Eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins jukust um 223 milljarða króna í aprílmánuði. Þær hafa aldrei aukist um jafn háa upphæð í einum mánuði áður. Samtals námu eignirnar 5.173,2 milljörðum króna í lok aprílmánaðar. Til samanburðar má nefna að eignir sjóðanna drógust saman um 209 milljarða króna í október 2008, þegar íslenska bankakerfið hrundi. Þá voru heildareignir íslensku lífeyrissjóðanna þó mun minni, eða 1.659 milljarðar króna, og hlutfallslegi samdrátturinn því mun meiri en hlutfallsleg hækkun nú.
Þetta kemur fram í nýlegum tölum Seðlabanka Íslands um eignir lífeyrissjóðanna.
Mestu munaði um að erlendar eignir sjóðanna jukust um 171,4 milljarða króna. Þær eru núna 1.656,5 milljarðar króna og hafa aldrei verið meiri. Þar virka saman mikil hækkun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum og veiking krónunnar í aprílmánuði. Hækkunin vekur ekki síður athygli vegna þess að í gildi er óformlegt samkomulag um að lífeyrissjóðirnir haldi að sér höndum í gjaldeyriskaupum, og þar af leiðandi erlendum fjárfestingum. Það var gert eftir að formaður stjórnar Landsamtaka lífeyrissjóða, Guðrún Hafsteinsdóttir, fundaði með Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra 17. mars síðastliðinn. Samkomulagið er ekki bindandi heldur hvatning en í tilkynningu sem send var út vegna þess á sínum tíma sagði: „Sjóðirnir eru í eigu almennings og því mikilvægt að þeir sýni ríka samfélagslega ábyrgð þegar kemur til fjárfestinga og viðbragða í okkar samfélagi á óvissutímum.“
Lækkuðu í febrúar en tóku síðan kipp
Eignir kerfisins fóru yfir fimm þúsund milljarða króna í janúar 2020, en lækkuðu um 88 milljarða króna í febrúar. Það var í fyrsta sinn síðan í desember 2018 sem að eignir kerfisins drógust saman milli mánaða. Þá lækkuðu eignirnar um 100 milljarða króna en jukust svo aftur um 145 milljarða króna í næsta mánuði á eftir. Þar var því um mjög tímabundna niðursveiflu að ræða.
Eignirnar jukust svo aftur í marsmánuði þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn og þær miklu afleiðingar sem hann hafði. Þá hækkuðu eignirnar um 30,7 milljarða króna og voru metnar á 4.950 milljarða króna í lok þess mánaðar. Í apríl jukust þær síðan, líkt og áður sagði, um 223 milljarða króna.
Búast má við því að eignirnar hafi hækkað áfram í maí mánuði, þar sem alþjóðlegir hlutabréfamarkaðir héldu áfram að hækka. Auk þess hækkaði Úrvalsvísitala íslensku kauphallarinnar um 8,4 prósent í þeim mánuði.
Erlendu eignirnar aukast hratt
Alls eru 67 prósent eigna lífeyrissjóðanna innanlands. Frá því að fjármagnshöftum var lyft snemma árs 2017 hafa þeir þó í auknum mæli beint sjónum sínum að fjárfestingum utan landsteinanna, bæði til að auka áhættudreifingu sína og til að komast í fjölbreyttari fjárfestingar en þeim býðst á Íslandi. Hlutfall innlendra eigna lífeyrissjóðakerfisins var á þeim tíma 77 prósent og hefur því hlutfallslega dregist verulega saman.
Í apríl 2017, í kjölfar þess að höftunum var lyft, voru erlendar eignir kerfisins 786 milljarðar króna. Í dag eru þær rúmlega tvisvar sinnum meiri, eða 1.656,5 milljarðar króna. Frá byrjun árs í fyrra hafa þær aukist um 456 milljarða króna, eða um 38 prósent.