Útlán lífeyrissjóða í aprílmánuði námu 893 milljónum króna. Það er 13 prósent af þeirri upphæð sem sjóðirnir lánuðu út í mars, þegar þeir lánuðu alls rúmlega 6,6 milljarða króna. Þetta er minnsta fjárhæð sem lífeyrissjóðirnir hafa lánað út til húsnæðiskaupa frá októbermánuði 2015, þegar endurkoma þeirra inn á þann markað hófst að af alvöru samhliða því að nokkrir stórir sjóðir lækkuðu verulega vexti á lánum sínum, lánshlutfall var hækkað og lántökukostnaður lækkaður umtalsvert.
Þetta kemur fram í nýlegum tölum Seðlabanka Íslands um umsvif íslenska lífeyrissjóðakerfisins.
Samdrátturinn í apríl átti sér stað þegar samkomubann var í gildi á Íslandi vegna COVID-19 faraldursins og samfélagið allt í hægagangi. Það útskýrir því að öllum líkindum hann að mestu.
Útlán lífeyrissjóðanna höfðu þó dregist saman mánuði til mánaðar það sem af er ári. Í janúar lánuðu þeir til að mynda 11,6 milljarða króna en í mars höfðu útlánin tæplega helmingast. Útlánin í apríl voru síðan einungis 7,6 prósent af því sem þau voru í janúar.
Miklar breytingar á skömmum tíma
Lífeyrissjóðirnir hafa verið með sterk tök á húsnæðislánamarkaðnum frá því í október 2015. Þeir hafa getað boðið mun betri vaxtakjör en viðskiptabankar vegna þess að á þeim hvíla ekki eiginfjárkröfur né ýmsir sértækir bankaskattar, sem bankarnir hafa þurft að verðmeta inn í kjör sín. Fyrir þá sem gátu tekið lán hjá lífeyrissjóðum þá margborgaði það sig undanfarin ár. Viðskiptabankarnir voru einfaldlega ekki samkeppnishæfir í kjörum.
Þar af leiðandi jókst umfang þeirra lána sem lífeyrissjóðirnir lánuðu ár frá ári. Í fyrra var metár í útlánum til sjóðsfélaga þegar þeir lánuðu þeim í fyrsta sinn yfir 100 milljarða króna. Nánar tiltekið 101,6 milljarða króna.
Í fyrsta lagi hafa stýrivextir lækkað úr 4,5 í 1,0 prósent á einu ári, og þorri þeirrar lækkunar átti sér stað eftir að COVID-19 faraldurinn skall á í lok febrúar. Á þessu tímabili hefur Seðlabankinn líka aflétt tveggja prósenta sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki og búið er að samþykkja að lækka bankaskatt niður í 0,145 prósent í lok árs 2020. Þessar breytingar hafa gert það að verkum að viðskiptabankarnir skyndilega orðið samkeppnishæfir að nýju.
Bankarnir taka forystu á ný
Líkt og Kjarninn greindi frá í fréttaskýringu í lok maí þá er forskot lífeyrissjóðanna óðum að hverfa. Stóru viðskiptabankarnir þrír; Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, höfðu þá allir tilkynnt um umtalsverðar vaxtalækkanir í kjölfar síðustu stýrivaxtalækkunar. Með tilliti til verðbólgu eru óverðtryggð húsnæðislán viðskiptabankana því orðin þau hagstæðustu sem í boði eru ef frá eru talin húsnæðislán sem Birta lífeyrissjóður býður sjóðfélögum sínum, sem eru þau lægstu á markaðnum (2,1 prósent breytilegir óverðtryggðir vextir og 1,74 prósent breytilegir verðtryggðir vextir). Lán Birtu eru hins vegar að hámarki fyrir 65 prósent af kaupverði á meðan að bankarnir lána fyrir 70 prósent þess og standa einungis til boða fyrir þá sem hafa greitt í sjóðinn samfleytt í að minnsta kosti sex mánuði.
Þegar vaxtalækkanir bankana tóku gildi um síðustu mánaðamót voru breytilegir óverðtryggðir vextir á húsnæðislánum hjá Landsbankanum orðnir 3,50 prósent. Á sambærilegum lánum hjá Arion banka urðu vextirnir 3,54 prósent og hjá Íslandsbanka 3,70 prósent.
Verðbólgan mælist nú 2,6 prósent á ársgrundvelli. Haldist hún í sama horfinu er því ljóst að raunvextir eru orðnir lægstir á óverðtryggðum lánum bankanna, ef miðað er einvörðungu við þá sem lána 70 prósent af markaðsvirði hið minnsta. Í síðustu mælingum fór verðbólgan yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans í fyrsta sinn frá því í nóvember. Bankinn spáir því að hún verði undir markmiði á næstunni en ljóst er að óvissan er mikil.
Uppistaðan enn verðtryggð lán
Þangað til í apríl 2020 hafði það einungis gerst þrisvar að lífeyrissjóðir landsins hefðu lánað meira óverðtryggt en verðtryggt. Það gerðist fyrst í desember 2018 og svo aftur í janúar 2019. Síðast gerðist það í október í fyrra. Í öll skiptin var verðbólgan yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.
Það sem af er þessu ári höfðu lántakar hjá lífeyrissjóðunum hins vegar frekar tekið verðtryggð lán en óverðtryggð.
Í apríl voru hins vegar 83 prósent allra útlána lífeyrissjóða til sjóðsfélaga óverðtryggð lán. Það verður þó að taka tillit til þess að heildarútlán voru afar takmörkuð, eða einungis 893 milljónir króna.
Verðtryggð lán eru enn uppistaðan í útlánasafni sjóðanna, eða tæplega 78 prósent allra útlána þeirra eru slík lán.