Mynd: EPA

Vaxandi spenna í Taívan-sundinu

Kínverski herinn hefur aukið þunga heræfinga sinna í nágrenni Taívans á síðustu mánuðum og náðu heræfingar þeirra í háloftum Taívans hámarki í október. Auknar heræfingar og orðræða kínverskra stjórnmálamanna hefur vakið áhyggjur um að Kína sé að undirbúa árás á Taívan, sem stjórnvöld í Peking telja vera órjúfanlegan hluta af Kína.

Síðastliðinn október flaug kínverski herinn tuttugu og fimm sinnum inn fyrir taívanska lofthelgisvæðið. Spennan milli Taívan og Kína er ekki aðeins bundin við heræfingar kínverska hersins. Embættismenn beggja ríkja lentu í slagsmálum á Fídjíeyjum síðastliðinn 8. október sem endaði með spítalainnlögn eins embættismanns frá Taívan.  Taívönsk yfirvöld segja atvikið hafa átt sér stað á verslunarskrifstofu Taívans á Fídjíeyjum - sem er í raun sendiráðið þeirra. Kínversk stjórnvöld halda því hins vegar fram að atvikið hafa átt sér stað á almannafæri, eftir að taívönsku embættismennirnir ögruðu þeim kínversku. Báðar hliðar vilja meina að embættismenn þeirra hafi slasast í átökunum.

Í ljósi aukinnar spennu í Taívan sundinu hvatti forseti Taívans, Tsai Ing-Wen, kínversk stjórnvöld í ræðu sinni, tveimur dögum eftir slagsmálin, til þess að draga úr herskárri afstöðu sinni og hvatti til friðsamlegrar viðræðna í staðinn. Stuttu síðar birti kínverska ríkissjónvarpsstöðinni CCTV myndband af heræfingum kínverska hersins í Suður-Kínahafi. Líklegt þykir að birting myndbandsins hafi verið ætluð til að senda skýr skilaboð til Taívans og Bandaríkjanna, sem er mikilvægasti bandamaður Taívans. 

Kínversk stjórnvöld líta á Taívan sem órjúfanlegan hluta Kína 

Ríkisstjórn alþýðulýðveldisins Kína hefur ávallt litið á eyjuna Taívan sem órjúfanlegan hluta af Kína og á sig sem hið eina réttmæta stjórnvald eyjarinnar. Taívan hefur hins vegar í raun verið sjálfstætt ríki síðan Kínverski þjóðernisflokkurinn (Kuomintang) flúði til eyjunnar eftir ósigur í kínversku borgarastyrjöldinni árið 1949.

Auglýsing

Þá flúðu 1,2 milljónir Kínverja af meginlandinu en fyrir bjuggu 6 milljónir manns á eyjunni og stór hluti þeirra voru etnískir Han Kínverjar. Á þeim tíma má segja að Kína hafi klofnað í tvennt, í Alþýðulýðveldið Kína á meginlandinu og Lýðveldið Kína í Taívan. Á þessum tíma gerðu kínversku lýðveldin tvö bæði tilkall til landsvæðis meginlands Kína og Taívans. Sú afstaða hefur lítið breyst á meginlandinu en stjórnvöld í Taívan hættu að gera tilkall til meginlandsins fljótlega eftir lýðræðisvæðingu eyjunnar, sem átti sér stað í lok níunda og byrjun tíunda áratugar síðustu aldar.  

Í dag er Taívan, sem ennþá heitir formlega Lýðveldið Kína, tiltölulega frjálslynt lýðræðisríki og er meðal annars eina landið í Asíu sem leyfir hjónabönd samkynhneigðra. Íbúar eyjunnar eru rúmlega 23 milljónir í dag sem líta í auknu mæli á sig sem Taívanbúa en ekki Kínverja. Árið 2020 skilgreindu 67 prósent íbúa Taívan sig einungis sem Taívanbúa, tæplega þriðjungur sem bæði Taívanbúa og Kínverja en einungis 2,4 prósent sem Kínverja, að því er kemur fram í árlegri könnun á vegum Kosningamiðstöðvar Chengchi Háskóla í Taívan. 

Xi Jinping er forseti Kína.
Mynd: EPA

Á síðustu áratugum hafa kínversk stjórnvöld iðurlega talað um friðsamlegar aðferðir til þess að ná yfirráðum yfir eyjunni. Hins vegar eftir að Xi Jinping tók við sem forseti Kína hefur hann sett aukna pressu á sameininguna yfir Taívan sundið og hefur tekið það skýrt fram að Kína og Taívan þurfi og muni sameinast, með valdi ef til þarf. Sameiningin er hluti af framtíðarsýn Xi Jinping um að hefja Kína aftur til fyrri dýrðar, sem mun ekki gerast fyrr en kínverska þjóðin er sameinuð á ný. 

Frá viðskiptum til stjórnmála

Eftir flótta kínverska þjóðernisflokksins (Koumingtang) til Taívans voru engin samskipti, viðskipti eða ferðalög milli Taívans og Kína. Það breyttist árið 1992 þegar báðir aðilar viðurkenndu hin svokallaða „92 samhljóðan”. Þar samþykktu bæði ríkin að aðeins væri til eitt Kína en þau leggðu þó ólíkan skilning í hvort það vitnaði í Alþýðulýðveldið Kína eða Lýðveldið Kína. 

Sáttmálinn gerði yfirvöldum á meginlandi Kína og Taívan kleift að auka samskipti, ferðir og viðskipti, án þess að ráða úr deilunni um fullveldi Taívans og Kína. Stjórnvöldin í Peking vonuðust til þess að aukin samskipti og verslun myndi leiða til friðsamlegrar sameiningar yfir sundið. Viðskipti hafa vissulega stóraukist yfir Taívan sundið og er meginland Kína í dag stærsti viðskiptafélagi Taívans. Aukin viðskiptatengsl hafa hins vegar ekki leitt til pólitískrar sameiningar. Í dag þykir það nánast ómögulegt að friðsamleg sameining muni eiga sér stað í bráð. Í mars árið 2020, sögðust aðeins 0,8% íbúa vilja sameinast meginlandinu í náinni framtíð í könnun sem var framkvæmt af meginlandsráðinu í Taívan.

Sigur Tsai Ing-Wen í forsetakosningunum í Taívan og refsiaðgerðir kínverskra stjórnvalda


Samband Kína og Taívans versnaði til muna í kjölfar sigur Tsai Ing-Wen, forsetaframbjóðenda Lýðræðislega framfaraflokksins, í forsetakosningunum í Taívan árið 2016. Eftir sigur hennar þrýstu stjórnvöld í Peking á hana til þess að staðfesta “92 samstöðuna”, sem hún neitaði að gera. Tvö af hennar helstu stefnumálum voru að gera taívanskan efnahag minna háðan Kína og að standa vörð um „de-facto” sjálfstæði Taívans. 

Auglýsing

Kína brást við neitun Tsai á „92 samhljómnum” með því að hrinda í framkvæmt margþættum aðferðum til þess að refsa og þvinga Taívan til undirgefni. Peking hefur til dæmis dregið úr fjárfestingu og túrisma í Taívan, ásamt því að takmarkað getu þeirra til að taka þátt í ýmsum alþjóðlegum stofnunum. Að mati kínverskra stjórnvalda má rekja spennuna milli Taívans og Kína til höfnunar Tsai og flokks hennar á “92 samstöðunni” og samsæri þeirra við erlend öfl.

Stuðningur Bandaríkjanna við Taívan

Þegar kínversk stjórnvöld tala um samsæri Taívans við erlend öfl er átt við samband Bandaríkjanna og Taívans. Bandaríkin eru mikilvægasti bandamaður Taívans þrátt fyrir að viðurkenna eyjuna ekki sem sjálfstætt ríki. Stefna Bandaríkjanna í málefnum tengd Taívan deilunni í gegnum tíðina hefur einkennst að stefnumiðaðri tvíræðni. Bandaríkin hafa aldrei skuldbundið sig að koma Taívan til varnar ef kínverski herinn ræðst inn en hafa aldrei tekið það af borðinu. Þau hafi stutt eyjaríkið með veglegri vopnasölu í gegnum árin og komu þeim m.a. til varnar þegar Kína ögraði Taívan með eldflaugatilraunum árið 1996. Þá sendi stjórn Bill Clintons stærsta herflotann sem Bandaríkin höfðu sent til Asíu síðan í Víetnam stríðinu. 

Þrátt fyrir að Bandaríkin viðurkenni ekki Taívan sem sjálfstætt ríki, þá var eyjaríkið í ellefta sæti yfir stærstu viðskiptafélaga Bandaríkjanna árið 2019. Landfræðileg staðsetning Taívans skiptir einnig miklu máli fyrir hagsmuni Bandaríkjanna á Kyrrahafs- og Asíusvæðinu. Ef Kína myndi ná yfirráðum yfir Taívan myndi það hafa miklar afleiðingar fyrir valdajafnvægið á svæðinu og veikja stöðu Bandaríkjanna þar. Það myndi veita Kína leið til Kyrrahafsins og þar gætu herflugvélar þeirra, skip og eldflaugar ógnað bandarískum svæðum á borð við Gvam og mögulega Hawaii. Kína gæti einnig ógnað Japan frá Taívan, þar sem Bandaríkjamenn eru með tugi þúsunda hermann.

Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, hefur sýnt Taívan mikinn stuðning.
Mynd: EPA

Eins og stjórnmálaskýrendur hafa bent á,  kemur lítið á óvart að stuðningur við Taívan er eitt af fáum málefnum sem báðir stóru flokkarnir í Bandaríkjunum eru í meginatriðum sammála um. Í stjórnartíð Trumps hefur þingið reglulega samþykkt löggjöf til að bæta varnir Taívans og auka alþjóðleg áhrif þeirra sem bæði Demókratar og Repúblikanar hafa samþykkt samhljóma.

Fáir forsetar Bandaríkjanna hafa sýnt Taívan jafn mikinn stuðning eins og Donald Trump. Bandaríkin hafa sent tvo háttsetta embættismenn í opinbera heimsókn til Taívans síðan í ágúst á þessu ári, Kína til mikillar óánægju. Einnig hefur Bandaríkjastjórn í valdatíð Trumps sent herskip um Taívan sundið, opnað nýja skrifstofu í Taívan og selt Taívan vopn fyrir milljarða Bandaríkjadollara. Til dæmis seldu Bandaríkin Taívan nýjar F-16 orrustuþotur fyrir 8 milljarða Bandaríkjadollara árið 2019.

Vopnasala Bandaríkjanna til Taívans er engin nýlunda í Bandarískum stjórnmálum, þó Trump hafi vissulega verið ófælnari en fyrirrennarar sínir Barack Obama, George W. Bush og Bill Clinton, að samþykkja veglegri vopnasölur til Taívans. Vopnasala til Taívans hefur yfirleitt verið rökstudd með vitnun í Taívan lögin sem voru samþykkt árið 1979, fljótlega eftir að Bandaríkjastjórn rauf stjórnmálasamband sitt við Taívan í þágu Kína. Lögin hafa lagt grunninn að óformlegu stjórnmálasambandi Bandaríkjanna og Taívan allt til dagsins í dag. Þau fela meðal annars í sér að framtíð Taívans verði leyst með friðsamlegum hætti og aðeins með samþykki taívönsku þjóðarinnar. Í lögunum kemur einnig fram að öll atlaga Kína til þess að ráðast á Taívan sé alvarlegt áhyggjuefni Bandaríkjanna. 

Kínversk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt samskipti Bandaríkjanna og Taívan

Kínversk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt samskipti Bandaríkjanna og Taívans, einkum og sér í lagi vopnasöluna. Zhao Lijian, talsmaður utanríkisráðuneytisins í Kína sagði að vopnasalan „skaði fullveldi og öryggishagsmuni Kína verulega, sendir röng merki til sjálfstæðissinna í Taívan og stórskaði samband Kína og Bandaríkjanna og frið og stöðugleika í Taívan sundinu.”

Auglýsing

Hann bætti við að Kína muni bregðast við á lögmætan og nauðsynlegan hátt. Einnig gagnrýndi talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, Wang Wenbin, heimsóknir bandarískra embættismanna harðlega. Hann benti á að Taívan deilan væri mikilvægasta og viðkvæmasta vandamálið í samskiptum Bandaríkjanna og Kína og bað Washington um að stöðva hvers konar opinber samskipti til þess að koma í veg fyrir alvarlegan skaða á sambandi Bandaríkjanna og Kína.

Þrátt fyrir að nánara samband Taívans og Bandaríkjanna er ljóst að Taívan gerir sér grein fyrir hættunni sem gæti fylgt of nánum samskiptum ríkjanna. Utanríkisráðherra Taívans, Joseph Wu, sagði í viðtali við fréttastofu NPR síðastliðinn september að Taívan myndi ekki sækjast eftir því að koma á fót formlegu stjórnmálasambandi við Bandaríkin. Það myndi tvímælalaust gefa Taívan aukna viðurkenningu á alþjóðavísu en væri of ögrandi skref í augum kínverskra stjórnvalda. 

Mun Kína að ráðast inn í Taívan? 

Það eru skiptar skoðanir á tilgangi heræfinga kínverskra hersins í nærumhverfi Taívans og hvort þær séu raunverulega merki þess að Kína sé að undirbúa sig fyrir innrás. Það þykir hins vegar ólíklegt að Kína muni ráðast til atlögu á næstunni. Kharis Templeman, lektor í Austur-Asíufræðum við Stanford Háskólann, færði rök fyrir því í grein sinni fyrir The Diplomat að heræfingar kínverska hersins væri ekki merki um að Kína ætlaði að ráðast inn í Taívan. Heldur væri það merki um veikleika kínverskra stjórnvalda til þess að leysa úr Taívan deilunni með öðrum leiðum. Eins og kom fram fyrr í fréttaskýringunni hefur viðleitni kínverskra stjórnvalda til að sameinast Taívan ekki skilað tilsettum árangri. Templeman bendir á að stjórn Xi Jinping sé búin að mála sig út í horn þegar kemur að Taívan og eina leiðin þeirra til þess að sýna óánægju sína með samskipti Bandaríkjanna og Taívans sé að ógna þeim með auknum heræfingum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar