Síðan danskt efnahagslíf fór að taka við sér í kjölfar kreppunnar eftir bankahrunið 2008 hefur mikið verið byggt í Kaupmannahöfn. Ekki veitir af því mikill skortur er á íbúðarhúsnæði í borginni. Það er reyndar ekki nýtilkomið ástand, hefur verið viðvarandi í áratugi. Einkum skortir litlar og meðalstórar íbúðir sem ungt og efnaminna fólk ræður við að kaupa, eða leigja.
Borgarstjórarnir (þeir eru sjö í Kaupmannahöfn) tala iðulega um að þennan vanda þurfi að leysa, en orðum þurfa að fylgja athafnir. Í lesendabréfum og aðsendum greinum í dönskum fjölmiðlum má iðulega lesa að í þeim efnum skorti nokkuð á.
Á allra síðustu árum hefur mikið verið byggt á svæðum þar sem áður var ýmis konar iðnaðar- og verksmiðjustarfsemi. Við ströndina á Amager hefur á fáum árum orðið til nýtt hverfi, sömu sögu er að segja um Norðurhöfnina þar sem Tuborg og fleiri stórfyrirtæki voru áður. Á Íslandsbryggju og í Suðurhöfninni hefur á síðustu árum verið mikið byggt og þar eru þúsundir nýrra íbúða. Sama gildir um vesturhluta Amager, þar hefur sprottið upp nýtt hverfi, blokkir og raðhús.
Þessi svæði eiga það nær öll sameiginlegt að íbúðirnar eru ekki það sem kalla má „ódýrar“.
Carlsberg-svæðið
Eitt nýju byggingarsvæðanna er Carlsberg-hverfið svonefnda í suðvesturhluta Kaupmannahafnar. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða svæðið þar sem Carlsberg verksmiðjurnar voru frá stofnun fyrirtækisins árið 1847 til ársins 2008 þegar framleiðslan var flutt til Fredericia á Jótlandi. Mörg önnur fyrirtæki voru á þessu svæði sem er samtals 33 hektarar á stærð en þau hafa öll flutt á brott eða hætt starfsemi.
Í myndbandinu hér að neðan má sjá fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu.
Níu turnar
Meðal þeirra bygginga sem gert hefur verið ráð fyrir á Carlsberg-svæðinu eru níu turnar, misháir. Sá hæsti verður 120 metrar á hæð en þeir lægstu 50 metrar. Þessum turnbyggingum verður, ef áætlanir standast, lokið árið 2024. Turnarnir eiga allir að bera nöfn og sömuleiðis er ætlunin að veggklæðningar þeirra verði í mismunandi litum. Einn verði gulur, annar gráleitur og svo framvegis.
Bohrs-turninn
Fyrstur þessara níu turna sem fyrirhugaðir eru á Carlsberg-reitnum, og sá eini sem er fullkláraður, ber nafn hins þekkta eðlisfræðings Niels Bohr. Bohrs-turninn. Byggingu hans var lokið árið 2017. Hann er 100 metrar á hæð, 29 hæðir. Á nokkrum neðstu hæðunum eru, eða verða, fyrirtæki og ennfremur skóli, en á þeim efri íbúðir, 88 talsins.
Í dönskum fjölmiðlum var allmikið fjallað um þessar fyrirhuguðu turnbyggingar og Carlsberg-reitinn. Þarna yrði allt gert með vönduðum hætti, turnarnir yrðu þeir glæsilegustu, og hæstu, sem sést hefðu í Kaupmannahöfn. Pasteurs-turninn sem á að vera fullgerður árið 2022 verður þeirra hæstur, mun skaga 120 metra upp í loftið. Þegar íbúðirnar í Bohrs-turninum voru auglýstar var fullyrt að annar eins lúxus hefði aldrei sést í Kaupmannahöfn.
Verðið var hins vegar ekki við alþýðu hæfi, eins og stundum er sagt, ódýrustu íbúðirnar kosta 6,6 milljónir króna (136 milljónir íslenskar) en þær dýrustu 14 milljónir (290 milljónir íslenskar). Þetta eru miklir peningar og hafi þeir sem stóðu að byggingunni ímyndað sér að slegist yrði um íbúðirnar hafa þeir ugglaust orðið fyrir vonbrigðum. Salan var strax frá upphafi mjög treg og þegar þetta er skrifað, þremur árum eftir að húsið var fullgert, eru enn margar íbúðir óseldar.
Meðal ljótustu bygginga í Kaupmannahöfn
Þeir sem fjalla um byggingalist í dönskum fjölmiðlum hafa ekki sparað stóru orðin varðandi Bohrs-turninn. Þeir eru sammála um að byggingin sé að flestu leyti misheppnuð. Þetta sé ferkantaður risakassi sem skagi upp í loftið, hliðarnar steindauðir fletir, sem ekki minnsta tilraun sé gerð til að brjóta upp. Allar íbúðirnar hafi glugga í tvær áttir, fyrir horn, þannig að hvergi sé gegnumbirta. Þetta sé mikill galli. „Auðvitað skiptir það ekki máli fyrir aðra en þá sem búa í húsinu hvort inni sé bjart eða ekki en mjög margir borgarbúar hafa þennan 100 metra háa kassa fyrir augunum, og sú sjón er ekki fögur,“ sagði blaðamaður Politiken í umfjöllum sinni og blaðamaður Berlingske talaði á sömu nótum.
Útveggjaplöturnar
Um aldaraðir var múrsteinn aðal byggingarefni danskrar húsagerðar, þeir uppgötvuðu aldrei dásemdir bárujárnsins! Á síðari árum hafa komið á markaðinn ýmis efni sem notuð eru til veggklæðninga þótt múrsteinninn standi alltaf fyrir sínu. Í dag eru forsteyptar veggjaeiningar algengar með einangrun að utan og svo eins konar vind- og regnkápu yst.
Ein gerð þessara klæðninga eru svonefndar MGO-plötur. Þegar þær komu á markaðinn í Danmörku árið 2010 þóttu þær hafa ýmsa kosti, þær voru ódýrar og léttar og þess vegna auðveldar í meðförum. Plöturnar, sem framleiddar eru í Kína, er hægt að fá í ýmsum litum, þykktir og stærðir mismunandi, allt eftir óskum kaupandans. Og þær brenna ekki. En það fylgdi böggull skammrifi.
Rakadrægar
Eins og áður sagði komu MGO-plöturnar á markaðinn í Danmörku árið 2010. Og urðu strax vinsælar til útveggjaklæðninga. Árið 2013 fór fólk að veita því athygli að engu var líkara en plöturnar „grétu“ eftir úrkomutíð. Það er að segja raki perlaði á plötunum. Nú fóru í hönd miklar rannsóknir. Og niðurstaðan var ekki beinlínis jákvæð. Í ljós kom að MGO-plöturnar, sem innihalda mikið saltefni, eru mjög rakadrægar sem ekki getur talist heppilegt í löndum þar sem úrkomu gætir. Sökum þess að þær soga í sig rakann gerist tvennt: bak við plöturnar myndast auðveldlega mygla og í öðru lagi linast plöturnar og missa styrk sinn og geta þess vegna auðveldlega molnað.
Eftir að þessar niðurstöður lágu fyrir árið 2015 var notkun MGO-platnanna, sem utanhússklæðningar, að mestu hætt í Danmörku en þá höfðu þúsundir húsa þegar verið klædd með þessum plötum. Mörg mál vegna notkunar MGO hafa ratað fyrir dómstóla, þar sem deilt hefur verið um ábyrgð.
Klæðningin á Bohrs-turninum
Fyrir skömmu fóru einhverjir að veita því athygli að rifur voru komnar í klæðninguna á Bohrs-turninum. Skömmu síðar fundust smá bútar úr klæðningunni á gangstétt skammt frá turninum. Þá var farið að rannsaka málið og í ljós kom að víða á turninum eru rifur í klæðningunni. Fyrirtækið sem sá um útveggjaklæðninguna neitar því að notaðar hafi verið MGO-plötur en ekki hefur þegar þetta er ritað fengist úr því skorið hvaða efni er í útveggjaklæðningunni.
Öryggisráðstafanir
Nokkurt svæði umhverfis Bohrs-turninn hefur nú verið girt af og íbúar turnsins og þeir sem þar vinna og stunda nám hvattir til að gæta ítrustu varúðar. Sérfræðingur sem dagblaðið Berlingske ræddi við sagði að það þyrfti ekki flókna útreikninga til að finna út hvað gerast myndi ef bútur á stærð við farsíma kæmi fljúgandi úr 50 -60 metra hæð í höfuð manns sem stæði á gangstétt við turninn.
Framhaldið
Eigendur turnsins hafa lýst því yfir að þeir muni leita réttar síns varðandi klæðninguna. Hvort endirinn verði sá að fjarlægja þurfi útveggjaklæðninguna af þessu hundrað metra háa húsi er á þessari stundu óljóst.