Þó að frásögnum beri ekki að fullu saman um hvernig þetta allt byrjaði eru tvö atriði óumdeilanleg: 2. nóvember 1920, daginn sem bandarískar konur gátu kosið forseta í fyrsta sinn, voru framin í smábæ í Flórída mestu ofbeldisverk á kosningadegi í sögu Bandaríkjanna.
Hin staðreyndin sem engin velkist í vafa um er sú að ofbeldismennirnir komust upp með verknaðinn.
Það sem gerðist í smábænum Ocoee fyrir hundrað árum rataði almennt ekki í sögubækurnar. Þar eru engin minnismerki um fórnarlömb að finna eða annað sem minnir á það sem gerðist. Reyndar var það ekki fyrr en nýlega að margir afkomendur fórnarlambanna komust að hinu sanna: Að fólk hefði verið drepið. Að aðrir hafi flúið. Að jörðum, heimilum og lífsviðurværi hafi verið rænt af saklausum manneskjum. „Flestir þeir sem búa í Ocoee vita ekki einu sinni hvað gerðist hér,“ segir Pamela Schwartz, forstöðumaður menningarsögusafns í Orlando, í samtali við Washington Post.
Bærinn Ocoee var stofnaður um miðja nítjándu öld af hvítum karli sem þar settist að. Þar hélt hann 23 manneskjum ættuðum frá Afríku í þrælkun. Margir suðurríkjamenn sem börðust – og töpuðu – í borgarastríðinu settust þar að og höfðu svart fólk við vinnu á ökrum sínum. Undir lok níunda áratugar 19. aldar gafst sumum þessum verkamanna tækifæri til að kaupa sér landskika sem var á þessum tíma, sérstaklega í bandaríska suðrinu, sjaldgæft.
Annað var óvenjulegt. Af manntali sem gert var árið 1920, var um þriðjungur þeirra 800 manna sem bjuggu í Ocoee svart fólk og í bænum voru ekki sérstök hverfi svartra eins og víðast hvar annars staðar á þessum slóðum. Hvítir og svartir bjuggu hlið við hlið í áratugi er hinn hryllilegi atburður átti sér stað.
Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar snéru bandarískir hermenn heim af vígvöllunum í Evrópu þar sem þeir höfðu orðið vitni að jafnari réttindum svartra og hvítra en í heimalandinu.
Svartir hermenn höfðu vonast eftir sambærilegum breytingum í bandarísku samfélagi en öfgasamtök á borð við Ku Klux Klan reyndu að hindra það og gengu berserksgang í samfélögum svartra. Hið „rauða sumar“ árið 1919 var lengi í minnum haft.
Konur fengu kosningarétt og öfgahóparnir óttuðust að svartir Bandaríkjamenn myndu reyna að kjósa líka.
Í aðdraganda forsetakosninganna árið 1920 miðluðu stjórnmálaleiðtogar í Ocoee upplýsingum til svartra íbúa um hvernig ætti að skrá sig til að geta kosið og hvernig ætti að kjósa. Ku Klux Klan ærðist af reiði og sendi hótunarbréf til leiðtoganna þar sem m.a. stóð að standa ætti vörð um yfirráð hvíta kynstofnsins og sá sem „skipti sér af því“ myndi fá að kenna á því. Meðlimir Ku Klux Klan héldu fjöldafundi vítt og breitt um Flórída þar sem svörtum var hótað, myndu þeir taka þátt í kosningunum.
Þrátt fyrir hótanirnar ætluðu margir svartir íbúar Ocoee að kjósa.
Leitaði til dómara
Meðal þeirra sem mættu á kjörstað 2. nóvember var ávaxtabóndinn Mose Norman. Staða hans í samfélaginu var góð. Hann naut velgengni og var fyrsti íbúi Ocoee til að eignast bíl. Á kjörstað var honum tilkynnt að hann gæti ekki kosið þar sem hann hefði ekki greitt kosningaskatt, skatt sem notaður var til að hindra að svartir, sem voru almennt mun fátækari en hvítir, nýttu kosningarétt sinn.
Norman leitaði til dómara í Orlando með mál sitt og snéri síðar aftur á kjörstað. Enn á ný var honum vísað frá. Það sem gerðist næst er ekki að fullu vitað en talið er að þá þegar hafi múgur hvítra manna, fólk sem hafði lagt leið sína þangað frá Orlando, safnast saman við kjörstaðinn. Norman flúði til vinar síns, July Perry, en yfirgaf svo bæinn.
Múgurinn, leiddur af fyrrverandi lögreglustjóra og meðlimi í Ku Klux Klan, elti Norman að heimili Perrys og þar hófst skothríð. Tveir hvítir menn féllu og Perry og dóttir hans særðust. Perry var handtekinn og stungið í fangaklefa í Orlando. En múgurinn braust þar inn, flutti Perry þaðan og drap hann. Lík hans var hengt upp við heimili dómarans sem hafði ráðlagt Norman að reyna að kjósa á ný.
Í kjölfarið var lagt til atlögu við hús svartra í Ocoee. Ekki er vitað hversu mörg heimili voru eyðilögð og ekki heldur hversu margir voru drepnir í blóðbaðinu sem fylgdi. Eitt dagblað þess tíma sagði sex. En mun líklegra er talið að milli 30 og 60 hafi verið drepnir.
Fjölmargir lögðu á flótta þessa nótt, gengu í gegnum fenin með börn sín á handleggnum. Í manntali nokkru síðar hafði svörtum íbúum Ocoee fækkað úr 255 í tvo. Sumir reyndur að snúa aftur, fólk sem hafði átt land og stundað viðskipti. En þeir voru flæmdir burt á nýjan leik.
Íbúar Ocoee voru nær allir hvítir næstu áratugina. Það var ekki fyrr en á níunda áratugnum að svartir fóru aftur að setjast þar að.
Aðeins tvö ár eru síðan að bæjaryfirvöld í Ocoee viðurkenndu opinberlega að blóðbaðið hefði átt sér stað og verið með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Þau eru nú sögð vinna að því að biðja afkomendur þeirra sem létust opinberlega afsökunar og að greiða þeim bætur fyrir þann eignamissi sem ættingjar þeirra urðu fyrir.
Þá eru hugmyndir uppi um að breyta svæði sem talið er vera kirkjugarður svartra íbúa bæjarins, í minningarreit.
Rúmlega áttræð kona, dóttir hjóna sem flúði ofbeldið árið 1920, býr nú í Ocoee. Hún bauð sig fram til starfa á kjörstað í kosningunum í vikunni. Sonur hennar, sem flutti til bæjarins fyrir nokkrum árum, mætti á kjörstað og kaus í forsetakosningunum. Sú staðreynd að sonurinn kaus í heimabæ afa síns hefur að hennar mati mikla þýðingu. „Hann þekkir söguna,“ segir gamla konan. „Við munum halda því sem gerðist á lofti.“