Sala eldsneytis hér á landi hefur dregist saman um milljarða það sem af er þessu ári samanborið við söluna á sama tíma í fyrra. Þetta sést í ársreikningum olíufélaganna. Bæði Festi, sem á og rekur N1 stöðvarnar, og Skeljungur skiluðu árshlutareikningum sínum fyrir fyrstu sex mánuði ársins núna fyrr í ágúst. Olíufélögin fara ekki varhluta af mikilli fækkun ferðamanna en erlend kortavelta í flokki bensíns og bílaviðgerða hefur lækkað töluvert á milli ára.
Eldsneytisverð aðeins lægra í ár
Tekjusamdráttur olíufélaganna af sölu eldsneytis skýrist að einhverju leyti af lægra útsöluverði eldsneytis. Meðaltal viðmiðunarverðs eldsneytis í eldsneytisvakt Kjarnans var á fyrstu sex mánuðum þessa árs rétt tæpar 208 krónur. Sú tala er um 6,5 prósentum lægri en meðalverð fyrstu sex mánaða síðasta árs en meðaltal fyrstu sex mánaða ársins 2019 var rúmlega 223 krónur á lítrann.
Eldsneytisverð var nokkuð svipað milli ára á fyrsta ársfjórðungi. Á öðrum ársfjórðungi var meðaltal viðmiðunarverðsins hins vegar rúmlega 12 prósentum lægra í ár heldur en í fyrra. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs var meðaltal viðmiðunarverðsins rúmar 200 krónur en í fyrra rétt tæpar 228 krónur. Líkt og sést í bensínvaktinni er álagning á öðrum ársfjórðungi þó hærri heldur en á sama tíma í fyrra.
40% samdráttur á öðrum ársfjórðungi
Í árshlutareikningi Festis, sem á og rekur N1 stöðvarnar, er sala á bæði eldsneyti og rafmagni færð saman til bókar. Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur Festi selt eldsneyti og rafmagn fyrir rúma 8,7 milljarða. Á sama tímabili í fyrra nam sala félagsins á eldsneyti og rafmagni tæpum 12 milljörðum. Tekjur félagsins af eldsneytis- og rafmagnssölu á fyrri hluta ársins er því um fjórðungi minni en á sama tíma í fyrra.
Hlutfallslegi munurinn er meiri ef einungis er horft til annars ársfjórðungs. Á öðrum ársfjórðungi nam sala félagsins á eldsneyti og rafmagni tæpum 4,2 milljörðum en á sama tíma í fyrra nam salan tæpum 6,7 milljörðum. Tekjusamdrátturinn í sölu eldsneytis og rafmagns á milli ára á öðrum ársfjórðungi nemur því tæpum 40 prósentum hjá félaginu.
Svipuð saga hjá Skeljungi
Svipaða sögu er að segja af eldsneytissölu Skeljungs. Tekjur félagsins af eldsneytissölu á fyrstu sex mánuðum ársins hefur dregist saman um tæp 30 prósent, úr tæpum 22,2 milljörðum í rétt tæpa 15,7 milljarða. Samdrátturinn á öðrum ársfjórðungi nemur hins vegar rúmum 40 prósentum. Á síðasta ári nam eldsneytissala félagsins á öðrum ársfjórðungi rúmum 12 milljörðum en á sama tíma í ár nemur salan tæpum 7,1 milljarði.
Inni í þessum tölum er sala á bensíni og dísil, flugvélaeldsneyti, skipaeldsneyti og loks öðru eldsneyti. Í þessum flokkum var mesti samdráttur í sölu á flugvélaeldsneyti. Á fyrstu sex mánuðum ársins dróst sala á flugvélaeldsneyti saman um tæpan helming, úr 1.790 milljónum niður í 955 milljónir. Sé einungis litið til annars ársfjórðungs nemur samdrátturinn tæpum 85 prósentum. Salan fór úr 1.173 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2019 niður í 181 milljón króna á sama fjórðungi þessa árs.
Erlend kortavelta horfin
Ljóst er að algjört hrun í komu ferðamanna til landsins í kjölfar kórónuveirufaraldursins hefur töluverð áhrif á eldsneytissölu olíufélaganna á bensínstöðvum þeirra. Hjá Rannsóknarsetri verslunarinnar er hægt að skoða mánaðarlega kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum. Enn sem komið er er einungis hægt að skoða kortaveltuna fyrir fyrstu fimm mánuði þessa árs en glögglega má sjá hversu miklu minna erlendir ferðamenn eyddu í apríl og maí á þessu ári miðað við í fyrra.
Á fyrstu fimm mánuðum ársins nam kortavelta erlendra ferðamanna í flokknum bensín, viðgerðir og viðhald bifreiða alls rúmlega 1.376 milljónum króna. Á sama tíma í fyrra nam veltan rétt rúmum 3.616 milljónum. Samdrátturinn á fyrstu fimm mánuðum ársins nemur því rúmlega 2,2 milljörðum króna á fyrstu fimm mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Það er samdráttur upp á rúmlega 60 prósent.
Fjöldi erlendra ferðamanna náði lágmarki hér í apríl og maí áður en fjöldinn fór aftur hækkandi í júní eftir að tekið var upp á því að skima komufarþega á landamærunum. Ef einungis er horft til kortaveltu í áðurnefndum flokki í mánuðunum apríl og maí þá sést að veltan fer úr rúmum 1.700 milljónum króna samtals í apríl og maí 2019 niður í rúmar 100 milljónir samtals í sömu mánuðum árið 2020.