Í tilkynningu varnarmálaráðuneytisins, sem birt var að morgni mánudagsins 24. ágúst kom fram að þrem dögum fyrr hefði Lars Findsen, yfirmaður leyniþjónustu danska hersins, FE, ásamt tveimur háttsettum starfsmönnum embættisins sem ekki hafa verið nafngreindir, verið leystur frá störfum. Auk þremenninganna var Thomas Ahrenkiel, ráðuneytisstjóri varnarmálaráðuneytisins, og þangað til síðastliðinn mánudag, tilvonandi sendiherra Dana í Þýskalandi, sendur heim. Þótt tilkynningin hafi verið stutt og án útskýringa fór ekki á milli mála að eitthvað alvarlegt byggi að baki.
Rúmum klukkutíma eftir að hin stuttorða tilkynning birtist sendi ráðuneytið frá sér aðra tilkynningu. Þar var var greint frá því að í langri og yfirgripsmikilli skýrslu TET, Eftirlitsstofnunar beggja dönsku leyniþjónustanna, hersins, FE, og lögreglunnar, PET, til ráðuneytisins hefðu komið fram alvarlegar ásakanir um misbresti í starfsemi leyniþjónustu hersins. Síðar þennan sama dag birti ráðuneytið enn eina tilkynningu, þar var starfsfólki FE hrósað og undirstrikað að stofnunin gegndi afar mikilvægu hlutverki. Verkefni FE snúa að upplýsingaöflun erlendis, hernaðarlegu öryggi og netöryggi (PET gætir innra öryggis og upplýsingaöflun innan Danmerkur).
Trine Bramsen varnarmálaráðherra var einkar varfærin þegar hún ræddi stuttlega við fréttamenn, sagði aðeins að um væri að ræða mál sem hún liti alvarlegum augum.
Eftirlitsstofnunin TET
Eftirlitsstofnunin TET (Tilsynet med Efterretningstjenesterne) tók til starfa í ársbyrjun 2014, leysti þá af hólmi eldri stofnun (Wamberg udvalget) sem hafði starfað frá árinu 1964. Áður en TET tók til starfa hafði FE (að talið var) brotið gegn dönskum lögum, til dæmis með söfnun upplýsinga um danska ríkisborgara.
TET er ekki mikið „batterí“ þar sitja fimm manns, skipaðir af dómsmálaráðherra í samvinnu við varnarmálaráðherrann. Formaðurinn er skipaður samkvæmt tilnefningu landsréttanna, Eystri og Vestri, og skal vera landsréttardómari. Auk þess örfáir starfsmenn.
Svo er það eftirlitsnefnd þingsins
Fyrir utan áðurnefnda eftirlitsstofnun (TET) sem ekki starfar á vegum þingsins, er sérstakri þingnefnd (Folketingets kontroludvalg) ætlað að hafa eftirlit og fylgjast með leyniþjónustunum. Sú nefnd hefur sérstöðu innan þingsins því hún hefur sérstaka heimild til að fá, takmarkaðar þó, upplýsingar um verkefni beggja leyniþjónustanna. Nefndarmenn eru bundnir trúnaði og þagnarskyldu og verði þeir uppvísir að „leka“ mega þeir búast við lögsókn og fangelsisdómi.
Fundir eru boðaðir með hnippingum en hvorki í síma né tölvupósti. Í nefndinni sitja fimm þingmenn, fulltrúar fimm fjölmennustu þingflokkanna. Claus Hjort Frederiksen, þingmaður Venstre og fyrrverandi varnarmálaráðherra, hefur undanfarið gegnt formennsku í nefndinni en hann sagði af sér eftir að tilkynning varnarmálaráðuneytisins var birt síðastliðinn mánudag. Ástæðuna sagði hann þá að færi svo að eftirlitsnefndinni yrði falin rannsókn á vinnubrögðum leyniþjónustu hersins (FE), sem ráðherra hefur nú boðað, væri ekki heppilegt að hann sem fyrrverandi varnarmálaráðherra sæti í nefndinni, hvað þá sem formaður.
Á sér langan aðdraganda
Vitað var að Eftirlitsstofnunin TET hafði um langt skeið unnið að sérstakri rannsókn á starfsemi og vinnubrögðum Leyniþjónustu hersins (FE). Þessi rannsókn fór fram með mikilli leynd og það var ekki fyrr en síðar sama dag og yfirmaður FE, ráðuneytisstjórinn og tveir háttsettir embættismenn höfðu verið sendir heim að TET leysti frá skjóðunni.
Þá kom fram að FE hefði tileinkað sér óviðeigandi umgengni við lögin, ekki sinnt ábendingum sem væru þess eðlis að rannsókn hefði verið nauðsynleg. Enn fremur var í yfirlýsingu TET sagt, undir rós, að FE hefði stundað njósnir um einn starfsmanna TET. Í yfirlýsingunni segir enn fremur að FE hefði dreift upplýsingum um danska ríkisborgara en slíkt er bannað með lögum. Allt var þetta alvarlegt en danskir fjölmiðlar töldu sig vita að eitthvað fleira héngi á spýtunni. Sem reyndist rétt.
Samvinna við NSA og viðbrögð ráðherra
Síðastliðinn fimmtudag, 27. ágúst, greindi Danska útvarpið, DR, frá náinni samvinnu FE og National Security Agency (NSA) einni stærstu, ef ekki stærstu, leyniþjónustu Bandaríkjanna. FE hafði heimilað NSA aðgang að flutningslínum tölvugagna (ljósleiðara) en sá aðgangur gerir NSA mögulegt að fylgjast með símtölum, sms skilaboðum og tölvupósti. Sem sé öllum rafrænum sendingum og samskiptum dönsku þjóðarinnar.
Þótt FE hafi heimild danskra stjórnvalda til samvinnu við erlendar leyniþjónustur nær þessi galopni aðgangur NSA að samskiptaupplýsingum langt út fyrir þau mörk. Og að líkindum ástæða þess að Trine Bramsen varnarmálaráðherra brást svo hart við eftir að hafa lesið skýrslu Eftirlitsstofnunarinnar, TET. Hún hefur sagt að farið verði ítarlega í saumana á starfsemi PE, Mette Frederiksen forsætisráðherra hefur talað á sömu nótum og sömuleiðis margir þingmenn. Stjórnmálaskýrandi DR, sagði að þetta mál yrði líklega mesti skandall í sögu danskrar leyniþjónustu, á síðari tímum.
Lars Findsen
Eins og fram kom í upphafi þessa pistils var Lars Findsen yfirmaður FE sendur heim um síðustu helgi. Eftir umfjöllun danskra fjölmiðla undanfarna daga kannast líklega margir Danir við nafnið þótt þeir hefðu tæpast áður heyrt manninn nefndan.
Lars Findsen er 55 ára, lögfræðingur að mennt. Árið 1990 hóf hann störf sem fulltrúi hjá dönsku persónuverndinni (Datatilsynet). Eftir að hafa síðan um nokkurra ára skeið unnið í danska dómsmálaráðuneytinu var hann árið 2002 gerður að yfirmanni dönsku leyniþjónustunnar, PET. Þeirri stöðu gegndi hann til ársins 2007 þegar hann varð ráðuneytisstjóri varnarmálaráðuneytisins.
Í september árið 2009 reyndi varnarmálaráðuneytið að hindra útgáfu bókarinnar „Jæger i krig med eliten“ sem Thomas Rathsack, fyrrverandi hermaður í Írak og Afganistan, hafði skrifað. Dagblaðið Politiken lét hins vegar prenta bókina og lét hana fylgja prentútgáfu blaðsins 15. september 2009. Ástæða þess að ráðuneytið vildi hindra útgáfu bókarinnar var, að sögn ráðherra, að í henni kæmi fram ýmislegt sem gæti gagnast óvinum Danmerkur og Nato.
Á fréttamannafundi sagði Søren Gade varnarmálaráðherra að bókin hefði þegar verið gefin út á arabísku, þannig að greinilega væri innihaldið „eldfimt“ eins og hann komst að orði. Síðar kom í ljós að léleg arabísk þýðing bókarinnar hafði verið unnin í danska varnarmálaráðuneytinu. Søren Gade sagði af sér nokkrum mánuðum síðar, en Lars Findsen ráðuneytisstjóri sat áfram á sínum stól. Í mikilli embættismannahringekju árið 2015 fluttist Lars Findsen í yfirmannsstól PE. Nú situr hann heima og starir á gólffjalirnar, eins og eitt dönsku blaðanna komst að orði.
Thomas Ahrenkiel
Eins og áður var nefnt voru þrír starfsmenn FE sendir heim sl. mánudag. Fjórði maðurinn sem fékk skipun um að koma sér heim var Thomas Ahrenkiel. Þótt margir kannist kannski ekki við manninn er hann ekki einhver „Jón úti í bæ“.
Thomas Ahrenkiel er 53 ára, stjórnmálafræðingur að mennt. Hann á að baki langan starfsaldur innan stjórnsýslunnar, í forsætisráðuneytinu, sendiráði Danmerkur í London og Brussel.
Árið 2010 varð Thomas Ahrenkiel yfirmaður leyniþjónustu hersins, FE, og gegndi þeirri stöðu til ársins 2015. Danskir fjölmiðlar hafa nú undanfarna daga rifjað upp ýmislegt varðandi störf hans hjá FE og þar kennir ýmissa grasa. Hann var sakaður um að fylgjast illa með, láta hlutina dankast og stinga undir stól ýmsum mikilvægum málum. Dagblaðið Information fjallaði ítarlega um störf hans árið 2015 en þá var Thomas Ahrenkiel gerður að ráðuneytisstjóra í varnarmálaráðuneytinu. Sú staða er við efsta þrep í virðingarstiga dönsku stjórnsýslunnar.
Fréttnæmt þótti að árið sem Thomas Ahrenkiel varð ráðuneytisstjóri sat hann fund þar sem fjallað var um launamál þáverandi unnustu hans, og núverandi eiginkonu. Ekki stórmál en lýsir siðleysi sögðu danskir fjölmiðlar.
Í desember á síðasta ári kom upp alvarlegt svindlmál í stofnun sem fer með eignaumsýslu varnarmálaráðuneytisins, þar á meðal hersins. Við rannsókn kom í ljós að Thomas Ahrenkiel ráðuneytisstjóri hafði látið allar viðvaranir og ábendingar sem vind um eyru þjóta. Tveir embættismenn „sátu hins vegar með apann“ en ráðuneytisstjórinn sat áfram.
Vitað er að núverandi varnarmálaráðherra, Trine Bramsen, hafði um skeið leitað leiða til að losna við Thomas Ahrenkiel úr stóli ráðuneytisstjóra. Í byrjun ágúst var tilkynnt um nýjan ráðuneytisstjóra og að Thomas Ahrenkiel yrði sendiherra Danmerkur í Berlín, einu mikilvægasta sendiráði Dana.
Margir þingmenn hafa í viðtölum lýst undrun á þeirri ákvörðun og talið hana í meira lagi undarlega. Skipun Thomasar Ahrenkiel í starf sendiherra var afturkölluð fyrir nokkrum dögum og eins og Lars Findsen situr hann nú heima, hvorki ráðuneytisstjóri né tilvonandi sendiherra.