Hneyksli á hneyksli ofan skekja nú einn áhrifamesta mann meðal trúaðra íhaldsmanna í Bandaríkjunum, Jerry Falwell yngri. Á dögunum sagði hann af sér sem forseti Liberty háskóla í Virginíu en hann hefur gegnt þeirri stöðu frá árinu 2007 er hann tók við keflinu af föður sínum sem stofnaði skólann. Afsögn Falwell yngri kemur í kjölfar fréttaflutnings af ástarþríhyrningi milli Falwell hjónanna og Giancarlo Granda nokkurs sem staðið hafði yfir í nokkur ár. Fyrr í mánuðinum hafði Falwell ákveðið að stíga til hliðar sem forseti Liberty háskóla vegna myndar sem hann birti á Instagram og þótti ósæmileg.
Afsögn Falwells kemur í kjölfar umfjöllunar Reuters af áðurnefndum ástarþríhyrningi milli Falwell hjónanna og Giancarlo Granda. Í viðtali við Reuters segir Granda frá því að hann hafi fyrst hitt þau Becki og Jerry Falwell í mars árið 2012 á Fontainebleau hótelinu á Miami Beach, þá tvítugur. Á þeim tíma hafi hann starfað á hótelinu sem sundlaugarvörður. Samband á milli þeirra þriggja hafi hafist í þeim sama mánuði og staðið allt til ársins 2018.
Í viðtalinu segir Granda frá því hvernig sambandi þeirra þriggja var háttað. Hann hafi stundað kynmök með Becki á meðan Jerry hafi fylgst með. Frásögn sína studdi Granda með því að sýna blaðamönnum Reuters tölvupósta og sms skilaboð. „Við Becki þróuðum með okkur náið samband og Jerry naut þess að horfa á okkur úr horni herbergisins,“ sagði Granda í samtali við blaðamenn Retuers. Þau hafi hist þrjú saman oft á ári, ýmist á hótelum í Miami og New York sem og á heimili Falwell hjónanna í Virginíu.
Á endanum trosnaði upp úr vináttunni milli Granda og Falwell hjónanna, hann vildi ekki halda áfram að hitta þau undir sömu formerkjum auk þess sem deilur hefðu sprottið upp í fyrirtækjarekstri sem þau stóðu þrjú saman að.
Voru einnig viðskiptafélagar
Granda komst fyrst í kastljósið fyrir tveimur árum síðan þegar BuzzFeed fjallaði um deilur Falwell hjónanna og Granda vegna viðskipta sem þau stóðu saman í. Þau höfðu þá keypt farfuglaheimili í Miami sem einkum var ætlað ungum ferðalöngum. Í umfjöllun BuzzFeed var haft eftir talsmanni Falwell fjölskyldunnar að Granda hefði verið boðinn hlutur í farfuglaheimilinu vegna þess að hann væri búsettur í Miami og hann myndi sjá um rekstur þess.
Þegar megindrættir upphaflegrar umfjöllunar Reuters voru bornir undir Falwell hjónin tjáði lögmaður þeirra sig fyrir þeirra hönd og sagði þau neita öllu því sem þar væri haldið fram. Nokkrum dögum síðar, um það leyti sem Reuters ætlaði að birta sína umfjöllun birtist yfirlýsing frá Jerry Falwell í Washington Examiner. Þar sagði hann eiginkonu sína hafa átt í leynilegu ástarsambandi við Granda og að hann hafi ætlað að kúga út úr hjónunum fé. Þessu neitar Granda, hann hafi einungis átt í viðræðum við þau um viðskiptaleg erindi.
Í yfirlýsingu sinni fjallaði Jerry Falwell ekki um ásakanir Granda á hendur honum, að hann hafi setið og fylgst með atlotum Becki Falwell og Granda. Öllu heldur sagði hann sig ekki hafa komið þar að. „Becki átti í óviðeigandi persónulegu sambandi við þennan einstakling, eitthvað sem ég var ekki viðriðinn,“ sagði í yfirlýsingu hans.
Beraði bumbuna á Instagram
Falwell sagði af sér sem forseti Liberty háskóla í kjölfar umfjöllunarinnar um ástarævintýri þeirra hjóna og Giancarlo Granda. Vandræði hans innan veggja háskólans voru þá þegar hafin. Í fyrri hluta mánaðar fór Falwell í leyfi frá háskólanum vegna myndar sem hann birti á Instagram og eyddi skömmu síðar.
Á myndinni umdeildu eru buxur Falwells fráhnepptar auk þess sem hann hefur dregið stuttermabol sinn upp yfir kviðinn. Slíkt hið sama gerir kona sem stendur honum við hlið. Falwell sagði síðar að um misheppnað grín væri að ræða og að konan sem stæði við hlið hans væri aðstoðarkona eiginkonu sinnar, en aðstoðarkonan er barnshafandi.
Það sem vekur athygli við afsögn Falwells, samkvæmt skýringu Washington Post, er sú staðreynd að hann virðist hafa verið ósnertanlegur meðal evangelista um nokkurt skeið. Það kunni að helgast af því að bæði kemur hann úr áhrifamikilli fjölskyldu auk þess sem hann á í góðu sambandi við ýmsa áhrifamenn úr bandarísku þjóðlífi. Þar er kannski merkastur Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, en forsetinn nýtur mikils stuðnings hvítra evangelista í Bandaríkjunum. Þennan stuðning getur forsetinn að einhverju leyti þakkað Falwell.
Naut aðstoðar frá Michael Cohen
Nýlegar ásakanir Granda hafa endurvakið áhuga á ummælum Michael Cohens, fyrrum lögmanns Trumps, frá því í maí í fyrra. Þá sagðist hann hafa aðstoðað Falwell nokkrum árum áður vegna tilraunar til fjárkúgunar. Þá hafi einhver hótað Falwell því að koma ósæmilegum myndum í dreifingu. Það hefði Falwell hins vegar getað stöðvað með því að reiða fram fé.
Í skýringu Washington Post segir að Falwell hafi staðfest það við miðilinn að hann hafi notið aðstoðar Cohen. Hins vegar gaf hann ekkert upp um hver það var sem átti að hafa komist yfir myndirnar ósæmilegu, Cohen hafi haft samband við lögmenn viðkomandi og hótað því að alríkislögreglan, FBI, tæki málið upp ef myndirnar yrðu opinberaðar. „Þetta voru ekki nektarmyndir,“ sagði Falwell í samtali við Washingon Post, „þetta voru bara myndir af eiginkonu minni. Ég var stoltur af útliti hennar.“
Washington Post hafði líka samband við Cohen sem hafi gefið það í skyn að Granda hafi verið viðriðinn málið. Hann hafi haft samband við lögmann Granda til þess að „sjá til þess að myndirnar kæmu ekki fyrir augu almennings.“ Talsmaður Granda sagði lögmann hans ekki hafa rætt við Cohen á sínum tíma.
Skömmu eftir að Cohen aðstoðaði Falwell við að koma í veg fyrir myndbirtinguna bað hann Falwell hjónin um greiða, Trump þurfti þeirra aðstoð að halda í kosningabaráttunni. Jerry Falwell lýsti yfir stuðningi við Donald Trump þegar baráttan um forval repúblikana stóð sem hæst og hefur Falwell verið öflugur og hávær stuðningsmaður forsetans æ síðan. Í greiningu Washington Post er stuðningur Falwell hjónanna sagður hafa valdið straumhvörfum í baráttu Trumps. Stuðningur evangelista við Trump í forvali repúblikana hafi aukist gífurlega á kostnað annarra frambjóðanda, þökk sé Falwell hjónunum.