Samfélagsmiðlarisarnir Facebook og Twitter lágu undir ámæli um gerræðislega ritskoðunartilburði í síðustu viku, en á miðvikudagsmorgun birtist frétt í bandaríska götublaðinu New York Post sem miðlarnir reyndu báðir að hemja dreifingu á. Málið hefur enn á ný vakið upp umræðu vestanhafs og víðar um ægivald félagsmiðlanna yfir þeim upplýsingum sem almenningur hefur fyrir augum.
Fréttin sjálf fjallaði um Hunter Biden, son forsetaframbjóðandans Joe Biden og tölvupósta hans, sem New York Post sagði að sýndu fram á að Hunter hafi kynnt Joe föður sinn fyrir yfirmanni hjá úkraínska orkufyrirtækinu Burisma, þar sem Hunter sjálfur var stjórnarmaður. Þessir tölvupóstar munu hafa fundist á hörðum diski gamallar fartölvu sem Hunter er sagður hafa sett á verkstæði í fyrra og aldrei sótt.
Sannleiksgildi fréttarinnar er vafa undirorpið. Heimildarmennirnir voru þeir Steve Bannon fyrrverandi ráðgjafi forsetans og Rudy Guiliani, lögmaður forsetans, sem er sagður hafa látið blaðið hafa eintak af harða drifinu þann 11. þessa mánaðar.
Í frétt New York Times á sunnudag var sagt frá því að efasemdir hefðu verið um það inni á ritstjórn Post hvort fréttin væri nægilega traust og að tveir blaðamenn hefðu af þeim sökum neitað að merkja sér hana með nafni.
Fréttin var merkt tveimur blaðakonum, einni sem kom til starfa á Post frá Fox News fyrr á þessu ári og hafði aldrei verið með merkta frétt í blaðinu áður og annarri sem hafði ekki mikið með fréttaskrifin að gera og vissi ekki af því sjálf fyrr en eftir á að nafn hennar yrði við umfjöllunina, samkvæmt frétt Times.
Ritstjórn Post segist þó standa við fréttina, sem vakti mikla athygli, ef til vill ekki síst vegna þess að Facebook og Twitter reyndu að koma í veg fyrir að hún dreifðist víða.
Það varð vatn á myllu stjórnmálamanna í Repúblikanaflokknum sem hafa lengi haldið því fram að stóru félagsmiðlarnir hafi pólitíska slagsíðu og ritskoði og fjarlægi upplýsingar sem séu þeim ekki þóknanlegar, en í þetta skipti var aðgerðunum beint að fjölmiðli sem telst til meginstraumsins í bandarísku fjölmiðlaflórunni. Það er óvanalegt.
Af hverju gripu Facebook og Twitter til aðgerða?
Ástæðurnar sem fyrirtækin báru fyrir sig voru mismunandi. Facebook sagðist vera að gera það sem fyrirtækið geri oft, að minnka dreifingu efnis á síðum miðilsins á meðan að þriðji aðili skoðaði sannleiksgildi þess, í samræmi við stefnu fyrirtækis um „upplýsingaóreiðu“. Þrátt fyrir að Facebook hafi gripið til þessa ráðs fór fréttin um þá Biden-feðga víðar en nokkur önnur frétt á Facebook í Bandaríkjunum í síðustu viku, samkvæmt samantekt sem birtist í New York Times.
Viðbrögð Twitter voru með öðrum hætti. Á miðvikudagsmorgun varð einfaldlega ómögulegt að deila fréttinni frá New York Post á Twitter, án skýrra meldinga til notenda um af hverju það stafaði. Jack Dorsey forstjóri fyrirtækisins viðurkenndi að vinnubrögðin hefðu verið óásættanleg að því leyti.
Í tístum frá Twitter var útskýrt að efni í grein New York Post hefði brotið gegn reglum miðilsins á tvennan máta, annars vegar hefðu persónuupplýsingum verið dreift án heimildar og hins vegar hefði fréttaflutningurinn byggst á gögnum sem álitin voru stolin - „hökkuð“. Þetta er regla sem Twitter hefur haft frá árinu 2018.
Our communication around our actions on the @nypost article was not great. And blocking URL sharing via tweet or DM with zero context as to why we’re blocking: unacceptable. https://t.co/v55vDVVlgt
— jack (@jack) October 14, 2020
Fréttir eru þó stundum byggðar á stolnum gögnum, hvað sem fólki eða Twitter og Facebook finnst um það. Kristinn Hrafnsson ritstjóri WikiLeaks telur að það sé umhugsunarvert hvernig Facebook og Twitter hafi gengið fram í málinu.
„Það er býsna uggvænlegt þegar þessi risafyrirtæki sem eru í fóðrunarstöðu upplýsinga almennings í dag, taka fram slagbrandinn í hliðvarðarhlutverkinu sem þau hafa tekið sér,“ skrifaði Kristinn á Facebook á dögunum og hann er ekki einn um að vera hugsi.
Adi Robertsson, blaðamaður á tæknimiðlinum Verge, sagði málið varpa ljósi á augljós vandamál varðandi samspil pólitískrar umræðu, samfélagsmiðlanna og upplýsingaflæðisins á netinu. Máttur samfélagsmiðlanna er vandamál, skrifar Robertsson, af því að þeir fáu stóru halda utan um mikið af tjáningu mannanna.
Fordæmið er að hans mati hættulegt, ekki síst af því að raunin er sú að góðir fréttamenn geta líka gefið frá sér ósannar fréttir fyrir mistök.
„Venjulega eru mistök í fréttaflutningi eða slæm heimildarvinna afhjúpuð af öðrum blaðamönnum, sérfræðingum í efninu eða heimildarmönnum með beina vitneskju um málið. Samfélagsmiðlafyrirtæki hafa ekkert af þessu og ritskoðun þeirra býður ekki upp á neinar upplýsingar sem hjálpa lesendum að komast að niðurstöðu, heldur kæfir bara upprunalegu fréttina,“ skrifar Robertson.
Tækniforstjórar koma fyrir þingnefnd í aðdraganda kosninga
Búast má við að Mark Zuckerberg og Jack Dorsey, forstjórar félagsmiðlarisanna tveggja, þurfi að svara sérstaklega fyrir þetta mál á miðvikudaginn í næstu viku næstu viku Þá koma þeir rafrænt fyrir viðskiptanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings ásamt Sundar Pichai forstjóra Google.
Umræðuefnið á fundinum verður meðal annars lagabálkur númer 230 í bandarískum lögum um fjarskiptamál, sem tryggir að samfélagsmiðlar eru ekki lagalega ábyrgir fyrir því sem notendur þeirra segja. Trump-stjórnin hefur hótað að fjarlægja ákvæðið, en það væri reyndar tvíeggjað sverð, þar sem sú aðgerð myndi án efa leiða til þess að ritskoðun félagsmiðlanna á því efni sem notendur setja inn og deila myndi stóraukast.