Donald Trump Bandaríkjaforseti er ekki eini þjóðarleiðtoginn sem hefur greinst með COVID-19, sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur. Leiðtogar tveggja stórra og valdamikilla ríkja hafa einnig greinst; Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. Allir þrír eiga þeir það sameiginlegt að hafa verið gagnrýndir harðlega fyrir sein viðbrögð sín við heimsfaraldrinum þegar öllum var orðið ljóst að hann gæti orðið mjög skæður.
Í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum er ekki óþekkt að einhver stórmál komi upp á elleftu stundu. Stundum eru það mál sem vekja hneykslan og minnka tiltrú almennings á frambjóðendum. Dæmi um það er opinberun tölvupósta Hillary Clinton rétt fyrir síðustu kosningar árið 2016.
Trump skrifaði færslu á Twitter í nótt. Þó að færslur á þessum eftirlætis miðli forsetans séu kallaðar tíst – orði sem lýsir lágværu hljóði fugla og músa – var hér stórmál á ferðinni sem gæti farið í sögubækurnar sem stórkostlegasti leikbreytir allra tíma í baráttu um forsetastól Bandaríkjanna.
Donald Trump er með COVID-19.
Donald Trump er með sjúkdóminn sem dregið hefur yfir milljón manna til dauða frá því að hann kom upp fyrir um tíu mánuðum, þar af um 200 þúsund landa hans.
Donald Trump er með sjúkdóminn sem „Kína-veiran“ – eins og hann hefur ítrekað kallað kórónuveiruna SARS-CoV-2 – veldur.
Donald Trump er smitaður af veirunni sem hann hefur gert lítið úr, sagt að myndi „hverfa“ en svo játað að hafa falið hættuna viljandi fyrir þjóð sinni. Veirunni sem hann hefur neitað að verjast með því að bera grímu. Veirunni sem honum datt í hug að hægt væri að verjast með því að sprauta klór í sjúklinga (sem hann sagði svo seinna að hefði verið grín). Veirunni sem hann sagði á einum framboðsfundi að hefði „nánast engin áhrif“ á nokkurn mann. Veirunni sem hann gerði grín að í fyrstu kappræðunum í vikunni með því að segja að Joe Biden vildi halda 200 feta fjarlægð og bæri grímu „sem er sú stærsta sem ég hef nokkru sinni séð“.
Og Donald Trump er smitaður af veiru sem leggst einna verst á fólk eins og hann: Eldra fólk og þá sem eru of þungir.
Dánartíðni hækkar skarpt með aldri
Trump er 74 ára. Rannsóknir hafa sýnt að þó að dánartíðni í heild af völdum COVID-19 sé mögulega um 1,5 prósent þá hækkar áhættan á alvarlegum veikindum og dauða með aldri. Í rannsókn sem birt var í vísindatímaritinu Lancet í vor var niðurstaðan sú að dánartíðnin væri um 8,6 prósent hjá fólki yfir sjötugu. Einnig hefur komið í ljós að undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdómar geta verið áhættuþáttur.
„Hann er í miklu meiri hættu á að deyja ef hann fær slæma lungnabólgu,“ hefur breska blaðið Guardian eftir Barry Dixon, gjörgæslulækni í Melbourne, sem bendir á að líkur á alvarlegri lungnabólgu vegna COVID-19 hækki með aldri. Margir aðrir samofnir þættir geta valdið alvarlegum veikindum en að sögn Dixon eru lykiláhættuþættirnir hjá forsetanum þeir að hann er aldraður og að hann er of þungur.
Þeir sem greinast með COVID-19 fljótlega eftir að þeir smitast af veirunni sýna oft væg einkenni í fyrstu. Veikindin hafa tilhneigingu til versna um viku síðar. Það er því í annarri viku sem lungnabólga getur farið að gera vart við sig.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, bar sig vel fyrstu dagana eftir að hann sýktist. Hann fór í einangrun á heimili sínu en hélt áfram að vinna. Smám saman mátti þó sjá, í hans daglega ávarpi til þjóðarinnar, að honum versnaði. Að endingu var hann fluttur á gjörgæsludeild.
Skoðaðu vísindalega staðfest gögn, Trump
Bent hefur verið á, m.a. af læknum hér á landi, að versnun einkenna getur verið nokkuð skyndileg. Heilsu fólks getur hrakað hratt á 1-2 sólarhringum.
„Mitt fyrsta ráð væri að kanna alla undirliggjandi áhættuþætti hjá honum, svo sem ástand lungna og hjarta,“ hefur Guardian eftir Peter Collignon, prófessor í smitsjúkdómum. Hann segir ástæðu til að hafa áhyggjur af öllum sem veikjast af COVID-19 enda sjúkdómurinn lífshættulegur. Út frá líkamlegu ásigkomulagi forsetans verði svo að ákveða hvort hann verður í einangrun heima eða verði fluttur á sjúkrahús. Líkt og fleiri sérfræðingar bendir Collignon á að fyrstu dagana gæti Trump verið við ágæta heilsu og þá sé jafnvel ekki þörf á að leggja hann inn. En hann varar þó við því að eftir nokkra daga gætu einkennin versnað og þá verði að fylgjast vel með ástandi hans.
Christine Jenkins, prófessor við lungnadeild George-stofnunarinnar, segir að Trump hafi talað um að lyfið hydroxychloroquine og að sprauta sjúklinga með hreingerningarefnum gæti gagnast gegn sjúkdómnum. „Það voru falsfréttir,“ segir hún og bendir forsetanum á að vænlegra til árangurs sé að skoða þau vísindalega staðfestu gögn sem væru þegar til um COVID-19 og meðferð við honum.
Jenkins segir að í fyrstu hafi dánartíðni þeirra sem lagðir voru inn á gjörgæslu vegna COVID-19 verið mjög há. En með meiri þekkingu hafi hún lækkað umtalsvert og sé ekki svo slæm í dag – eins og hún orðar það við Guardian. Hún bendir t.d. á að öndunarvélar séu ekki notaðar jafn snemma í gjörgæslumeðferð og í vetur þar sem vísbendingar væru um að notkun þeirra gæti við vissar kringumstæður valdið meiri skaða fyrir sjúklinginn. „Trump nýtur þess nú að lærdómur hefur verið dreginn út frá vísindalegum rannsóknum og gögnum,“ segir hún.