Setningin „Bond, James Bond“ er vafalítið ein þekktasta setning kvikmyndasögunnar. Heyrðist fyrst árið 1962 í kvikmyndinni Dr. No, fyrstu kvikmyndinni sem gerð var eftir bók Ian Fleming (1908 -1964) um njósnara hennar hátignar. Sá sem fyrstur sagði þessi frægu orð á hvíta tjaldinu var Sean Connery.
Sögupersónan James Bond birtist fyrst árið 1953 í bókinni Casino Royale. Höfundurinn Ian Fleming sagði að hann hefði ákveðið að þessi maður skyldi heita einhverju mjög venjulegu nafni. Ian Fleming, sem var áhugamaður um fugla, átti bók um villta fugla í Vestur-Indíum. Höfundur þeirra bókar var fuglafræðingur að nafni James Bond (1900- 1989). Sögupersónan James Bond átti að vera sérlega óáhugaverður maður sem hefði engin áhugamál og líf hans einkenndist af atvikum og atburðum sem hann lenti í.
Ian Fleming sagði síðar eiginkonu fuglafræðingsins að njósnarinn líktist honum í engu, burtséð frá nafninu. Persónan var, að sögn Ian Fleming, hálfgerður hrærigrautur vinnufélaga hans hjá Leyniþjónustu breska flotans, þar sem rithöfundurinn vann um árabil. Sumt varðandi persónu njósnarans líktist rithöfundinum sjálfum, sem hafði dálæti á eggjahræru, áhuga á fjárhættuspili, takmörkuðum golfhæfileikum og fleiru.
Ellefu James Bond bækur og tvö smásagnasöfn
Á árabilinu 1953 – 1966 komu út ellefu James Bond bækur og tvö smásagnasöfn með sögum um njósnarann 007, eins og hann hét á pappírum Leyniþjónustu hennar hátignar, MI6. Tvær þessara bóka komu út eftir að Ian Fleming lést. Bókin sem bar heitið Dr. No, sú fyrsta sem var kvikmynduð, kom út 1958.
Hér verður ekki fjallað nánar um Ian Fleming og ritstörf hans. Rétt er þó að nefna að á lista dagblaðsins The Times er hann númer 14 á lista yfir helstu rithöfunda Breta frá lokum síðari heimsstyrjaldar.
James Albert Bond
Fyrir nokkrum dögum birti pólska fortíðarstofnunin (IPN) nýja tilkynningu á vefsíðu sinni. Það gerir þessi stofnun reglulega en að þessu sinni vöktu upplýsingarnar meiri athygli en oft áður. Þar var greint frá því að á sjöunda áratug síðustu aldar hefði breskur njósnari starfað hjá ræðisskrifstofu breska hersins í Varsjá. Ekki væri það kannski sérlega fréttnæmt nema vegna nafnsins á þessum umrædda spæjara. Hann hét sem sé James Bond, fullu nafni James Albert Bond.
James þessi Bond kom til starfa hjá ræðisskrifstofunni í Varsjá 18. febrúar árið 1964, tveimur árum eftir að kvikmyndin Dr. No var frumsýnd. Starfsheiti hans á ræðisskrifstofunni var skjalavörður. Í upplýsingum IPN um „skjalavörðinn“ kemur fram að hann hafði, meðal annars vegna nafnsins, vakið athygli pólskra yfirvalda sem fylgdust grannt með honum. James Bond ferðaðist talsvert um Pólland, meðal annars til borganna Bialystock og Olsztyn. Marcena Kruk, yfirmaður IPN sagði í viðtali að upplýsingar um James Bond væru takmarkaðar, „við vitum að hann ferðaðist talsvert um landið og hafði auga fyrir konum. Í gögnum okkar um hann er ekkert minnst á Martini kokteil, en hinsvegar kemur þar fram að hann hafi kunnað að meta pólskan bjór.“
Samkvæmt upplýsingum IPN var James Bond í Póllandi um tveggja ára skeið, 1964 og 1965. Þá hvarf hann af hinu pólska sjónarsviði.
Undanfarna daga hefur talsvert verið fjallað um James Albert Bond í breskum og pólskum fjölmiðlum. Pólskir fjölmiðlamenn veltu því fyrir sér hvort nafnið James Bond hefði verið tilbúningur, maðurinn hefði heitið eitthvað allt annað. Netmiðillinn National.ae birti fyrir viku (20.9) grein um James Albert Bond. Þar kemur fram að hann hafi fæðst í Bideford á Devon Suður-Englandi árið 1928 og látist árið 2005. Árið 1954 giftist James Albert Bond Janette Tacchi. Þau eignuðust einn son. Í viðtali við The Telegraph sagði Janette Tacchi að hún hafi aldrei almennilega vitað við hvað bóndi sinn starfaði en það hefði verið eitthvað ,,leynilegt“. Hann hefði nær allan sinn starfsaldur unnið fyrir breska herinn.
James Bond á hvíta tjaldinu
Eins og fyrr var nefnt birtist sögupersónan James Bond fyrst á hvíta tjaldinu árið 1962 í kvikmyndinni Dr. No. Skemmst er frá því að segja að myndin naut mikilla vinsælda og nú hafa verið gerðar á þriðja tug kvikmynda, um njósnara hennar hátignar, James Bond. Sjö leikarar hafa brugðið sér í hlutverk njósnarans snjalla sem oft kemst í hann krappann en kemur ætíð standandi niður. Margir James Bond aðdáendur segja túlkendur njósnarans sex talsins, telja David Niven (Casino Royale frá árinu 1967) ekki með.
Bond myndirnar, eins og þær eru kallaðar, hafa reynst sannkölluð peningamaskína og hverrar nýrrar myndar ætíð beðið með spenningi. Sú nýjasta, No Time to Die, verður frumsýnd síðar í haust. Hún átti að koma í kvikmyndahúsin í apríl á þessu ári, en þótt njósnari hennar hátignar sigrist á flestu varð hann að beygja sig fyrir plágunni miklu, kórónuveirunni.
Sean Connery
Eins og fyrr var nefnt hafa sjö leikarar túlkað James Bond 007. Í hugum margra er Sean Connery, sá sem fyrstur lék njósnarann, hinn eini sanni Bond. Í könnunum, sem eru margar gegnum tíðina, er nafn Sean Connery ætíð það sem flestir nefna sem ,,hinn ekta Bond“. Ian Fleming hafði í viðtali sagt að í útliti væri persónan James Bond í sínum huga einskonar blanda af sér og bandaríska leikaranum og tónlistarmanninum Hoagy Carmichael.
Þegar til stóð að gera kvikmynd eftir sögunni um Dr. No var Sean Connery ekki augljós valkostur í titilhlutverkið. Framleiðendurnir, þeir Harry Saltzman og Albert R. Broccoli, leituðu fyrst til Cary Grant. Hann vildi einungis gera samning um þessa einu mynd, en framleiðendurnir ætluðu sér strax í upphafi að gera fleiri myndir byggðar á bókum Ian Fleming um James Bond. Nokkrir fleiri leikarar komu til greina en á endanum varð hinn lítt þekkti Skoti, Sean Connery fyrir valinu.
Framleiðendurnir höfðu Ian Fleming með í ráðum varðandi leikaravalið. Honum leist í byrjun ekki nema miðlungi vel á þennan hávaxna og fremur stirðbusalega Skota, eins og hann komst að orði. Þegar ástkona Ian Fleming, sem hafði að hans áliti smekk fyrir karlmönnum, sagði að „þessi Connery“ væri eins og sniðinn í hlutverkið mælti hann með Sean Connery. Og eins og stundum er sagt „the rest is history“.
Sjálfur hefur Sean Connery sagt að Terence Young, leikstjóri Dr. No, hafi eiginlega skapað persónuna James Bond. Kennt sér rétta göngulagið, handahreyfingar, jafnvel hvernig hann ætti að halda á hníf og gaffli. Sean Connery lék í fyrstu fimm Bond myndunum og síðar í tveimur til viðbótar. Þótt Bond myndirnar hafi gert Sean Connery að stórstjörnu á himni kvikmyndanna féll honum aldrei við njósnarann. „Ég hata þennan Bond, myndi helst vilja kála honum“ sagði Sean Connery einhverju sinni við góðvin sinn Michael Caine.
Ferill Sean Connery, sem varð níræður 25. ágúst síðastliðinn, verður ekki rakinn frekar hér, kvikmyndirnar sem hann lék í eru um 80 talsins, auk fjölmargra sjónvarpsmyndaflokka. Hann lýsti því yfir árið 2006 að hann væri hættur að leika og þegar hann var spurður hvers vegna sagðist hann vera búinn að uppgötva dásemdir eftirlaunaáranna. Og þegar spurt var hverjir væru helstu kostir hans sem leikara svaraði hann „ómögulegur í söngleikjum, nothæfur í sumu öðru.“