„Það sem maður hefur áhyggjur af, bæði út frá peningastefnunni og fjármálastöðugleika, er að heimilin séu að skuldsetja sig of mikið á breytilegum vöxtum. Vonandi verðum við ekki með svona lága vexti til framtíðar. Það er kannski það sem maður hefur mestar áhyggjur af í dag varðandi miðlunina til heimila.“
Þetta sagði Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningamála í Seðlabanka Íslands, á blaðamannafundi sem haldinn var á miðvikudag í tilefni af nýlegri stýrivaxtaákvörðun.
Þar vísaði Rannveig til þess að gríðarleg aukning hefur orðið á töku óverðtryggðra húsnæðislána á breytilegum vöxtum síðustu mánuði, eftir að Seðlabankinn lækkaði stýrivexti sína í eitt prósent.
Stýrivextir aldrei verið lægri
Stýrivextir, sem stýra því hver vaxtakjör eru á húsnæðislánum, hafa lækkað hratt á Íslandi undanfarið rúmt ár til að bregðast fyrst við ætlaðri mjúkri lendingu efnahagskerfisins en síðan miklum samdrætti vegna áhrifa af heimsfaraldri COVID-19. Alls hafa stýrivextir lækkað um 3,75 prósent frá því í maí 2019 og eru í dag eitt prósent. Þeir hafa aldrei verið jafn lágir á Íslandi.
Vaxtalækkanir Seðlabankans eru til þess fallnar að örva eftirspurn í hagkerfinu við þær erfiðu aðstæður sem eru þar uppi nú. Lægri vextir gera það ódýrara að fá peninga lánaða og það hjálpar til við að halda hjólum atvinnulífsins gangandi á meðan að faraldurinn stendur yfir.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundinum á miðvikudag að það hefði gengið mjög vel að miðla vaxtalækkunum bankans til heimila. Viðbrögð þeirra við hvata til frekari lántöku á skaplegri kjörum hefði verið meiri en bankinn átti von á. Það ýti undir einkaneyslu. „Það hefur verið framar vonum.“
Eðlisbreyting á lánamarkaði
Skýrasta birtingarmynd þess að þessi miðlun vaxtalækkana til heimila hefur gengið vel er sú að óverðtryggðir húsnæðisvextir sem viðskiptabankarnir bjóða upp á urðu skyndilega mun hagstæðari en þorri þeirra lánakjara sem lífeyrissjóðir bjóða sjóðsfélögum sínum upp á.
Sá viðsnúningur hófst í maí og felur í sér eðlisbreytingu á húsnæðismarkaði, en lífeyrissjóðirnir höfðu samfellt boðið upp á mun betri kjör frá haustinu 2015 og lántakendur samhliða flykkst til þeirra.
Breytilegir óverðtryggðir vextir á húsnæðislánum Landsbankans og Íslandsbanka eru nú til að mynda 3,5 prósent. Á sambærilegum lánum hjá Arion banka verða vextirnir 3,54 prósent. Einu lánin í þessum flokki sem bera lægri vexti eru, eins og áður segir, hjá Birtu lífeyrissjóði. Lán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum hjá Birtu eru 2,10 prósent.
Umsvifaminnsti mánuður sjóða frá 2008
Þessi staða hefur skilað áframhaldandi hækkunum á húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að heimsfaraldur geisi. Í júnímánuði jukust hrein ný húsnæðislán til heimila um 23 prósent að raunvirði. Þar af voru ný óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum vöxtum 31 milljarður króna, að frádregnum uppgreiðslum.
Þessi aukning átti sér stað milli maí og júní þrátt fyrir að maímánuður hafi verið næst stærsti útlánamánuður bankanna hingað til. Ef júní 2020 er borið saman við sama mánuð í fyrra jukust útlán um 207 prósent milli ára, samkvæmt því sem fram kemur í nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).
Júnímánuður var á sama tíma sá umsvifaminnsti hjá lífeyrissjóðum í útlánum til sjóðsfélaga frá árinu 2008.
Hærri vextir=hærri afborganir
Eitt helsta markmið Seðlabanka Íslands er stöðugt verðlag. Frá 2001 hefur verðbólgumarkmið hans verið 2,5 prósent og víki verðbólga í 1,5 prósent í hvora átt frá því ber Seðlabankanum að gera ríkisstjórn Íslands opinberlega grein fyrir ástæðum þess og leita úrbóta.
Helsta tækið sem Seðlabankinn hefur til að takast á við vaxandi verðbólgu eru hækkun á stýrivöxtum. Ef aðstæður skapast þar sem bankinn telur sig þurfa að hækka vexti þá mun það fljótt hafa áhrif á breytilega vexti húsnæðislána til hækkunar.
Þá kemur í ljós hvort að sá stóri hópur lántakenda sem hefur fært sig í slíkt lánaform á síðustu vikum og mánuðum muni ráða við þær sveiflur sem fylgja því ef afborganir af láninu hækka hratt.