Alls 160 launagreiðendur óskuðu eftir því að fá að breyta áður tilgreindum launagreiðslum til hækkunar áður en þeir sóttu um að setja starfsmenn á hlutabótaleiðina. Af þeim óskuðu 99 eftir breytingum á launagreiðslur fyrir janúar og febrúar 2020.
Eftir breytingarnar hækkuðu uppgefin laun hópsins um alls 114 milljónir króna frá því sem áður var. Samhliða hækkuðu greiðslur vegna hlutabótaleiðarinnar til hans um sambærilega tölu, enda verið að greiða umræddum hópi hlutfall af hærri launum en hann hafði áður sagst vera með. Í flestum tilfellum var um aðila sem starfa við eigin atvinnurekstur að ræða, og gátu því breytt launaseðlum sínum án þess að bera það undir nokkurn annan.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutabótaleiðina segir að leiða megi líkum „að því að meirihluti umræddra breytinga byggi á hæpnum grunni og tilgangurinn sé að ná hærri greiðslum úr ríkissjóði. Ríkisendurskoðun telur að svo miklar breytingar veki upp spurningar um ástæður umræddra breytinga og að kanna þurfi réttmæti þeirra.“
Skýrslan er unnin að frumkvæði Ríkisendurskoðunar. Á meðan að hún var í vinnslu fengu félags- og barnamálaráðuneytið og Vinnumálastofnun vitneskju um að hún væri í bígerð, og tækifæri til að gera athugasemdir við niðurstöður hennar.
Ýmis konar grunur um misnotkun
Í henni er sérstaklega fjallað um ábendingar um misnotkun á leiðinni og ásókn fyrirtækja með sterkan efnahag í hana. Mikið hefur verið fjallað um síðarnefnda atriðið í fjölmiðlum enda varð fljótt ljóst að fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem áttu ekki í bráðum vanda við að mæta skuldbindingum sínum um launagreiðslur og höfðu jafnvel ekki orðið fyrir samdrætti vegna heimsfaraldurs kórónuveiru voru að nýta sér úrræðið. Hluti þeirra fyrirtækja hafa greint frá því að þau ætli að endurgreiða þá fjármuni sem þau sóttu í ríkissjóð í gegnum hlutabótaleiðina.
Látnir skila meira vinnuframlagi
Vinnumálastofnun hefur einnig fengið ábendingar um að úrræðið sé misnotað eftir öðrum leiðum. Í skýrslunni eru nefnd dæmi um ábendingar þar sem talið er að launamenn séu látnir skila meira vinnuframlagi en lækkað starfshlutfall segir til um og að starfshlutfall einstaklinga hafi verið lækkað afturvirkt án þess að sú hafi verið raunin.
Svo hafa, samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun, komið upp tilfelli sem gefa tilefni til að hugað verði sérstaklega að umsóknum einstaklinga sem starfa hjá eigin fyrirtækjum. „Viðkomandi sækja um greiðslur líkt og aðrir launamenn en skila einnig gögnum og staðfesta samkomulag sem vinnuveitendur. Dæmi er um að laun eftir minnkað starfshlutfall endurspegli ekki launagreiðslur áður en starfshlutfall minnkaði.“
Þetta hafði þau áhrif að greiðslur úr ríkissjóði til viðkomandi hækkuðu umtalsvert, enda eru hlutabæturnar reiknaðar út miðað við meðaltal heildarlauna síðustu þriggja mánaða áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Í ljósi þessa aflaði Ríkisendurskoðun upplýsinga frá embætti Ríkisskattstjóra um hversu margir launagreiðendur hafi óskað eftir að hækka áður tilkynnt laun og reiknað endurgjald. Þar kom fram að þeir væri 160 og að heildarbreyting á launum þeirra í janúar og febrúar næmi 114 milljónum króna. Ríkisendurskoðun telur, líkt og áður sagði, að leiða megi líkur að því að „meirihluti umræddra breytinga byggi á hæpnum grunni og tilgangurinn sé að ná hærri greiðslum úr ríkissjóði.“