Rúmlega 54 prósent landsmanna eru fremur eða mjög hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju og 25,7 prósent þeirra segjast vera í meðallagi hlynnt honum. Rúmlega 20 prósent segjast vera fremur eða mjög andvíg aðskilnaði.
Þetta eru niðurstöður í könnun sem Maskína gerði fyrir Siðmennt í byrjun árs. Þær hafa ekki verið birtar fyrr en nú.
Í könnuninni var einnig spurt hvort að fólk teldi sig eiga samleið með þjóðkirkjunni. Alls sögðust 48,7 prósent að þeir ættu litla eða enga samleið með henni en 25,7 prósent sögðu að þeir ættu nokkra samleið. Alls sögðu 25,5 prósent aðspurðra að sú samleið væri fremur eða mjög mikil.
Könnunin fór fram daganna 16. til 22. janúar 2020. Svarendur voru alls staðar að á landinu, 18 ára og eldri. Alls svöruðu 954 könnuninni.
Þeim landsmönnum sem eru í þjóðkirkjunni hefur fækkað hratt síðastliðin misseri. Í byrjun árs 2009 náði fjöldi þeirra mettölu, en þá voru 253.069 landsmenn í henni. Frá þeim tíma hefur þeim fækkað jafnt og þétt og eru nú 230.146. Hlutfall íbúa landsins sem er skráð í þjóðkirkjuna var 62,5 prósent um síðastliðinn mánaðamót.
Það þýðir að fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjuna hefur dregist saman um 22.923 frá ársbyrjun 2009. Það eru fleiri en allir núverandi íbúar Garðabæjar og Seltjarnarness samanlagt.
Breytt orðræða á síðasta ári
Aðskilnaður ríkis og kirkju hafi komist rækilega á dagskrá á síðasta ári. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í byrjun nóvember 2019 að óhjákvæmilegt væri að stefna í átt að fullum aðskilnaði ríkis og kirkju.
Í grein sem hún skrifaði í Morgunblaðið sagði hún að nýtt samkomulag, sem undirritað var í september í fyrra, milli ríkis og þjóðkirkjunnar feli í sér að hún verði ekki lengur eins og hver önnur ríkisstofnun. „Hún mun fremur líkjast frjálsu trúfélagi sem ber ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag. Þessar breytingar eru til mikilla bóta og óhjákvæmilegt að stefna áfram á sömu braut í átt að fullum aðskilnaði. Þangað til og þrátt fyrir samkomulagið mun þjóðkirkjan áfram njóta stuðnings og verndar íslenska ríkisins á grundvelli ákvæðis stjórnarskrárinnar.“
Áslaug Arna sagði í greininni að sjálfstæð kirkja óháð ríkisvaldinu samrýmist betur trúfrelsi og skoðanafrelsi en sérstaðan sem þjóðkirkjan hefur notið í íslenskri stjórnskipan. „Í mínum huga er ekki spurning um það að kirkjan getur vel sinnt öllum verkefnum sínum og þar á meðal sáluhjálp og margvíslegri félagslegri þjónustu óháð ríkinu. Ég er einnig þeirrar skoðunar að margir muni fylgja kirkjunni að málum þótt fullkominn aðskilnaður verði á endanum á milli hennar og ríkisvaldsins.“
Þremur dögum síðar sagði hún í viðtali við RÚV að aukið ákall væri um það í samfélaginu, að sjálfstæði trúfélaga og lífskoðunarfélaga sé algjört. Hún sagði vinnu til að svara þessu ákalli væri þegar komin af stað. Markmið þeirrar vinnu væri að skilja að ríki og kirkju.
Til stendur að leggja fram nýtt frumvarp til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar í desember á þessu ári, samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar en með því er stefnt að því að setja ný þjóðkirkjulög. Það er liður í því að uppfylla viðbótarsamninginn milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 6. september 2019 en þar var meðal annars stefnt að einföldun regluverks um þjóðkirkjuna.
Þingmenn víða að leggja fram frumvarp um aðskilnað 2034
Meirihluti hefur virst vera fyrir því á Alþingi að setja aðskilnað kyrfilega á dagskrá. Fyrir síðasta þingi lá þingsályktunartillaga þingmanna stjórnarandstöðuflokkanna Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata auk þingmanns Vinstri grænna og eins utan flokka, þar sem lagður var til fullur, lagalegur og fjárhagslegur aðskilnaður ríkis og kirkju með framlagningu nokkurra frumvarpa.
Hún komst ekki á dagskrá en var lögð fram að nýju á mánudag, 12. október. Nú er þó enginn úr þingflokki Vinstri grænna á henni.
Í umsögn um málið, eftir að það var fyrst lagt fram, hefur Biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir, sagt að það sé ekkert forgangsmál að kirkjan sé hluti af ríkisvaldinu. „Að viðhalda tengslum kirkjunnar við ríkisvaldið er í sjálfu sér ekki forgangsmál kirkjunnar. Skyldur kirkjunnar liggja fyrst og fremst í því að rækta og viðhalda tengslunum við þjóðina.“
Fleiri ósammála því að kristilegt efni eigi erindi við skóla
Í könnun Maskínu voru þátttakendur einnig spurðir hvort þeir væru sammála eða ósammála því að kristilegar trúarathafnir, bænir eða guðsorð ættu að vera liður í starfi opinberra leikskóla eða grunnskóla. Alls sögðust 41,6 prósent aðspurðra að þeir væru ósammála, tæplega 23 prósent sögðust ekki hafa sterka skoðun á því og 35,7 prósent sögðust vera sammála erindi kristilegra trúarathafna, bæna og guðsorða í leikskólum eða grunnskólum.
Allir þingmenn Miðflokksins, ásamt Sjálfstæðismönnunum Brynjari Níelssyni og Ásmundi Friðrikssyni, lögðu fyrr í þessum mánuði fram frumvarp um að auka veg kristinfræðikennslu í grunnskólum landsins.
Verði frumvarpið að lögum yrði kennslan eins og var fyrir gildistöku grunnskólalaga frá árinu 2008, sem felldu hana niður. Þingmennirnir vilja að heiti námsgreinarinnar trúarbragðafræði verði breytt í kristinfræði og trúarbragðafræði og telja að nám á því sviði sé mikilvægt til skilnings, umburðarlyndis og víðsýni. „Nemendur verða að vera búnir undir að lifa í fjölbreyttu lýðræðislegu samfélagi og takast á við margvísleg úrlausnarefni sem þeirra bíða í breyttum heimi,“ segir í greinargerð sem fylgir frumvarpinu.
Á meðal þeirra raka sem þingmennirnir nota til að rökstyðja þörfina fyrir aukna áherslu á kristinfræðikennslu í skólum er að hér á landi fari innflytjendum sem komi frá ólíkum menningarheimum fjölgandi.
Í greinargerðinni segir að eðlilegt hljóti að teljast að fjallað sé ítarlegast um þau trúarbrögð sem ríkjandi séu í samfélaginu. „Þekking á kristni og Biblíunni er forsenda skilnings á vestrænni menningu og samfélagi.“