Icelandair Group hefur átt í miklum rekstrarvanda undanfarna mánuði. Alls nam tap samstæðunnar um 45 milljörðum króna á fyrri hluta ársins 2020. Stærstan hluta þess taps, sem nemur 245 milljónum króna á dag, má rekja beint til kórónuveirufaraldursins. Fyrir lá að félagið átti ekki nægt laust fé til að lifa mikið lengur við óbreyttar aðstæður.
Síðustu mánuði hefur Icelandair Group því róið lífróður og undirbúið það að sækja sér nýtt hlutafé til að standa af sér yfirstandandi storm. Hlutafjárútboðinu hefur nokkrum sinnum verið frestað á meðan að stjórnendur Icelandair hnýttu aðra lausa enda til að gera þátttöku í því eftirsóknarverðari. Útboðið fór loks fram í síðustu viku. Hér að neðan eru helstu staðreyndir um niðurstöðu þess.
1. Þátttaka umfram væntingar
Icelandair Group ætlaði sér að safna að minnsta kosti 20 milljörðum króna í útboðinu. Hægt yrði að hækka þá fjárhæð í 23 milljarða króna ef umframeftirspurn yrði.
Alls bárust yfir níu þúsund áskriftir upp á alls 37,3 milljarða króna. Umframeftirspurn var því 85 prósent, bæði frá fagfjárfestum og almennum fjárfestum. Nýjum hlutum mun líka fylgja 25 prósent áskriftarréttindi, eða sem nemur 5,75 milljörðum hluta. Það þýðir að hver og einn sem keypti mun geta bætt við sig 25 prósent af því sem viðkomandi skráði sig fyrir í viðbót á sama gengi og var í hlutafjárútboðinu, en það var ein króna á hlut.
2. Þurfa að borga í vikunni
Stjórn Icelandair Group ákvað að samþykkja ekki allar áskriftir, heldur einungis fyrir 30,3 milljarða króna. Það þýðir að áskriftum fyrir sjö milljarða króna var hafnað af stjórninni.
Nýir hluthafar þurfa að borga fyrir hlutina sem þeir skráðu sig fyrir í síðasta lagi 23. september, eða á morgun. Hlutirnir verða svo teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands í síðasta lagi 12. október næstkomandi.
3. Hlutfallsleg skerðing flestra er 37 prósent
Þeir sem keyptu fyrir eina milljón króna eða minna í útboðinu verða ekki skertir þrátt fyrir umframeftirspurn. Þ.e. þeir fá að kaupa nákvæmlega það magn hluta sem þeir skráðu sig fyrir. Hlutfallsleg skerðing annarra áskrifta, hvort sem er á meðal fagfjárfesta eða almennra er um 37 prósent. Það þýðir að sá sem ætlaði að kaupa bréf fyrir t.d. 100 milljónir króna fær að kaupa fyrir 63 milljónir króna.
4. Einhverjir núverandi hluthafa þynnast niður
Núverandi eigendur, sem áttu hlutabréf fyrir 5,4 milljarða króna, þynnast strax niður um 80,9 prósent. Sú þynning mun væntanlega aukast þegar nýir hluthafar nýta áskriftarréttindi sín.
Það þá þó einungis við þá núverandi hluthafa sem ákváðu að taka ekki þátt í útboðinu nú. Þeir úr hópi þeirra sem vörðu eignarstöðu sína verða hlutfallslega á svipuðu róli og þeir voru áður, en hafa vitanlega borgað nýja peninga inn í Icelandair Group.
5. Konan sem keypti WOW vörumerkið mætti með hvelli
Bandaríska athafnakonan Michele Roosevelt Edwards, einnig þekkt sem Michele Ballarin, skráði sig fyrir sjö milljarða hlut í hlutafjárútboði Icelandair Group. Hún braut sóttvarnarreglur sem gilda í landinu á meðan að á veru hennar hér stóð, meðal annars með því að fara á kaffihús í Borgartúni.
6. Ballarin einni hafnað
Áskrift Ballarin að hlutum í Icelandair Group var hafnað af stjórn félagsins. Svo virðist sem að hún hafi verið eini áhugasami fjárfestirinn sem hafi ekki fengið áskrift sína samþykkta. Þær ástæður hafa verið gefnar að Ballarin hafi ekki getað sýnt fram á nægjanlegar tryggingar fyrir því að eiga það fjármagn á lausu sem til þyrfti til að greiða fyrir áskrift hennar.
Gunnar Steinn Pálsson, almannatengill sem unnið hefur náið með Ballarin hérlendis, sagði í samtali við Vísi um helgina að það hefðu verið mikil vonbrigði fyrir hana að „drífa ekki alla leið með Icelandair-verkefnið“.
7. Samsetning eigendahópsins
Mikil eftirspurn var hjá almennum fjárfestum í útboðinu. Eignarhlutur þeirra verður um 50 prósent nú og fjöldi hluthafa í félaginu verður yfir ellefu þúsund. Hluthöfum Icelandair Group er því að fjölga um sjö þúsund.
Lífeyrissjóðir landsins voru áður stærstu eigendur félagsins með samtals 53,3 prósent eignarhlut.
Á meðal þeirra sem þynnist mest niður er bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management. Sá sjóður sérhæfir sig í fjárfestingum í flugfélögum og er því í vanda víðar en á Íslandi. Hann kom inn í eigendahóp Icelandair í hlutafjáraukningu í apríl í fyrra þegar hann keypti 11,5 prósent á 5,6 milljarðar króna. Síðar bætti sjóðurinn við sig hlutum og átti þegar mest var 13,5 prósent. Síðustu mánuði hefur PAR verið að selja sig niður í Icelandair Group á hrakvirði og fyrir lá fyrir nokkrum síðan að þar væru ekki til peningar til að styðja frekar við íslenska flugfélagið.
8. Nokkrir úr núverandi eigendahópi tóku ekki þátt
Mikil spenna var um hvaða lífeyrissjóðir sem áttu þegar í Icelandair Group myndu taka þátt í útboðinu, en þátttaka þeirra var talin lykilatriði í því að það tækist að ná markmiðum þess. Á endanum varð niðurstaðan sú að sumir tóku þátt, en aðrir ekki. Af fjórum stærstu sjóðum landsins, sem allir voru á meðal stærstu eigendur Icelandair Group fyrir útboðið, tóku tveir (Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóður) þátt en tveir (Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Birta lífeyrissjóður) sögðu pass. Auk þess vakti athygli að bæði Frjálsi lífeurissjóðurinn og Festa lífeyrissjóður ákváðu að taka ekki þátt.
Fjöldi sjóða í stýringu hjá fjármálafyrirtækjum tók þátt. Þar voru sjóðir í stýringu Stefnis, sjóðstýringafyrirtækis Arion banka, umsvifamestir.
9. Ekki þörf fyrir að virkja sölutryggingu
Þann 1. september var greint frá því að Icelandair Group hefði náð samkomulagi við ríkisbankana tvo, Íslandsbanka og Landsbankann, um að þeir sölutryggðu samtals sex milljarða króna í komandi hlutafjárútboði. Hvor bankinn skuldbatt sig til að sölutryggja þrjá milljarða króna.
Það þýddi á mannamáli að Icelandair Group þurfti í raun ekki að selja nema 14 milljarða króna af útgáfunni vegna þess að ríkisbankarnir tveir höfðu þegar skuldbundið sig til að kaupa fyrir sex ef 14 milljarða króna markið næðist. Hefði það gengið eftir hefði íslenska ríkið orðið óbeinn eigandi að Icelandair Group í gegnum banka sem það á að öllu leyti.
Í ljósi þess að umframeftirspurn var eftir hlutum reyndi ekki á sölutrygginguna. Ríkisbankarnir eru samt sem áður í lykilhlutverkum í framtíðarþróun Icelandair Group, sem helstu kröfuhafar félagsins og þeir bankar sem þegar hafa skuldbundið sig til að veita því bæði rekstrarlánalínu upp á sjö nýja milljarða króna og þrautarvaralánalínu upp á 16,5 milljarða króna sem er með 90 prósent ríkisábyrgð.
10. Kvartað yfir ríkisábyrð
Eitt af lykilpúslunum sem þurfti að falla til í aðdraganda hlutafjárútboðsins var að ríkið myndi gangast í ábyrgð fyrir 90 prósent af 16,5 milljarða króna lánalínu til Icelandair Group. Hún var samþykkt á Alþingi í ágúst.
Sú samþykkt mun hafa eftirmála, en Kjarninn greindi frá því á föstudag að flugfélagið PLAY hafi sent kvörtun til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, þar sem krafist er afturköllunar á leyfisveitingu ríkisábyrgðar á lánalínu Icelandair Group. Fjármálaráðuneytið hefur þegar brugðist við kvörtuninni og sagt leyfisveitinguna hafa verið á sama lagalega grundvelli og í mörgum sambærilegum málum.