Það er engin leið að hætta (að syngja) segir í þekktu lagi Stuðmanna. Lars Løkke Rasmussen þekkir líklega ekki þetta vinsæla lag en gæti hins vegar tekið undir viðlagið. Í nýrri bók hans „Om de fleste og det meste“ sem kom út fyrir viku, og viðtölum vegna útkomu hennar, kemur glögglega í ljós að Løkke er mjög ósáttur við hvernig formannstíð hans í Venstre lauk í fyrrahaust. Og gengur illa að sætta sig við að vera ekki lengur í innsta hring stjórnmálanna.
26 ár á þingi
Lars Løkke Rasmussen (oftast kallaður Løkke til aðgreiningar frá tveimur forverum sínum á forsætisráðherrastóli) er 56 ára og 21. september næstkomandi verða 25 ár síðan hann settist á þing. Hann var kosinn varaformaður Venstre árið 1998 og var innanríkis- og heilbrigðisráðherra frá 2001 til 2007. Þá settist Løkke í fjármálaráðuneytið en 5. apríl 2009 tók hann við forsætisráðuneytinu, og formennsku í Venstre, af Anders Fogh Rasmussen, sem varð framkvæmdastjóri NATO.
Stjórnarandstaða, flugmiðar, nærbuxur og dvínandi vinsældir
Eftir þingkosningarnar í september 2011 tók stjórn jafnaðarmanna, undir stjórn Helle Thorning-Schmidt, við völdum. Lars Løkke kunni illa við sig í stjórnarandstöðunni og lýsti því margoft yfir að Helle Thorning væri bara með lyklana að stjórnarráðinu í tímbundnu láni, hún myndi þurfa að skila þeim eftir næstu kosningar.
Á stjórnarandstöðuárunum 2011 -2015 varð Lars Løkke margoft umfjöllunarefni fjölmiðla. Haustið 2013 hélt hann lengsta fréttamannafund í sögu Danmerkur, sá stóð í þrjár og hálfa klukkustund og var sendur út í sjónvarpi og útvarpi. Lars Løkke var formaður samtaka sem styðja við efnahagsuppbyggingu í fátækum löndum en samtökin höfðu borgað flugmiða og hótelgistingu fyrir dóttur hans. Eftir þennan langa fréttamannafund, um flugmiðann og gistinguna, voru þeir sem fylgdust með litlu nær.
Skömmu síðar kom upp mál sem mikið var fjallað um í dönskum fjölmiðlum. Það mál snerist um að Venstre (sem er hægri miðjuflokkur) hefði borgað fatnað formannsins, sem hefur í klæðaburði aldrei þótt líta út eins og klipptur úr tískublaði. Fjölmiðlarnir kölluðu þetta „nærbuxnamálið“. Lars Løkke sem verið hafði vinsælasti stjórnmálamaður Danmerkur var skyndilega orðinn sá óvinsælasti. Margir í forystu Venstre höfðu áhyggjur af ástandinu enda kjörtímabilið meira en hálfnað.
Byltingartilraunin og fundurinn í kjallaranum
Í júníbyrjun 2014 hélt miðstjórn Venstre fund í Óðinsvéum. Þar átti að kjósa formann. Lars Løkke hafði fengið veður af því að Kristian Jensen varaformaður og stuðningsmenn hans hygðust láta til skarar skríða og velta formanninum, Lars Løkke, úr sessi. Litlir kærleikar voru með formanninum og varaformanninum og Lars Løkke mátti ekki til þess hugsa að Kristian Jensen settist í formannsstólinn. Áður en kom að formannskosningunni brugðu þeir Lars Løkke og Kristian Jensen sér, ásamt þriðja manni, niður í kjallara í ráðstefnuhúsinu. Þegar þeir komu aftur upp úr kjallaranum var Kristian Jensen hættur við formannsframboðið og lýsti yfir stuðningi við Løkke. Með lygamerki á puttunum sagði Ekstra Blaðið. Kristian Jensen var áfram varaformaður og byltingartilraunin úr sögunni.
Aftursætisbílstjórinn og nýjar hugmyndir Lars Løkke
Eftir þingkosningarnar 2015 tók minnihlutastjórn Venstre við völdum og sat fram að kosningum 2019. Lars Løkke var forsætisráðherra og Kristian Jensen utanríkisráðherra, og síðar fjármálaráðherra. Tveir minni flokkar, Íhaldsflokkurinn og Frjálsræðisbandalagið gengu síðar formlega til liðs við stjórnina, sem var þó áfram minnihlutastjórn. Sú sérkennilega staða var á þessu kjörtímabili að Danski Þjóðarflokkurinn næst stærsti flokkurinn á þingi (37 þingmenn) vildi ekki eiga aðild að ríkisstjórn Venstre (sem hafði 34 þingmenn) en stjórnaði úr ,,aftursætinu“ eins og fjölmiðlarnir komust iðulega að orði. Stjórnin varð nánast að sitja og standa eins og Danska Þjóðarflokknum þóknaðist. Margir stuðningsmenn Danska Þjóðarflokksins voru óánægðir með flokksforystuna og í kosningunum 2019 galt flokkurinn afhroð, fékk 16 þingmenn, tapaði 21 manni frá kosningunum 2015. Draumur Lars Løkke um áframhaldandi stjórnarsetu var fyrir bí.
Ólga og átök
Í aðdraganda kosninganna vorið 2019 nefndi Lars Løkke að kannski væri kominn tími til að hugsa dönsk stjórnmál upp á nýtt. Flokkarnir á danska þinginu, Folketinget, skiptast í tvær „blokkir“ bláa og rauða. Þeirri bláu tilheyra hægri flokkarnir svonefndu en vinstri flokkarnir þeirri rauðu. Utan blokkanna stendur Danski Þjóðarflokkurinn sem hefur stutt ríkisstjórnir bláu blokkarinnar. Það var þessi blokkaskipting sem Lars Løkke velti fyrir sér hvort kominn væri tími til að brjóta upp. Vinna yfir miðjuna eins og hann komst að orði. Þessar hugmyndir féllu í grýttan jarðveg hjá mörgum flokksmönnum Venstre og Mette Frederiksen leiðtogi jafnaðarmanna, lang stærsta flokks rauðu blokkarinnar, aftók slíka samvinnu.
7. ágúst 2019 birti dagblaðið Berlingske langt viðtal við Kristian Jensen varaformann Venstre. Þar vísaði hann hugmyndum Lars Løkke um að „vinna yfir miðjuna“ á bug. Á árlegum þingflokksfundi Venstre, svokölluðu „sommermøde“, 9. ágúst 2019 gagnrýndi Claus Hjort Frederiksen, einn helsti áhrifamaður flokksins ummæli Kristian Jensen og sagði berum orðum að varaformaðurinn ætti að segja af sér. Kristian Jensen beygði sig í duftið, lýsti yfir stuðningi við Lars Løkke án þess þó að draga yfirlýsingar sínar í áðurnefndu blaðaviðtali til baka. Danskir stjórnmálaskýrendur sögðu greinilegt að allt væri uppíloft hjá Venstre.
Lars Løkke gengur á dyr og dregur Kristian Jensen með sér
Á fundi Venstre 30. ágúst 2019 var hart tekist á. Seint um kvöldið var fundinum frestað til næsta morguns. Niðurstaða þess fundar var að boða til landsfundar 21. september, þar yrði eitt mál á dagskrá: kosning formanns og varaformanns. Lars Løkke vildi fá að flytja landsfundinum skýrslu (beretning) um formannsstörf sín. Þeirri kröfu var hafnað. Lars Løkke fann hvernig landið lá, tilkynnti afsögn sína og gekk á dyr, bakdyramegin og var á bak og burt áður en fundarmenn höfðu áttað sig. Kristian Jensen varaformaður tilkynnti sömuleiðis um afsögn sína, draumur hans um formennsku í Venstre var að engu orðinn.
Jakob Ellemann-Jensen
Þótt Lars Løkke væri horfinn á braut fór landsfundur Venstre fram 21. september í fyrra eins og ákveðið hafði verið. Þar var Jakob Ellemann-Jensen kjörinn formaður og Inger Støjberg varaformaður. Hún er mjög umdeild og þessa dagana fer fram sérstök rannsókn vegna ákvarðana, og fyrirskipana, hennar í ríkisstjórn Lars Løkke en þar var hún ráðherra innflytjendamála. Sú saga verður ekki rakin hér. Innan Venstre höfðu margir efasemdir um val Inger Støjberg en það er líka önnur saga.
Om de fleste og det meste
Eins og getið var um í upphafi þessa pistils kom bók Lars Løkke, sem er 56 ára, með ofangreindum titli í bókabúðir fyrir viku síðan. Bókarinnar, sem vitað var að væri væntanleg, var beðið með nokkurri eftirvæntingu. Athygli vakti að í útgáfuteiti vegna bókarinnar mætti einungis einn þingmaður Venstre.
Í þessari nýju bók fer Lars Løkke yfir atburðarásina sem leiddi til afsagnar hans, en bókarýnendur dönsku fjölmiðlanna segja hann líka hlaupa yfir margt, sleppa því að greina frá alls kyns baktjaldamakki og ótal símtölum út og suður. Í tilefni bókarinnar tók blaðamaður Berlingske langt viðtal við Lars Løkke og spurði hann hvers vegna hann greindi ekki ítarlegar frá þessum málum. Lars Løkke svaraði því til að særindin og reiðin vegna þess sem gerðist væru enn lokuð, með andlegum hengilás, eins og hann komst að orði, inni í svörtu boxi í heilanum. „Ég vona að enginn neyði mig nokkru sinni til að opna þetta box“.
Það er engin leið að hætta
Þótt frásögn Lars Løkke af því hvernig formannstíð hans í Venstre lauk hafi vakið athygli margra Dana var þó annað í bókinni sem vakti enn meiri athygli. Þar lætur hann nefnilega að því liggja, án þess þó að segja það beint, að hann velti því fyrir sér að snúa aftur í framlínu stjórnmálanna. Hann segist enn sannfærður um að hugmyndir sínar um samvinnu „yfir miðjuna“ séu vænlegur kostur, þrátt fyrir að núverandi formaður Venstre hafi aftekið slíkt.
Margir í hópi núverandi, og fyrrverandi þingmanna Venstre hafa lýst undrun sinni á ýmsu því sem fram kemur í bókinni og segja Lars Løkke beinlínis reyna að grafa undan núverandi formanni flokksins, Jakob Ellemann-Jensen. Bertel Haarder, fyrrverandi ráðherra og einn af þungavigtarmönnum flokksins, sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að Lars Løkke geti verið stoltur af verkum sínum og í stað þess að þyrla upp moldviðri eigi hann að setjast glaður á „fyrrverandiformannabekkinn, það er góður félagsskapur“.
Sumir af dyggustu stuðningsmönnum Lars Løkke vilja ekki tjá sig mikið um bókina. Birthe Rønn Hornbæk fyrrverandi ráðherra kom sér hjá því að svara spurningu blaðamanns Berlingske með því að segja að hún væri ekki búin að fá bókina senda í pósti.
Allra mesta athygli í bókinni vekur það sem ekki er sagt. Spurningunni um það hvort, ef hann snúi til baka í framlínu stjórnmálanna, muni hann reyna að komast til valda í flokknum á nýjan leik, eða kannski stofna nýjan flokk, svarar Lars Løkke ekki. Blaðamenn hafa gengið á hann en öll slík mál neitar Lars Løkke að ræða. Athyglisvert er að hann neitar ekki afdráttarlaust að til greina komi að stofna nýjan flokk. Segir einungis að brátt líði að því að hann þurfi að taka ákvörðun um framtíð sína. Rétt er að geta þess að Lars Løkke er enn þingmaður Venstre.
Thomas Larsen, stjórnmálaskýrandi Berlingske sagði í umfjöllun sinni um bókina að í henni gæfi Lars Løkke ýmislegt til kynna um framtíðina, og ljóst væri að hann ætli sér ekki að sitja með hendur í skauti. „Ef hann ákveður á endanum að gera ekki neitt er það eitt mesta pólitíska sjálfsmark í seinni tíð“.
Bertel Haarder sagðist í blaðaviðtali ekki trúa því að fyrrverandi formaður Venstre gripi til þess ráðs að stofna nýjan flokk „ég neita algjörlega að trúa að það geti gerst“. Flestir innan Venstre taka í sama streng, en einn þingmaður sagði „ég ætla ekki að veðja, þegar Lars Løkke er annarsvegar veit maður aldrei“.