Áhrifa heimsfaraldursins er að gæta í nýbirtum árshlutareikningum fasteignafélaganna í Kauphöllinni, en tvö þeirra skiluðu tapi á fyrstu níu mánuðum ársins á meðan hagnaður eins þeirra á tímabilinu svo gott sem hvarf. Þessa stöðu má mestmegnis rekja til hóteleigna félaganna, en leigutekjur frá öðrum eignum þeirra breyttust lítið á tímabilinu ef miðað er við síðasta ár.
Fasteignafélögin Reitir, Reginn og Eik skiluðu öll árshlutauppgjöri sínu fyrir fyrstu níu mánuði ársins á dögunum. Samkvæmt tilkynningum sem fylgdu þeim öllum hefur COVID-19 heimsfaraldurinn haft mikil áhrif á rekstur félaganna og búast þau við að finna fyrir þeim út næsta ár.
Í fyrra nam hagnaður félaganna tveimur til fjórum milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Í ár skilaði Eik um 200 milljón króna rekstrartapi á sama tímabili, en tapið nam 300 milljónum króna hjá Reitum. Rekstur Regins náði að vera réttum megin við núllið, en hagnaður félagsins dróst saman um 95 prósent milli tímabila og var hann því aðeins í mýflugumynd miðað við í fyrra.
Ekki mikill samdráttur í leigutekjum
Félögin sjá öll um útleigu á atvinnuhúsnæði, en samkvæmt Þjóðskrá hefur verið minna keypt af þeim eftir að faraldurinn hófst í mars á þessu ári. Á milli mars- og ágústmánaðar hefur heildarvirði viðskipta á atvinnuhúsnæði dregist saman um rúman þriðjung, ef miðað er við sama tímabil í fyrra.
Hins vegar má ekki sjá jafnmikinn samdrátt í leigutekjum félaganna þriggja. Á fyrstu níu mánuðum ársins minkuðu leigutekjur hjá Reitum um sjö prósent, en samdrátturinn nam aðeins einu prósenti hjá Reginn og leigutekjurnar jukust um eitt prósent hjá Eik.
Mestmegnis vegna hóteleigna
Áhrif COVID-19 faraldurs eru þó ljós ef leigutekjurnar eru skoðaðar eftir atvinnugreinum. Samkvæmt ársreikningi Reita hafa leigutekjur af skrifstofuhúsnæði raunar aukist lítillega og einungis lækkað lítillega í verslunarhúsnæði félagsins.
Langmesta samdráttinn hjá öllum félögunum má sjá í leigutekjum frá hóteleignum þeirra, en hann nam 371 milljónum króna hjá Eik og rúmum hálfum milljarði króna hjá Reitum. Samkvæmt fjárfestakynningu Regins hefur leiga á eignum félagsins verið bakfærð á öðrum og þriðja ársfjórðungi að andvirði 360 milljóna króna.
Eignir minna virði en áður
Til viðbótar við minni leigutekjur hafa félögin þrjú einnig þurft að færa eignar sínar niður í virði, þar sem vænst er þess að þær muni ekki skila jafnmiklum tekjum og áður var ætlað. Reitir lækkuðu virði eigna sína um tæpa 800 milljón króna á tímabilinu, en samsvarandi lækkun hjá Eik nam tæpum hálfum milljarði króna.
Virði hóteleigna Regins minnkaði einnig um tæpa 800 miljón króna, auk þess sem virði verslunarhúsnæðis í eigu félagsins minnkaði einnig um 200 milljónir, þá jókst virði skrifstofuhúsnæðis þess um rúman milljarð. Þar af leiðandi voru litlar sem engar breytingar á virðismati eigna Regins á fyrstu níu mánuðum ársins. Hins vegar er það mikil breyting frá sama tímabili á síðasta ári, þegar virði eigna félagsins hækkaði um 3,3 milljarða króna.
Hlutafjáraukning og arðgreiðslur
Samhliða verri rekstrarskilyrðum efndu bæði Reitir og Reginn til hlutafjárútboðs til að styrkja eiginfjárstöðu sína í síðasta mánuði. Með útboði sínu náði Reginn að tryggja alls 600 milljónir króna, en útboð Reita var öllu stærra í sniðum og fékk félagið rúma fimm milljarða króna frá hluthöfum í kjölfar þess.
Bæði félögin greiddu líka arð á tímabilinu, en arðgreiðslur Regins námu rúmum hálfum milljarði, á meðan þær voru rétt yfir einum milljarði hjá Reitum. Eik efndi ekki til hlutafjárútboðs og greiddi engan arð á tímabilinu.