Sjóðsfélagar lífeyrissjóða hafa greitt upp lán hjá þeim fyrir um 13,7 milljarða króna á fjórum mánuðum. Þróunin byrjaði hægt í júnímánuði, þegar uppgreiðslur námu rúmlega 400 milljónum krónum umfram nýja lántöku. Mest var greitt upp í júlí þegar uppgreiðslur lífeyrissjóðslána 5,1 milljarði króna umfram ný lán. Í ágúst var sú upphæð tæplega 4,9 milljarðar króna og í september greiddu sjóðsfélagarnir upp 3,3 milljarða króna umfram þau nýju lán sem þeir tóku.
Langstærstur hluti þeirra lána sem greidd hafa verið upp á ofangreindu tímabili eru verðtryggð lán. Alls hafa sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum greitt upp 15,7 milljarða króna af slíkum lánum umfram þau nýju lán sem hafa verið tekin.
Þetta má lesa út úr tölum um útlán lífeyrissjóða sem Seðlabanki Íslands birti í gær.
Fjórða mánuðinn í röð námu uppgreiðslur lífeyrissjóðslána hærri fjárhæð en nýjar lántökur. Það er merkilegt í ljósi þess að frá þeim tíma sem Seðlabanki Íslands fór að halda utan um þessar tölur, í byrjun árs 2009, hafði það aldrei gerst áður.
Tvær megin ástæður
Frá því að lífeyrissjóðirnir komu aftur inn á húsnæðislánamarkað af krafti haustið 2015 hefur umfang verðtryggðra húsnæðismála í eigu þeirra aldrei dregist jafn mikið saman í einum mánuði og í september, eða um rúmlega 5,8 milljarða króna.
Þrátt fyrir að sjóðirnir hafi lánað út 2,5 milljarða króna umfram uppgreiðslur af óverðtryggðum lánum í september þá er ljóst að flótti viðskiptavina frá lífeyrissjóðum og yfir til bankanna er fjarri lokið. Líkt og áður sagði hafa uppgreiðslur á lánum hjá þeim verið 13,7 milljörðum krónum meiri en ný tekin húsnæðislán frá því í byrjun júní.
Gildi, þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, brást við þessari stöðu seint í síðasta mánuði og lækkaði vexti sjóðsfélagslána frá með 5. nóvember, sem var í gær. Mesta breytingin var á breytilegum vöxtum óverðtryggðra lána sem voru lækkaðir um 40 punkta, niður í 3,65 prósent.
Í öðru lagi hefur verðbólga farið vaxandi og mælist nú 3,6 prósent. Íslenskir lántakendur hafa sýnt það á síðustu árum að þeir hafi margir hverjir lært sína lexíu af bankahruninu og er fljótir að skipta yfir í óverðtryggð lán þegar verðbólgan fer yfir markmið Seðlabankans, sem er 2,5 prósent.
Gjörbreytt staða hjá bönkunum
Þessi þróun hefur líka gjörbreytt útlánastöðunni hjá stærstu bönkunum þremur. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 veittu bankarnir 225,8 milljarða króna í ný óverðtryggð útlán á meðan að umfang verðtryggðra lána dróst saman um 11,3 milljarða króna. Þetta er umtalsverður viðsnúningur frá síðasta ári þegar heimilin tóku alls ný verðtryggð lán hjá bönkum fyrir 41,6 milljarða króna og ný óverðtryggð útlán fyrir 86,6 milljarðar króna. Hlutfall óverðtryggðra nýrra útlána hjá bönkum landsins fór því úr að vera 67,5 prósent í að vera 105 prósent.
Á öllu árinu 2019 voru 83 prósent allra nýrra óverðtryggðra húsnæðislána hjá bönkum tekin á breytilegum vöxtum. Það þýðir að vextirnir geta hækkað eða lækkað í takti við stýrivaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands. frá byrjun árs 2020 og út september síðastliðins veittu bankarnir hins vegar 231 milljarð króna í ný húsnæðislán á breytilegum vöxtum á meðan að taka á lánum með föstum vöxtum til þriggja eða fimm ára, sem verja lántakendur fyrir sveiflum en geta svipt þá ábata af lágu vaxtarstigi til lengri tíma, drógust saman.
Boðaði dauða verðtryggingarinnar
Það vakti mikla athygli í sumar þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtali við Fréttablaðið að verðtryggingin væri að deyja út. Orðrétt sagði hann: „„Verðtryggingin var upphaflega sett á vegna þess að við réðum ekki við verðbólguna. Núna eru tímarnir breyttir. Í fyrsta sinn er það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti og þannig afnema verðtrygginguna að eigin frumkvæði af sínum lánum. Þetta eru mikil tímamót og fela í sér að verðtryggingin mun deyja út.“
Það berast þó misvísandi skilaboð úr Seðlabankanum um hversu góð staða þetta sé.
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningamála í Seðlabanka Íslands, lýsti til að mynda yfir áhyggjum af þessari þróun á blaðamannafundi sem haldinn var í lok ágúst. „Það sem maður hefur áhyggjur af, bæði út frá peningastefnunni og fjármálastöðugleika, er að heimilin séu að skuldsetja sig of mikið á breytilegum vöxtum. Vonandi verðum við ekki með svona lága vexti til framtíðar. Það er kannski það sem maður hefur mestar áhyggjur af í dag varðandi miðlunina til heimila.“
Í nýjasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans segir að aukning óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum geri heimilin næmari fyrir vaxtahækkunum þar sem hækkun vaxta eykur greiðslubyrði þeirra meira en flestra annarra lánsforma sem í boði eru. „Betri dreifing skulda heimila milli ólíkra vaxtaviðmiða, verðtryggðra og óverðtryggðra, fastra og fljótandi, dregur úr áhættu vegna skuldsetningar heimilanna í heild sinni.“