráð fyrir að skila yfir sjö milljarða króna hagnaði í ár, setti einnig fjölmarga starfsmenn dótturfélaga sinna á leiðina. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur til að mynda fram að 156 starfsmenn N1 voru á hlutabótum.
Ein samstæða sker sig þó úr á allan hátt, Icelandair Group. Umfang greiðslna til hennar er mun umfangsmeiri en til allra annarra. Í mars og apríl greiddi Atvinnuleysistryggingasjóður 926 milljónir króna í hlutabætur vegna 2.493 starfsmanna Icelandair og heildargreiðsla vegna hlutabóta til starfsmanna móðurfélags flugfélagsins, Icelandair Group, nam 1.116 milljónum króna vegna 3.318 starfsmanna.
Heildarfjöldi stöðugilda Icelandair Group var að meðaltali 4.715 á árinu 2019. Innan samstæðunnar eru ásamt flugfélaginu Icelandair ehf. dótturfélögin Air Iceland Connect (Flugfélag Íslands ehf.), ferðaskrifstofan Iceland Travel ehf., Loftleiðir-Icelandic ehf., Icelandair Cargo ehf. og ferðaskrifstofan Vita (Feria ehf.). Samstæðan seldi 75 prósent hlut sinn í Icelandair Hotels (Flugleiðahótelum hf.) 3. apríl 2020.
Samdrátturinn verður að vera vegna COVID-19
Ákveðið var í lok apríl að hlutabótaleiðin yrði framlengd með óbreyttu sniði út júní, en hún átti upphaflega að gilda til 1. júní. Eftir það verður hún í boði með breyttu sniði – hámarksgreiðslur úr opinberum sjóðum verða þá 50 prósent af greiddum launum í stað 75 prósent – og nánari skilyrðum út ágúst.
Ríkisendurskoðun telur að fullt tilefni hafi verið fyrir stjórnvöld að endurskoða framkvæmd hlutastarfaleiðarinnar og bregðast við, enda sé þannig leitast við að úrræðið sé eingöngu nýtt af þeim aðilum sem því er ætlað að aðstoða.
Að mati Ríkisendurskoðunar þarf til að mynda að tryggja virkt eftirlit með úrræðinu þegar í stað og kanna þurfi hvort vinnuveitendur uppfylli tiltekin skilyrði um rekstur, fjárhag og fjárhagsskuldbindingar.
Í skýrslunni segir: „Eftir að í ljós kom að fyrirtæki sem ekki áttu í bráðum rekstrarvanda og bjuggu að sterkum efnahag sem og opinberir aðilar og sveitarfélög höfðu nýtt úrræðið, var það afdráttarlaus afstaða stjórnvalda að við endurskoðun og framlengingu hlutastarfaleiðarinnar yrðu sett sambærileg skilyrði fyrir úrræðinu og finna má í öðrum aðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19.“
Lögin sem gildi um leiðina séu þó ekki margorð um þau skilyrði sem uppfylla þarf svo að hlutabætur séu greiddar. „Hvað launamenn varðar kveða lögin á um að um tímabundinn samdrátt í starfsemi vinnuveitanda sé að ræða en í tilviki sjálfstætt starfandi einstaklinga verður að vera verulegur samdráttur í rekstri sem leiðir til tímabundinnar stöðvunar á rekstri. Lögin hafa ekki að geyma frekari skilgreiningar á því hvað felist í tímabundnum samdrætti eða hvað telst vera verulegur samdráttur.“
Í greinargerðinni sem fylgdi frumvarpinu þegar það var lagt fram hafi þó komið fram að tilefni lagasetningarinnar væri óvissa á vinnumarkaði vegna COVID-19. Enn fremur sagði þar að Samtök atvinnurekenda myndu hvetja fyrirtæki sem eigi í tímabundnum rekstrarvanda að nýta þann kost að lækka starfshlutfall starfsmanna sinna tímabundið fremur en að grípa til uppsagna. „Af þessu má ráða að sá samdráttur sem vinnuveitendur vísa til þegar starfshlutfall starfsmanna er lækkað verður að vera vegna COVID-19. Þá má einnig benda á að samdrátturinn verður að leiða til rekstrarvanda hjá fyrirtækjum og af þeim sökum ættu fyrirtæki með sterkan efnahag að geta staðið af sér tímabundna rekstrarsveiflu án þess að þurfa að grípa til uppsagna starfsfólks eða lækkunar á starfshlutfalli. Allt þetta eru atriði sem Vinnumálastofnun ber að leggja til grundvallar þegar meta á hvort heimilt sé eða heimilt hafi verið að greiða hlutabætur til launamanna.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði